After all, tomorrow is another day!

föstudagur

SigloCity í den

Kvöld eitt á SigloCity fyrir mörgum árum síðan, vorum við nokkrar vinkonur á unglingsaldri á röltinu í bænum á laugardagskvöldi í leit að einhverjum á bíl sem við gætum betlað rúnt af, sem okkur þótti hin besta skemmtun um helgar. Eina skilyrðið var að í bílnum væri einhver sætur og skemmtilegur, nema bílstjórinn mátti alveg vera nörd eða lúði þar sem hann þjónaði jú ákveðnum tilgangi. Rákumst við þetta kvöld á ansi spennandi kost að okkur fannst, sem voru 3 náungar af Króknum (Sauðárkróki) sem við könnuðumst við og þóttu bara alveg í lagi. Það þótti nú ekki tiltökumál að troða sér aðeins fleiri í bílinn en sætapláss bauð uppá, sem við og gerðum. Eftir smárúnt þurftum við stelpurnar að komast á pissið og var því stoppað fyrir framan sundlaugina svo við gætum hent okkur þar á bakvið hús og sinnt kalli náttúrunnar. Þegar ein var að standa upp greip hún í hurðarhún sem gaf eftir og hurðin opnaðist, hafði þá Baddi sundlaugarvörður greinilega gleymt að læsa húsinu. Þetta þótti okkur nú aldeilis spennandi og rukum upp á veg og hóuðum í strákana sem hlýddu kallinu (offkors), nema bílstjórinn sem varð auðvitað að vera á verði. Sundlaugin á Sigló var þannig þegar við vorum yngri að á veturna var sett gólf yfir laugina svo hægt væri að kenna íþróttir í skólanum, þar sem við áttum ekki íþróttahús. Við fórum inn í hús og hlupum þar um og fífluðumst, hoppuðum á einhverjum dýnum og höguðum okkur eins og unglinga er siður við slíkar aðstæður. Eftir stutta stund sáum við ljóstýru frá vasaljósi nálgast okkur frá hinum enda hússins. Var þá ekki Baddi mættur til að reka þessa stórhættulegu unglinga út og var kallinn búinn að hringja á lögguna í þokkabót. Það eina sem hræddi mig við lögguna var það að mágur móður minnar var þar háttsettur og auðvitað var hann á vakt þessa nótt og mætti til að lesa yfir þessum brjáluðu unglingum sem höfðu brotist þarna inn. Ég grátbændi hann um að segja mömmu ekki frá þessu því eins sárasaklaust og þetta var þá vissi maður að foreldrarnir litu hlutina ekki endilega sömu augum og maður sjálfur. Þar sem búið var að eyðileggja allt fjörið var öllum bara skutlað heim í háttinn.

Næsta dag var öll fjölskyldan í mat hjá ömmu Gunnu og eitthvað fannst mér mamma afundin og skrýtin við mig svo ég fékk kuldahroll og svitaköst til skiptist því nú var bara spurning um hvenær ég fengi skammir frá foreldrum mínum vegna þessa. Því eins og allir vita eru skammir frá foreldrum eitthvað það leiðinlegasta sem unglingar vita. Ég ákvað því að vera bara töff á því og redda málunum og var reddingin eitthvað á þessa leið:

Spretturinn við mömmuna: Mamma, pældí´ðí í gær maður þá vorum við bara á rúntinum sko, ég og Magga og Bylgja, með vinum okkur af Króknum, fórum sko að pissa bakvið sundlaugina og spáðí´da, það bara opin hurðin inn. Við vorum ekkert að reyna að opna sko, hún opnaðist bara þegar Magga eða einhver rak sig í húninn, eða sko það var allavega ekki ég. Við kíktum bara aðeins inn og þá bara löggan komin allt í einu. Eða Óli var sko á vakt, var hann ekki annars búin að segja þér þetta????.......

Mamman svarar: Neei!!!

Ég dó.

