After all, tomorrow is another day!

miðvikudagur

HM, Matthew og fleira

Jæja þá er að síga á seinni hluta HM þetta árið. Frakkar tóku Spánverja í gær 3-1 og gerðu það vel. Svona overall þá hefðu Spánverjar kannski frekar átt skilið að komast í 8 liða úrslit, en það er víst leikurinn “í dag” sem gildir en ekki heildarframmistaða. Leikurinn í gær var með betri leikjum sem ég hef séð, hraður og skemmtilegur. Reyndar fannst mér leikur Svía og Paraguay líka skemmtilegur en nú er að sjá hverjir detta fyrst út í 8 liða úrslitunum. Úkraína verður með þeim fyrri út úr keppni, Portúgalar fara líka fljótt. Spái Þjóðverjum langt og Argentínumönnum einnig. Nú er komið nóg af bolta, sérstaklega hjá konu sem er ekkert endilega mikið í boltanum svona almennt séð :/

Yfir í annan bolta, Unglingurinn slasaði sig í gærkveldi í fótboltaleik þar sem hann fékk ógurlegt högg á viðkvæman stað. Kom heim um miðnættið þessi elska og felldi nokkur tár af sársauka, eða kannski aðallega fyrir mömmu sína bara svona til að hún sæji að þetta væri bara helvíti vont. Jafnaði sig nú fljótt og fór í bælið. Mætti til vinnu í morgun en fór heim rétt fyrir hádegið með sáran verk á sama stað svo maður rúllaði heim á Þjóðverjanum og fór með strákinn í læknisskoðun. Ekki var hann mjög spenntur fyrir þeirri reynslu enda kannski eilítið feimnismál að láta einhvern bláókunnugan þukla mann á þessum stað. Maður er svo sensitívur að ég bað um karlkyns lækni fyrir drenginn svo hann myndi nú ekki missa meðvitund af feimni, en allt fór vel og drengurinn er ekki ónýtur með öllu, jafnar sig á næstu dögum sagði og getur gefið foreldrum sínum heilan haug af óþægum barnabörnum þegar fram líða stundir.

Yfir í allt annað og alvarlegra mál. Enn eru nokkrir eftir á sex apíl listanum og næstur er.......

.....Matthew McConaughey sem allar konur ættu að þekkja og jafnvel einhverjir karlmenn líka. Matthew er suðurríkjamaður eins og þeir gerast bestir. Hann byrjaði ferilinn árið 1991 en fyrsta myndin sem við könnumst hvað best við er sjálfsagt myndin “A time to kill” þar sem hann lék á móti Sandra Bullock sem hann seinni átti síðan í ástarsambandi við. Hann hefur leikið í fjölda mynda síðan og má þá nefna t.d. Amistad, Contact, The Wedding planner, Reign of fire, How to lose a guy in 10 days og fleirum. Sú nýjasta í bíóhúsum borgarinnar er “Failure to launch”, sem er btw ægilega fyndin og skemmtileg. Hann var einnig sá fyrsti sem kom til greina í aðalhlutverkið í Titanic sem Leonardo de Caprio hreppti síðan. Hann er af írskum uppruna og á einn bróðir.

Matthew McConaughey
Ótrúlega kynþokkafullur í alla staði, heldur sér greinilega í formi og er með óheyrilega flottan kropp, falleg augu og bros sem bræðir heilbrigðar konur niður í rúm á tveimur sléttum. Sjálfsagt sá eini sem tekist hefur að gera suðurríkjahreiminn einstaklega kynþokkafullann.

Hérna....
http://www.insomniacmania.com/news/news_1243_1.jpg
og hérna...http://www.imdb.com/gallery/ss/0427229/Ss/0427229/008_FTL-C1075-24A.jpg?path=gallery&path_key=0427229
og hérna..http://www.nationalreview.com/images/mm.jpg

Þar til næst....
Sprettur

þriðjudagur

Sitt lítið af hverju

Það sem maður hefur verið latur í blogginu undanfarið, maður ætti eiginlega að skammast sín. En ég kann ekki að skammast mín svo þar við situr .

