After all, tomorrow is another day!

mánudagur

Helgin

Við mæðgurnar skelltum okkur í jólagjafagírinn um helgina og héldum í slíkan leiðangur. Byrjuðum á því að vera ægilega menningarlegar og fórum á Laugaveginn. Þegar við stigum út úr bílnum fyrir utan Landsbankann frusum við á staðnum sökum mikils kulda. Var því skundað á aðeins meira en meðalhraða beinustu leið á Sólon þar sem við settumst niður og blésum hlýju í kalda lófa og pöntuðum okkur hádegisverð ásamt Stóru stelpunni og Tengdadótturinni, smá viðkoma við Kjörgarð þar sem maður einn sat í þessum nístingskulda og spilaði á harmónikku og fannst Prinsessunni bara sanngjarnt að staldra við og kroppa upp nokkra smápeninga til að skilja eftir handa honum svo hann gæti keypt sér eitthvað heitt að drekka. Eftir ágætis veitingar á Sólon, en hræðilega þjónustu, var farið beinustu leið upp Laugaveginn aftur, í bílinn og keyrt upp í Kringlu eins og annað venjulegt fólk sem ekki vildi frjósa í hel. Okkur tókst að kaupa þrjár og hálfa jólagjöf á laugardaginn og svo heimtaði Prinsessan að við færum aftur á sunndag, sem við og gerðum, þar sem við keyptum svo tvær og hálfa jólagjöf. Talsverður tími fór í að finna stóran vörubil handa einum litlum frænda sem á bara eina jólaósk, s.s. stóran vörubíl. Lítið var um slík ferlíki nema þá í verðflokki sem okkur fannst aðeins fyrir ofan skynsemismörkin, ég meina, hver kaupir plastvörubíl handa fjögurra ára gömlu barni á tæplega sjö þúsund krónur......allavega ekki ég.

Æfingar fengu sinn tíma alla síðustu viku og bæði á laugardag og sunnudag, mun Spretturinn því taka rólegan dag í dag og vera heima hjá sér í haugaleti og aumingjaskap, en taka upp þráðinn seinnipartinn á morgun og mæta fersk í Spöngina þar sem tekið verður á kroppnum innan um allt fallega fólkið sem þar æfir (þetta var spes fyrir þig Júlli ;o) )

Sprettur frostrós

þriðjudagur

Af unglingum og öðru fólki

Ég tók ógurlega æfingu í gær og var Spöngin full af fólki, misfríðu að sjálfsögðu eins og vanalega. Fótleggjafegrun var tekin með trompi og er óhætt að segja að sterkari, stæltari og stórfenglegri fótleggi en mína er ekki að finna svo víða, enda fylgja þeir restinni af þessum líka hrikalega flotta kropp sem mér fylgir. Anyway, nenni nú ekki að tíunda það sem allir vita, eina ferðina enn....þarna var ég í mestu makindum í upphitun fyrir ógurlegheitin þegar ég sé útundan mér að á einu hlaupabretti fyrir aftan mig er lítill hobbiti að rembast við að hlaupa á brettinu sem var helmingi stærra en hann sjálfur, enda rétt sá í glókollinn annað slagið þegar hann stökk upp á hlaupunum. Ég hélt að sjálfsögðu að þarna hefðu skynfærin verið að hrekkja mig eitthvað og hirti því ekki frekar um það þar til upphitun glæsikroppsins var lokið. Varð mér þá aftur litið á umrætt bretti, og viti menn....þarna skoppaðist, eins og álfur, einhver krakkaskítur sem mátti hafa sig allan við að renna ekki bara af brettinu, þar sem hann hefði þá sjálfsagt flogið yfir í hinn enda salarins sökum smæðar. Stuttu síðar sá ég og heyrði útundan mér að starfsmaður Klassans var að benda föðurfígúru drengsins á þá staðreynd að Klassinn væri ekki barnaheimili, en að honum væri velkomið að setja drenginn sinn, sem var u.þ.b. 8-10 ára gamall, í barnagæsluna á neðri hæðinni ef hann vildi hafa hann með sér á æfingar. Pabbaskrípið, sem BTW leit svolítið út eins og illa klipptur og ofvaxinn asni með hýjung í ófríðu andlitinu, sagði þá eitthvað í þá áttina að hann vildi sko ekki borga í gæsluna (hundraðkallinn sko) og vildi bara taka strákinn frekar með sér að æfa í staðinn. Það mátti hann því miður ekki svo hann fór bara heim með grislinginn þar sem þeir feðgar hafa sjálfsagt gert magaæfingar á stofugólfinu fyrir framan barnatíma sjónvarpsins, ægilega sáttir.