Sprettur hjartahreini

Ps. Myndin í gær var skemmtileg, fyndin og bara hið fínasta tjikkflikk.

fimmtudagur

Vor í lofti

Hjólaði í vinnuna í morgun sem var afskaplega frískandi og gott. Legg af stað úr Fannafoldinni kl. 7:00 og er komin í Efstaleitið ca. 7:25, að minnsta kosti svona í byrjun sumars þegar maður er að komast í hjólagírinn svona úti undir beru lofti. Stefni á að taka þetta á 20 mínútum þegar fram líða stundir. Má heldur ekki vera styttra því þá tæki því varla að hjóla þetta. Kemur alltaf jafnmikið á óvart hvað þetta er ægilega ólíkt því að hjóla í Klassanum, alveg eins og að hlaupa á bretti eða úti er gjörólíkt og persónulega finnst mér ægilega leiðinlegt að hlaupa úti. Legg af stað í þvílíka hlaupagírnum og svo eftir nokkrar mínútur þá einhvern veginn veit ég ekkert hvert ég á að hlaupa, mér er farið að leiðast alveg óskaplega og er bara ekkert vön að fá kalt loft í lungun þegar ég hleyp. Svona er Ísland í dag J. Folinn hjólar stundum í Klassann á morgnana og er þá yfirleitt í keppni við sjálfan sig, þ.e að bæta tímann frá því síðast. Hans besti tími hingað til úr Fannafoldinni niður í World Class er tæplega korter. Ég væri dauð þrisvar sinnum ef ég ætlaði að reyna það en hann er svosem í betra formi en ég svo maður verður bara að sætta sig við að vera second best ;).

Prinsessan er að fara á hestbak með vinkonu sinni í dag svo kannski maður verði bara ógurlega duglegur og hjóli heim í ”hinn” æfingagallann og taki aðeins á því í Spönginni líka. Annars fer ég nú ekki oft á æfingu þá daga sem ég hjóla í og úr vinnu, finnst það einhvernveginn ágætisæfing en þó er undantekning á reglunni.

Í kvöld ætla nokkrar skvísur af vinnustað mínum að skella sér í bíó, þar á meðal ég. Planið er að sjá Failure to launch með Sarah Jessica Parker og Matthew McConaughey. Myndin fær að vísu ekkert sérstaka dóma en okkur er alveg sama…..MM fer úr að ofan og það er nóg til að tæla túttur eins og okkur í bíó.

Á mbl. í dag er sagt frá konu sem krefst skaðabóta fyrir að hafa verið flengd á vinnustað sínum. Þetta var víst hluti af því að hún tapaði samkeppni sem haldin var meðal söluhópa til að auka sölu fyrirtækisins. Átti að refsa þeim sem töpuðu á ýmsan hátt, t.d. með flengingum, þeir látnir ganga með bleyju og ýmislegt annað huggulegt. Ég skil konugreyið alveg að vera ekkert sérstaklega sátt við þetta, en að hafa látið það viðgangast að vera flengd í fyrsta stað og heimta síðan skaðabætur fyrir niðurlæginguna, þann hluta átta ég mig ekki alveg á. En þetta var auðvitað í Bandaríkjunum svo það þarf kannski ekkert frekari skýringa við. Fólk sem kýs George W. Bush sem forseta landsins...aftur...hlýtur að sakna einhverra heilasella og það brýst út í allskyns vitleysisgangi eins og hér að ofan. Íslendingar ættu kannski að taka upp slíka refsingu í dómskerfinu, þeir sem lemja, nauðga og stela fá þá bara rassskell í staðinn fyrir þessa 2 daga skilorðsbundið sem virðist vera venjan.

Önnur góð frétt er á þann veg að Páfagarður sé að láta rannsaka smokka og hvort leggja eigi blessun sína yfir notkun þeirra hjá kaþólskum hjónum þegar annað er smitað af HIV veirunni. Talsmenn Páfagarðs kenna að besta vörnin gegn HIV sé kynlífsbindindi. Svo er ætlast til þess að maður taki boðskap þessara manna alvarlega!!!!.....hætti nú alveg að snjóa segi ég bara.

Sprettur rassskellir

miðvikudagur

Komin heim

Nú geta æstir aðdáendur tekið gleði sína aftur þar sem Spretturinn er mættur til leiks á ný eftir nokkurra daga frí í kóngsins Köbenhavn. Ferðin var fín og fengum við Folinn hið ákjósanlegasta veður til að spóka okkur í borginni. Lítið frá ferðinni að segja annað en það að hún heppnaðist afskaplega vel, röltum mikið, borðuðum góðan mat, sjoppuðum smávegis og komum svo heim í gærkveldi þar sem Prinsessan tók á móti okkur eins og hún hefði endurheimt okkur úr svaðilför mikilli . Maður nýtur þess að vera svona ægilega elskaður og sárt saknað af örverpinu, sérstaklega þar sem sá tími kemur sjálfsagt fyrr en síðar að þessi sama gleði mun heltaka hana þegar við skiljum hana eftir heima er við förum í slíkar ferðir sem þessa. Best að njóta þess meðan það varir.