Hef verið brjálæðislega dugleg að æfa undanfarna daga, en líkami minn hefur líka háð margan eiturefnabardagann síðustu daga þar sem eigandi hans hefur innbyrgt ýmisskonar efni sem ekki á uppruna sinn að rekja til hollustu né heilsufæðis af neinum toga. Þetta hefur verið í formi sælgætis í meira magni en vaninn er, hamborgari af Búllunni sem alveg hefði mátt missa sín og svo grillaði Folinn humar í miklu magni, sem er í sjálfu sér mikið gæðafæði svona út af fyrir sig en humrar þessir er um ræðir létust allir á skelfilegan hátt þegar þeim var drekkt í miklu magni að hvítlaukssmjöri. Eins gott að maður var duglegur að heimsækja Klassann segi ég nú bara.

Við Prinsessan fórum saman í bæinn í gær þar sem þjóðverjanum var plantað í stæði og hundraðköllunum dælt í græjuna sem þar stóð vörð, þar sem við ætluðum að rölta um miðborgina, fara á kaffihús og skoða mannlífið. Hlýtt var og hið besta veður fyrir utan smá úða annað slagið, sem þó kom ekki að sök þar sem við vorum vel græjaðar mæðgurnar með hvor sína regnhlífina. Við röltum inn á Café París og ætluðum að fá okkur hádegisverð þar en sú stutta sá ekki ristað brauð með marmelaði, osti og grænmeti svo hún heimtaði að við stæðum upp og færum á Kaffibrennsluna þar sem hún mundi eftir að hafa fengið slík flottheit. Móðirin lét það eftir henni, en hún ekki kölluð Prinsessa fyrir ekki neitt, svo við röltum yfir götuna og plöntuðum okkur á Brennslunni þar sem við sátum og spjölluðum um lífið og tilveruna meðan við gæddum okkur á góðum mat, hún alsæl með sitt ristaða brauð og tilheyrandi diskaskreytingu. Fórum í Nonnabúð og keyptum bol handa Folanum, ætlum að gera okkur aðra ferð þangað fljótlega og kaupa kannski handa Útlendingnum, svona áður en búðin lokar eftir sumarið. Kíktum á Te & Kaffi þar sem við fengum kökur sem ekki voru neitt sérstaklega góðar svo þangað förum við ekki aftur :/

Unglingurinn er nú harðákveðinn í því að fara í Framhaldsskólann að Laugum. Skólinn er settur 29. ágúst svo drengurinn fer eftir tvo mánuði og verður að minnsta kosti fram að jólum, svo ætlar hann að sjá til hvort hann klárar veturinn þar eða kemur í bæinn. Þetta verður örugglega gaman og mikið ævintýri að fara í heimavistarskóla. Ég hefði nú gefið mikið fyrir að fara á sínum tíma, þvílíkt spennandi.
Við Folinn áttum brúðkaupsafmæli í gær og færðum hvort öðru gjafir í tilefni dagsins. Ég hafði keypt handa honum POLICE úr, alveg ógurlega flott og gæjalegt og þessi elska gaf mér tösku sem ég var búin að væla lengi um að mig langaði í en tímdi aldrei að kaupa mér. Nú er ég mesta og flottasta pæjan í bænum, svo ekki verður um villst Ætluðum svo út að borða en vorum bara ekki í neinu stuði fyrir slíkt svo við ákváðum bara að henda okkur í heimagallann, vera með krökkunum, horfa á leikinn og fara eitthvað huggulegt um helgina.

En ekki get ég nú verið þekkt fyrir að svíkja ykkur um dreng dagsins.....

Robbie Williams er það sem flestum konum kemur saman um að sé með þeim heitari í þeim bransanum. Robbie byrjaði ferilinn með strákabandinu Take That fyrir þónokkuð mörgum árum síðan. Ekki hafði almenningur mikla trú á að hann næði vinsældum án bandsins en annað hefur aldeilis komið í ljós og er Robbie nú einn af vinsælustu tónlistarmönnum í heimi. Robbie hefur verið bendlaður við margar konur og þar á meðal Geri Halliwell sem þekktust er kannski undir nafni Ginger Spice, Nicole Appleton úr All Saints, Rachel Hunter fyrrv. konu Rod Stewart og fleiri. Eitt laga hans var valið 4 besta lag allra tíma, lagið Angels.

Robbie Williams:
Úúúúsar hreinlega af honum kynþokkinn svo konur kikna í hnjánum við það eitt að heyra hann syngja, skakkt brosið og stríðnissvipurinn eru klárlega að gera sig og það hroka"attitude" sem einkennir hann er stór hluti af kynþokkanum. Líkamlega séð hefur hann verið upp og niður í bókstaflegri, þó aldrei langt upp, en einhvernveginn hefur það ekki haft áhrif á þann gífurlega kynþokka sem einkennir þennan breska poppara.