Unglingurinn hefur verið í bænum frá því á föstudag og fer aftur norður í dag með flugi. Hann hefur verið afskaplega duglegur að sinna þeim hlutum sem unglingar gera yfirleitt mjög vel og leggja mikinn metnað í..... t.d. hefur hann verið úti eingöngu á kvöldin með félögunum, því eins og allir vita eru unglingar með ofnæmi fyrir dagsbirtu og geta því ekki hist utandyra fyrr en eftir að sólin sest. Svo voru ýmsir bráðnauðsynlegir hlutir sem þurfti að sinna í tölvunni, eins og að hlaða niður bíómyndum og spjalla við félagana, sem hann var með úti stuttu áður, á MSN fram á nótt, nú og sofið langt fram á dag til að hvíla sig eftir allt þetta spjall sem getur jú verið ansi slítandi starf til lengdar. Síðast en ekki síst þarf að horfa á eitthvað af þessum bíómyndum og þáttum sem búið er að hlaða niður svo þeir renni ekki út á tíma og verði kannski komið í bíó á klakanum eða eitthvað þaðan af verra. Annað slagið er svo komið upp til að anda að sér fersku lofti, en samt mest til að fá sér að borða því bensínið klárast jú líka í hægagangi.

Spretturinn

mánudagur

Vöknuð af værum blundi

Merkilegt hvað ég get verið dugleg. Á föstudaginn var Folinn rekinn út úr húsi með Prinsessuna og fljótlega tóku að streyma að fagrar konur héðan og þaðan af höfuðborgarsvæðinu. Ákveðið hafði verið að við samstarfskonur myndum hittast og elda okkur dýrindismat og eiga góða kvöldstund saman. Þetta gerum við reglulega og höfum þá einhverskonar þema í matargerðinni. Í þetta skiptið ákváðum við að vera með “thanksgiving” dinner. Ógurlegur kalkúnn var sprautaður stútfullur af smjöri og í hann troðið fyllingu þar til út úr flæddi. Með þessu var ýmiskonar góðgæti, allt saman amerískt að uppruna og þrírétta desert til að “loka” þessu mikla matarkvöldi. Á laugardagskvöld varð hlutverkaskipting þar sem Spretturinn og Prinsessan voru send úr húsi þar sem Folinn var með nokkra vinnufélaga í dinner. Helgin endaði svo í gærkvöldi hjá Foreldrunum í humri og kjúklingi. Ekki dónalegir dagar þetta. Nú þarf ég ekki að borða fyrr en á jólunum þar sem ég úðaði svo ægilega í mig um helgina.

Jólin eru að koma svo nú er er byrjað að versla jólagjafir. Prinsessan sagði í gær, alveg í sjokki “mamma, það eru sko bara sex vikur þar til jólin koma, við verðum að fara að kaupa pakka”......okkur hefur tekist að kaupa þrjá slíka, svo nú eru ekki nema 23 eftir :/ Hugmyndin er sú að vera búin með allt ekki seinna en 1. desember, nema kannski fyrir grislingana okkar og Folann. Svo þarf að vera með eitthvað sniðugt í skóinn fyrir Prinsessuna og passa að jólasveininn skrópi ekki í gluggamætingum því sú stutta er svo ægilega samviskusöm að fara snemma í háttinn um leið og sá rauði boðar komu sína til stilltra barna. Folann verður að fara senda á veiðar ef fjölskyldan á að fá sína rjúpu á jólunum. Unglingurinn verður líklega lítið heima við í jólafríinu þar sem stefnan er tekin á vinnumarkaðinn þessar þrjár vikur sem fríið er. Líklegast verður það í einhverjum stórmarkaðinum þar sem almúginn og nemendur í jólafríi vinna 29 tíma á sólarhring þegar mest lætur í jólaösinni. Það um að gera að láta þetta lið vinna svolítið fyrir aurunum sem það fær svo útborgað, enda ekki ólíklegt að það hali nú inn hátt í hundraðkallinum fyrir þennan mánuðinn. Búið að berjast svo svakalega fyrir hærri lágmarkslaunum að þetta er að setja bankastjóralauninn úr skorðum. En almúginn hefur ekkert við hærri laun að gera, myndi bara eyða honum í óþarfa vitleysu. Vælinn er svo ógurlegur í almúganum að það heimtar alltaf meira og meira, segist þurfa að lifa eins og aðrir í þjóðfélaginu. Hvaða bull er þetta eiginlega, er ekki nóg að eiga fyrir húsaleigu og mat? Einstaka eyðslukló heimtar kannski hikstalaust að eiga bíl til umráða líka. Yfirgangurinn....

Sprettur jólasveinn