Framundan er bara stútfull vika af æfingum og bíður minn fagri kroppur óþreyjufullur eftir því að komast í Spöngina í dag. Mun (hel)taka á því svo annað eins mun ekki hafa sést í úthverfum borgarinnar síðan Gullfoss gaus (já ég veit).

Stutt blogg í dag sökum anna eftir fríið.

Spretturinn kveður með sól í hjarta og snjó á götum.

Fermingar

Páskarnir komnir og farnir, annað frí framundan eftir stutta vinnuviku. Fer til Köben á föstudag og kem líklega ekki fyrr en degi seinna en ætlað var, þ.e. á mánudaginn. Tvöföld fermingarveisla á morgun hjá systkinabörnum Folans sem halda sameiginlega veislu fyrir vini og vandamenn. Mikið finnst mér sniðugt þegar fólk gerir svoleiðis. Ég fermdist fyrir 20 árum síðan í Siglufjarðarkirkju og var haldin sameiginleg veisla fyrir okkur tvær frænkurnar sem okkur fannst bara voðalega gaman. Það komu fleiri gestir sem þýddi í rauninni fleiri pakka handa okkur því fólki fannst alveg óhæft að mæta bara með pakka handa því fermingarbarni sem bauð því til veislunnar, úr því við vorum tvær þá skyldum við báðar njóta góðs af. Auðvitað voru ”aukapakkarnir” ekkert alltaf eins flottir eða stórir og ”alvörupakkarnir” en hverjum var ekki sama. Það tíðkaðst ekki eins að gefa peninga á þessum tíma og fékk maður því ekki mikið af slíku. Þó man ég að ég fékk heilar 25.000 krónur sem ég lagði á banka og eyddi síðan stuttu síðar en í hvað get ég ómögulega munað. Ég man heldur ekkert eftir því hvað ég fékk í fermingargjöf frá öllu þessu fólki en þó man ég eftir svefnpoka sem ég fékk og týndi síðan eina verslunarmannahelgi Húsafelli nokkrum árum síðar. Pabbi og mamma gáfu mér Apple tölvu sem var það alflottasta og besta sem ég hafði nokkru sinni fengið að gjöf, þrátt fyrir að ég kynni ekkert á hana, fyrir utan leikina sem fylgdu með. Allir mínir vinir öfunduðu mig alveg rosalega mikið og fannst að það hlyti að vera fínt að eiga svona ríka foreldra....sem mér fannst. Veislan var haldin á heimili foreldra minna sem bjuggu í stærra húsi en frænka mín. Undirbúningur var mikill og safnaðist öll fjölskyldan saman heima hjá ömmu Gunnu þar sem grillaðir voru kjúklingar, roastbeef steikt, salöt búin til og guð má vita hvað. Þetta var alveg ógurlega skemmtilegt að mér fannst, að vera heima hjá ömmu langt fram á nótt að elda og dúllast í matnum fyrir veisluna mína. Yngstu systur hans pabba, sem ekki er nema fimm árum eldri en ég og var alltaf eins og stóra systir frekar en föðursystir, leit ég alltaf mikið upp til þegar ég var barn og á þessum tíma var hún með stutt hár sem var blásið ægilega mikið til hliðar og í vöngum og að aftan var það litað kirsuberjarautt. Allar hinar stelpurnar fóru í hárgreiðslu, nema ég fór til Jónu frænku og lét hana lita og blása á mér hárið alveg eins og hennar....og fannst ég langflottust, sem ég náttúrulega var . Í bekknum var strákur sem var mikið í hestum og hjá fjölskyldu hans dvaldist ungur tamningamaður frá Þýskalandi sem hét Ralf, en svo vildi til að hann og Jóna frænka urðu kærustupar. Mér fannst þessi maður alveg óskaplega fallegur og lá við að ég legði fæð á frænku mína á tímabili fyrir að hafa náð í hann. Í kirkjunni sat hann á fremsta bekk með fjölskyldu bekkjarfélaga míns og þegar ég leit til hans í eitt af mörgum skiptum þá blikkaði hann mig og brosti, enda þekkti hann mig auðvitað, litlu frænkuna hennar Jónu. Ég reis öll upp í sætinu, brosti pínulítið á móti og hitnaði öll inn í mér því nú var ég sko alveg viss um það að hún Jóna frænka gæti bara gleymt honum Ralf því hann væri sko örugglega orðinn ástfanginn af mér. Hann fór þó fljótt til síns heima á ný og ástin kulnaði, enda nóg af fiskum í sjónum á SigloCity.......hmmmm .