Hérna....http://images-eu.amazon.com/images/P/B0002UYA68.02.LZZZZZZZ.jpg
og hérna....http://www.musikbase.de/foto.php?id=787&pix=6
og hérna...http://www.geocities.com/robster_williams/calender6site.jpg

Sprettur hottie

miðvikudagur

Sumarfrí.....og kynþokkinn (again)

Tók ógurlega æfingu í Spönginni, bæði í gær og fyrradag. Hnéð var eitthvað að bögga mig á mánudaginn en ég hljóp það bara af mér :/…..þurfti reyndar að gjalda fyrir dómgreindarskortinn með ógurlegum verkjum og vanlíðan það sem eftir lifði dags/kvölds, en svona nagli eins og ég harkar það bara af sér.

Svíar gerðu jafntefli við Englendinga í gær sem Spretturinn var ægilega sáttur við þar sem hann vill sína menn áfram, hefði verið til í að sjá svíana bora einu marki í viðbót á tjallana en maður getur ekki fengið allt í einu. Svíar leika því á móti Þjóðverjum á laugardaginn og ætti það að verða hörkuspennandi og skemmtilegur leikur.

Nú er mín alveg að detta inn í sumarfrí svona hvað á hverju. Verð í fríi á föstudegi og mánudegi næstu tvær helgar svo vinnuvikurnar tvær verða stuttar. Eftir það tek ég samfellt frí í 4 vikur og verður þá eitthvað slitrótt bloggið get ég ímyndað mér, þar sem ég verð ógurlega upptekin við að sötra sumardrykki og sóla mig á pallinum mínum. Búin að panta mér fót- og handsnyrtingu, súkkulaðinudd og andlitsbað sem ég ætla að njóta að lokinni æfingu í Laugum í næstu viku……mmmmm…..life is good.

Ég mun nú samt skemmta ykkur með reglulegum færslum og skemmtiefni hér á síðunni svona eitthvað lengur að minnsta kosti, áður en fríið dettur inn. Gönguferð í Héðinsfjörð er búið að skipuleggja um miðjan júlí með vinafólki og afleggjurum okkar og þeirra. Þar ætlum við að veiða og leika okkur í tvo daga og fara svo tilbaka með bát sem ætti að vera gaman, sérstaklega fyrir börnin. Planið er að láta bát fara með útbúnaðinn og matvæli yfir svo við losnum við að bera allt draslið. Að sjálfsögðu verður rjúpnabaninn með í för og einnig gamall veiðihundur sem er orðin svo þreyttur og latur að hann verður sendur yfir með búnaðinum, þ.e. í bát J. Hlakka mikið til að heimsækja mína heimabyggð Siglufjörð og ganga yfir. Við Folinn munum líklega stoppa eitthvað lengur og njóta nærveru skemmtilegra ættingja, því ENGIN á jafnskemmtilega ættingja og ég, sem er svosem ekkert skrýtið þar sem ég er enda ógurlega skemmtileg sjálf.

Anyways, hér kemur 5. tími í kynþokkafræðum.

Nú verður tekinn fyrir hinn ubersexy Johnny Depp sem allar konur sem hneigjast yfirhöfuð í þá átt ættu að þekkja. Hann kom síðast fram í kvikmyndinni Charlie and the chocolate factory, en hefur leikið í fjölda mynda og má þar nefna Donnie Brasco, Nick of time, Neverland, stórverkinu Platoon, Blow, Don Juan DeMarco og fleiri. Þekktastur er hann fyrir að fara sínar eigin leiðir og velur sér oft hlutverk sem ekki eru mjög "Hollywoodleg". Hann hefur verið orðaður við margar frægar konur t.a.m. Winona Ryder og Kate Moss. Í dag er hann giftur frönsku leik- og söngkonunni Vanessa Paradis og á með henni tvö börn. Fyrsta myndin sem kappinn lék í var Nightmare on Elm Street árið 1984 og nokkrum árum síðar lék hann eitt aðalhlutverkið í þáttunum 21 jump street. Stærsta mynd kappans er án efa Pirates of the Caribean sem kom út árið 2003 og nú er framhald væntanlegt í kvikmyndahús síðar á þessu ári.