Anyways, fjölskyldan hafði það nokkuð gott um páskana. Vorum með matarboð fyrir fjölskylduna á föstudaginn langa og fórum í matarboð til foreldranna á páskadag. Annars var bara æft af fullum krafti alla dagana, skroppið í Heiðmörk og kíkt í bíó. Unglingurinn var að vinna mikið um páskana svo við sáum ekkert voðalega mikið af honum, en þó eitthvað. Ágætis frí svona overall. Vann í gær, vinn í dag, síðan frí fram á þriðjudag í næstu viku.

Sprettur kveður

Páskafrí

Kom heim í gær eftir að hafa sótt Unglinginn í vinnuna. Þar hafði Prinsessan verið með Prakkarann og eina frænkuna í heimsókn og fór það ekkert á milli mála. Þau höfðu greinilega fengið sér að borða....nokkrum sinnum og á hinum ýmsu stöðum í húsinu. Ekkert alvarlega mikið drasl en það beið bara eftir þeim þegar þau komu heim úr sundinu. Ég skellti mér á æfingu í Spönginni þar sem ég tók vel á í rúman klukkutíma. Tek aðra eins í dag eftir að búið er að fara með Prinsessuna og Unglinginn í klippingu. Unglingurinn verður nú að vera frambærilegur fyrir allar dönsku tútturnar í næstu viku . Í gær var ákveðið að leyfa frænkunni og Prakkaranum að gista í kvöld og verður því örugglega fjör í Fannafoldinni í kvöld. Við Folinn erum reyndar að fara í smá kokteilboð svo Unglingurinn verður kannski fenginn til að sitja hjá þeim í smátíma, ef hann verður ekki farinn úr bænum. Hann stefnir á Snæfellsnesið í tvo daga þar sem hann ætlar að slaka á og hafa það notalegt, kannski að kíkja aðeins í kennslubækur fyrir samræmdu prófin ef hann nennir.

Í gær var ein sú heimskulegasta niðurstaða úr könnun birt á mbl.is, en það var kosningin um besta fræga föðurinn.....þarf að segja meira Þar fór Bob Geldof fremstur í flokki meðal jafningja og þótti bestur fyrir að eiga þrjár stelpur með Paulu Yates og hafa ættleitt yngstu dóttur hennar og Michael Hutchense eftir að þau höfðu bæði framið sjálfsmorð í einhverri vímunni. Á eftir honum komu síðan margir misfrægir sem þóttu meðal þeirra tíu bestu. Mér finnst þetta asnalegt og út í hött að vera að setja upp einhverja bjánakönnun um svona fáránlega hluti en verð í sömu andrá að viðurkenna að ég las nú samt ”fréttina” svo tilgangnum er sjálfsagt náð hjá þeim sem að henni stóðu, fólk les svona vitleysu........ Ég er nú líka svolítill sökker fyrir slúðri. Er ekki mikið í Séð & Heyrt pakkanum en á nokkuð stóran stafla af blöðum eins og ”In Style”, ”Hello”, ”Cosmo”.....osfrv.

Jæja, það er eiginlega hægt að segja að í dag sé föstudagur. Yndislegt fimm daga frí framundan þar sem ég ætla að nota skynsamlega, s.s. æfa mikið, borða mikið og vera mikið löt. Kannski fæ ég eitt lítið páskaegg . Eftir það er vinna í tvo daga og svo fer ég í annað fimm daga frí þar sem ég ætla að fara í eina fermingarveislu og skreppa svo til Köben í tvo daga. Hótelið sem við verðum á er með þessa fínu líkamsræktarstöð, SPA, sundlaug og guð má vita hvað. Ætli við hjónin fáum okkur ekki bara reiðhjól og skrollumst um borgina á þeim ef veðrið er gott. Höfum gert það áður og er eiginlega eina rétta leiðin til að fara um svæðið, nema fyrir þá sem hætta sér ekki út fyrir Strikið. Hitti eina í gær sem er að fara í sömu ferð og fannst voðalega fúlt að eiga bara laugardaginn alveg lausan (föstudagskvöldið planað og því kannski lítið farið á eitthvað sjopperí) því búðirnar væru bara opnar til tvö á laugardögum!! :/ .....voða fínt að fara í búðir í útlöndum EN, ef stoppið er stutt þá nenni ég nú ekki að þræða búðargötur á öðru hundraðinu eins og útspýtt hundsrassgat að kaupa einhverjar tuskur sem mig hvorki vantar né langar í......bara af því ég er í útlöndum. Allt í lagi að kaupa sér eitthvað en ekki bara hendast á milli búða....bara til að hendast á milli búða. Þá get ég bara alveg eins tekið einn laugardag í Smáralind og Kringlunni. Sjálfsagt kíkjum við aðeins í H&M eins og alltaf en við ætlum fyrst og fremst að hafa það gott, hjóla út í Kristjaníu, sitja á kaffihúsi og kannski kíkja í Tivoli sem opnar fyrir sumarið núna í apríl.

Jæja, best að fara að æfa sig í páskaletinni.

Spretturinn flottastur

þriðjudagur

Vorið er komið.....allsstaðar nema hér

Mánudagurinn skriðinn á fætur eftir þessa fínu helgi. Föstudagurinn var góður, Folinn mætti í hús og var mikil gleði að fá þessa elsku heim á ný eftir 3ja daga fjarveru. Um kvöldið var horft á lokaþáttinn af Idolinu þar sem Prinsessan fór á kostum með vinkonu sinni. Þær voru harðir stuðningsmenn Ínu og stóðu upp í hvert sinn sem nafn hennar var nefnt og klöppuðu eins og vitleysingar. Að sama skapi nenntu þær ekkert að hafa fyrir því að hlusta á Snorra og fóru bara inn í herbergi að leika þegar kom að honum Eftir allan spenninginn þá rotaðist Prinsessan ca. 10 mínútum áður en úrslitin urðu kunn svo svekkelsið kom ekki fyrr en á laugardeginum .
Ég fæ nettar skammir frá G-strengnum fyrir að vera með einhverjar matarlýsingar hér á blogginu án þess að setja inn uppskriftir svo það er best að skella inn hollustu (eða þannig.....)uppskriftum föstudagsins, en þær eru sem hér segir:

Laxacarpaccio
Nýr lax (var með ca. hálft flak fyrir okkur tvö og tvær litlar)
salt og pipar
xtra virgin olífuolía
sítrónusafi
graslaukur, helst ferskur

Sker laxinn í mjög þunnar sneiðar og raða á disk, salt og pipar. Set plastfilmu yfir og þrýsti vel á til að þynna sneiðarnar enn meira. Um það bil 10 mínútum áður en ég ber þetta fram þá skvetti ég vel af olífuolíu og sítrónusafa yfir og klippi svo graslauk ef maður vill hafa hann með.
Ber þetta fram með ristuðu brauði/smjöri og sýrðum rjóma með graslauk. Ægilega gott.

Fylltar kjúklingabringur
4 bringur
basilpaste (fæst í Gripið og greitt) eða basilblöð
steinselja
grilluð paprika frá Sacla
höfðingi eða dalayrja skorinn í sneiðar
prosciutto (parmaskina)

Kjúklingurinn er skorinn í miðju og flett upp (eins og fiðrildi). Smurt með basilpaste (eða basilblöð sett í) steinselja, grilluð paprika og osturinn sett í “hólfið”. Þá er prosciutto vafið utanum. Kjúklingurinn er létt brúnaður á pönnu, svo settur inn í ofn og bakaður við 180° í c.a 25 mín. Meðlæti: Ferskt tortellini með ostafyllingu
Einn bakki sveppir Ein rauð paprika Eitt zucchini Ca. 8 sneiðar af mögru beikoni
Beikonið er steikt þar til það er vel crispy, sett til hliðar, grænmetið brúnað og beikonið þá skorið smátt og blandað samanvið. Gumsið sett saman við soðið pastað ásamt lúkufylli af FERSKUM parmesan (EKKI í dós) og góðri smjörklípu.

Eftirréttur (uppskriftin reyndar komin frá G-strengnum en af einskærum ótta set ég hana líka hér inn þar sem ég hef örlítið breytt henni)
3 epli
1 bolli súkkulaðirúsínur
2 tsk kanill
Ca. 25 ritzkex (eða annað saltkex)
6 kókosbollur
smjör til steikingar

Eplin skorin í litla bita og sett á pönnu ásamt kanil og rúsínum, ritzkexið svo mulið smátt útí og gumsið mýkt aðeins á pönnunni. Sett í eldfast og kókosbollur skornar í tvennt langsum og raðað ofaná með sárið upp. Bakað í ca. 10-15 mín. á 180°.
Í það heila er þessi þriggja rétta máltíð ekkert sérstaklega flókin eða tímafrek. Ég var ca. klukkutíma að þessu öllu frá byrjun og þar til við borðuðum.

Jæja, þá hef ég uppfyllt mínar borgaralegu matarskyldur og sný mér að öðru ekki síður mikilvægu. Eins og fram kom var mín frekar brotin í bakinu svo engin æfing var tekin á fim. og fös. Fór út að hjóla á laugardaginn, tók góðan hring og var rétt rúman hálftíma sem var svosem ágætt nema ég hefði kannski hjólað aðeins meira og hraðar ef aumingjans hundurinn hefði ekki verið farinn að dragast afturúr síðustu metrana svo stefnan var bara tekin heim í höll. Var líka með rokið í andlitinu hálfa leið svo mér lá við andarteppu á tímabili. Fór svo í Laugar í gærmorgun þar sem ég tók eina góða.....mikið leið mér veeeeeeel á eftir .

Prinsessan og Unglingurinn komin í páskafrí frá námi næstu tvær vikur eða svo. Unglingurinn er með dollaramerki í augunum og verður vinna voða mikið um páskana. Þarf nú samt að gefa sér tíma í að læra svolítið fyrir samræmdu prófin líka. Þetta verður svosem stutt vinnuvika hjá manni bæði þessi og sú næsta. Þetta er það góða við páskana, ekkert verið að hringla með þessa daga, dagsetningarnar breytast frá ári til árs en alltaf sami dagafjöldinn sem maður fær í frí. Legg til að við breytum jólunum og skiptum út dagsetningunum þar líka svo launþegar fái sem mest frí út úr því. Og úr því við erum að tala um breytingar þá finnst mér alveg fáránlegt dómgreindaleysi hjá ráðamönnum þjóðarinnar að breyta ekki klukkunni á sumrin.

Sænski kokkurinn

Vikulok

Á föstudagsmorgnum er boðið upp á kaffi og meðlæti á starfsstöðinni og var það engin undantekning á í morgun. Spretturinn fær sér nú yfirleitt rúnstykki með osti og kannski smá sultu, er ekkert mikið að vesenast í sætabrauðinu. Í morgun var þó undantekning þar á og fór mín bara hamförum í slikkeríinu. Held ég kenni andlegu ástandi mínu sökum æfingaleysis í gær og líklega dag, alfarið um að hafa fallið fyrir þessu freistingum djöfulsins. Ætla semsagt að slaka í æfingu líka í dag þar sem rýtingurinn stendur enn út úr mjóbakinu á mér.

Í fyrramálið á ég að mæta hjá Nínu snyrtipinna í andlitsbað og french pedicure. Maður verður að hafa aðeins fyrir því að vera svona ótrúlega falleg eins og ég er. Eini gallinn er að sjálfsögðu sá að það er aldrei mínútufriður þegar maður fer út á meðal fólks þar sem almúginn hópast alltaf í kringum mig eins og mý á mykjuskán og heimtar að fá að berja gyðjuna augum . En ég sinni bara borgaralegri skyldu minn af stakri ró því einhverja gleði í lífinu verður ljóta fólkið að hafa. Æfing í Laugum verður líklega tekin að því loknu.

Annars kemur Folinn heim síðar í dag og planið er að reiða fram sælkeramáltíð handa fjölskyldunni, fylltar kjúklingabringur með basil, grilluðu paprikumauki og camembertosti, vafðar í parmaskinku og laxacarpaccio í forrétt. Unglingurinn verður líklega áfram í Fannafoldinni yfir helgina svo það verður bara fjölmennt. Síðan verður bara fylgst með lokaþætti Idol þar sem Prinsessan mun sjálfsagt sitja stíf af spenningi og púa á Snorra þar sem hún er einlægur aðdáandi Ínu eftir að Bríet Sunna datt út í síðasta þætti. Það er tvennt sem verður þess valdandi að þessi litla sæta Prinsessa gólar á sjónvarpið og argast og gargast við þá sem þar eru, annarsvegar er það Idolið og hins vegar er það enski boltinn. Alveg upp úr þurru er hún farin að hafa áhuga á að fylgjast með boltanum og þá sérstaklega Chelsea og Liverpool, líklega þar sem það eru einu liðin sem hún þekkir. Chelsea þekkir hún af því að vinkona hennar er systir Eiðs Smára og Liverpool þekkir hún því Unglingurinn bróðir hennar forfallinn Liverpool aðdáandi. Hafi hann horft á leik með liðinu einhversstaðar og kemur svo heim getur allt heimilisfólkið fundið á sér hvort hans lið vann eða ekki. Hann strunsar beint inn í herbergi og lokar á eftir sér með fýlusvip ef þeir tapa. Ef þeir aftur á móti vinna, brosir hann hringinn og ræður sér ekki fyrir kæti, rétt eins og hann hafi sjálfur skorað vinningsmarkið.

Gone with the wind
Sprettur

Ennþá alein

Maður verður allur svona extra ferskur þegar maður breytir æfingaprógramminu sem er nauðsynlegt svona annað slagið bara svo maður staðni nú ekki. Fer því miður ekki á æfingu í dag þar sem ég fór alveg í bakinu og datt hreinlega útaf skrifstofustólnum mínum rétt áðan. Vonandi að æstir aðdáendur muni ekki líða mikið fyrir fjarveru mína þessa tvo daga. Geri ráð fyrir að mæta alspræk og til í slaginn á laugardagsmorguninn í Laugum. Fer eitthvað varlega í lyftingarnar svona fram yfir helgina allavega.

Fór á Maður Lifandi í gærkveldi og sótti mér kvöldmatinn þar sem Prinsessan hafði fengið eitthvað gott í kroppinn hjá Sparifrænku í næsta húsi og Unglingurinn, sem ætlaði að kíkja í heimsókn, var að vinna til hálfátta. Fékk þar dýrindismat eins og vanalega og gúffaði því í mig fyrir framan sjónvarpið.

Folinn er væntanlegur á klakann annaðkvöld og verður vel tekið á móti honum við heimkomuna. Lendir reyndar ekki fyrr en seint um kvöldið þar sem millilent er í Stokkhólmi en hvað um það.

Jæja, nú á að ákæra aftur í Baugsmálinu. Erum við ekki öll búin að fá okkur fullsödd af þessu Baugsmáli. Jú jú, sjálfsagt er eitthvað rotið þar innanhúss en ég held að stjórnvöld ættu kannski að byrja að þrífa heima hjá sér áður en þeir ráðast í jólahreingerningu hjá öðrum. Árni Johnsen var nú dæmdur á sínum tíma en ég er þess fullviss að það komst ekki upp um allar hans gjörðir og hann er sko langt frá því að vera eina spillta barnið í þessari stóru fjölskyldu stjórnvalda. Hvernig var þetta t.d. með Jón Baldvin á sínum tíma sem hélt risapartý fyrir Bryndísi sína og skattborgarar borguðu brúsann.....vinurinn kom bara fram opinberlega og baðst afsökunar...ó ok, þá er þetta í lagi, sem það og greinilega var. Hvað haldið þið að þessir kallar séu búnir að fá í formi gjafa og greiða í gegnum tíðina. Hverjir eru helstu kostunaraðilar kosningabaráttu þessara manna...heldur fólk virkilega að stóru fyrirtækin sem styrkja þá fái ekki að njóta þess. Ekki misskilja mig, ég er alveg á því að ef Baugsmenn eru sekir um eitthvað af þessu sem þeir eru ákærðir fyrir þá eiga þeir alveg endilega að gjalda fyrir það, en í guðanna bænum hættið að flytja þetta leiðindamál í fjölmiðlum og látið okkur bara vita þegar dómur fellur.

Spretturinn út

miðvikudagur

I need a (my) man

Jæja þá er maður bara orðin grasekkja fram á föstudagskvöld þar sem Folinn er farinn á sína árlegu ráðstefnu/námskeið í Rotterdam. Var alltaf haldið í Amsterdam sem er nú ólíkt skemmtilegri borg en hafnarborgin Rotterdam, en þeir eru lokaðir inni á hóteli frá 7:30 á morgnana til 18:00 á daginn og þá tekur við kvöldverður svo það er lítill tími til að spóka sig í borginni hvort eð er.

Tók cardioæfingu i Spönginni í gær og verð að segja að ég er nú orðin nokkuð spræk á hjólinu sem er það tæki sem ég hef nánast aldrei notað. Ákvað að prófa þar sem ég ætla jú að vera svo ægilega dugleg að hjóla í vinnuna í sumar svo það er ágætt að vera í fínu ”hjólaformi” þegar að því kemur. Tek samt eftir því að þegar við vinkonurnar erum að æfa saman og förum á sama þolstig í brennslunni/cardio þá er ég að ströggla við að ná hjartslættinum upp í 130-138 en hún er komin í 163 á nó tæm sem er ótrúlega hátt miðað við hvað hún er dugleg í þolæfingum. Við komumst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa mælt líka hvíldarpúlsinn og minn var 54 slög en hennar 75 slög að hún væri ekki kona heldur fóstur.

Við Prinsessan leigðum okkur Black Beauty og horfðum saman. Hún var alveg heilluð þessi elska, enda mikil dýrakona og staðráðin í því að verða dýralæknir og eignast líka dýrabúð með Prakkaranum. Svo ætla þau að búa saman líka og fylla húsið sitt af dýrum. Hræðilegt, dóttir mín og systursonur verða skrýtna fólkið í stóra húsinu sem allir krakkar eru hræddir við og engin vill umgangast þau því það er svo vond lykt heima hjá þeim. Verð að tala hana ofan af þessari hugmynd í tíma .

Unglingurinn kom svo í heimsókn og ákvað að gista svo við vöktum yfir einhverri ræmunni rétt fram yfir miðnætti. Ætlaði maður síðan aldrei að geta sofnað þar sem ég er ógurlega vön (og mætti kannski segja háð) því að Folinn sé mér við hlið í rúminu. Allir því afskaplega syfjaðir og úldnir í morgun .

Nú eru bara að koma páskar svo framundan er nokkura daga frí sem er alveg hið besta mál. Vorum að spá í að fara kannski norður en ekkert ákveðið samt. Það eru svo margir að fara til SigloCity svo ég veit ekki hvort við nennum að vera að fara þangað í þrengslin. Kannski kíkjum við að Akureyri í 2-3 daga, leigjum okkur bara íbúð og höfum það gott, sérstaklega ef það verður skíðafæri.

Sprettur grasekkja

Helgarrapport

Helgin nokkuð góð bara, byrjaði á því að fara í litun og klippingu í morgunsárið og er því flottari en nokkurn tíma áður, ef það er mögulegt. Tók fantaæfingu í Spönginni eftir vinnu meðan Prinsessan fór í körfubolta. Kvöldið rólegt í faðmi fjölskyldunnar þar sem horft var á Idolið og tætt í sig saltkringlur og gulrætur með því. Vaknaði á laugardagsmorgun þar sem búið var að skipuleggja æfingu í Laugum með einni vinkonu. Tókum allsvakalega á því og æfingin stóð yfir í rétt rúmlega einn og hálfan tíma. Sturtuðum okkur og settumst síðan alsælar og vel æfðar í matsalinn þar sem við gæddum okkur á dýrindis sjávarréttarsúpu. Eftir hádegið kom Skottan til okkar og var í pössun fram á sunnudag þar sem Systir og Oddurinn voru að halda heljarinnar ”surprise” partý fyrir karl föður Oddsins. Við Folinn gerðum okkur lítið fyrir og fengum pössun fyrir þær stöllur um kvöldið þar sem við vorum boðin á Diesel tískusýninguna sem haldin var í iðnaðarhúsnæði í Vogunum. Sóttum stóra bróður Folans og mættum þar alspræk og kíktum á vor og sumartískuna í gallafatnaði. Skelltum okkur síðan í fertugsafmæli á NASA en renndum heim í höllina nokkuð snemma þar sem Unglingurinn sat fyrir framan kassann með þær tvær snúllur sofandi í fanginu og gat sig því hvergi hreyft .

Engin æfing á sunnudaginn þar sem ég hafði æft stíft síðustu sex daga. Mér líkar þetta ágætlega svona, þ.e. taka fríið á sunnudögum í stað föstudaga eða mánudaga. Prófa þetta í smátíma.

Ég verð nú aðeins að tjá mig um þetta Bubbafár sem hefur verið undanfarið. Alveg finnst mér ótrúlegt að hann skuli þykjast vera svona afskaplega sár og móðgaður yfir þessari forsíðu Hér & nú, sem var víst eitthvað á þá leið ”Bubbi fallinn”. Hverjum er svosem ekki sama hvort Bubbi væri fallinn eður ei. Þar fyrir utan hefur Bubbi sjálfur verið manna duglegastur við að segja alþjóð hvað hann var nú mikill dópisti og mikill kvennabósi. Ekki hafði hann áhyggjur af því að börnin hans væru að hlusta á hann í útvarpi og sjónvarpi þegar hann var að lýsa því að þegar hann var í dópinu þá hafi hann sko skverað 2 til 3 kellingar fyrir kaffi og hent þeim út jafnóðum. Enginn Íslendingur fyrr né síðar hefur verið jafnmikill og jafnsvakalegur dópisti og Bubbi, að minnsta kosti eins og hann lýsir því sjálfur. Einhvern veginn á ég bágt með að trúa því að þessi blessaða forsíða hafi valdið honum og hans jafnmiklu hugarangri og sorg eins og hann lýsir sjálfur. Segist ekki lengur þora nakinn í heita pottinn á pallinum heima hjá sér af ótta við að ljósmyndarar liggi í leyni. Bubbi minn, það hefur engin áhuga á að sjá á þér dingdongið og ef þú ert svona hræddur við að það verði fest á filmu mun ég einfaldlega gera ráð fyrir að þú sért kannski ekki mestur, bestur og stærstur á því sviði kallinn minn.

Spretturinn út