Johnny Depp:
Guðdómlega fallegur karlmaður og ógurlega kynæsandi. Tælandi og kynþokkafull rödd sem bræðir meðalkonu á mettíma og drekkir henni í djúpum og seiðandi brúnum augum. Sítt hár, stutt hár, ljóst hár, dökkt hár, gleraugu, klæddur eins og asni eða hvað sem er, kemst upp með allt og er ávallt sexy og seiðandi.

Hérna...http://www.imdb.com/gallery/ss/0285823/Ss/0285823/MX-26A.jpg?path=gallery&path_key=0285823
og hérna....http://www.ohjohnny.net/djd/MrFebruary.html

Sprettur kynþokkafræðingur

þriðjudagur

Gærbloggið

Helgin var fljót að líða eins og alltaf. Fórum í afmæli til múttu sem hélt ægilegt grillpartý. Unglingurinn fékk að fara í bæinn á 17. júní og átti að taka leigubíl heim kl. eitt sem mér fannst nú samt nokkuð seint. 01:45 hringdi ég frekar pirruð í hann og hvæsti á hann að hunskast heim. Korteri seinna hringdi vinurinn og var þá ekki lagður af stað svo mamman hvæsti aftur. Enn leið korter og þá hringdi vinurinn enn á ný og sagðist vera á heimleið með félaga sínum í leigubíl. Hann hafði bara átt 1000 kall eftir sem var víst ekki nóg í leigubílakostnað. Þvílík afsökun, maður var nefnilega búin að segja honum að bíllinn yrði borgaður þegar hann kæmi heim, ef uppá vantaði. Svo við Folinn fórum að sofa 02:30 þegar Unglingurinn loks drattaðist inn um dyrnar. Honum til lífs má segja að á þessum tímapunkti var maður orðinn frekar syfjaður svo ekki varð mikið um skammir. Hann má þakka fyrir að hafa haldið öllum útlimum ósködduðum .

Að allt öðrum og ólíkt skemmtilegri málum, eða kynþokkanum. Þið kannski eruð orðin leið á þessari umfjöllun minni um málefnið en hvað um það, here goes:

Tími 4
Næstur á listanum er hinn óviðjafnanlegi Mark Walhberg. Mark hefur leikið í fjölda kvikmynda og má þar nefna, The Italian Job, Rock Star, Boogie nights, Four Brothers og fleiri góðum. Á yngri árum þótti Mark frekar óstýrilátur og lenti oft upp á kant við lögin og sat á tímabili í fangelsi. Hann byrjaði feril sinn með strákabandinu "New kids on the block" og síðar varð hann þekktur sem undirfatamódel fyrir Calvin Klein. Í dag fetar Mark beinu brautina og eins og fram kemur á meðfylgjandi sýnishornum er hann klárlega með þeim flottari.

Mark Walhberg:
Óheyrilega kynþokkafullur og girnilegur karlmaður. Með einstaklega seiðandi bros sem fær meðalkonu til að kikna í hnjánum og hlaupast á brott frá feitri bjórdrekkandi HMbullu og í faðm þessarar kynæsandi karlmennsku.

Hérna.....http://website.lineone.net/~contact.phil2/marky4.jpg
og hérna...http://www.queervisions.com/img/wahlberg.jpg

Sprettur hottie

föstudagur

Fótbolti og kynþokki

Tók heldur betur á því í gær. Prinsessan fór í heimsókn til frændsystkina sinna og skellti ég mér í Laugar á meðan. Lyfti í klukkutíma og ætlaði að taka korter á brettinu á eftir. Þá var klukkan orðin hálfsjö og ég sá að leikur Svía og Paraguay átti að byrja kl. sjö svo ég ákvað að vera örlítið lengur og sjá byrjunina á leiknum. Skemmst frá því að segja að leikurinn heltók Sprettinn sem endaði á því að stökkva af brettinu rétt fyrir kl. átta, í hálfleik, hentist heim og náði seinni hálfleik að mestu leyti. Mikil gleði þegar Ljungberg skallaði boltann í net andstæðinganna þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Snilld á hæsta .

Snúum okkur þá að kynþokka karlmanna í þriðja skiptið. Markaskorari þeirra Svía er einn af þeim sem alveg er hægt að dunda sér við að horfa á.

Tími 3.
Freddie Ljungberg er án efa einn sá heitasti í boltanum í dag. Hann er einn af eftirsóttustu piparsveinum Bretlands og sjálfsagt þótt víðar væri leitað. Freddie er miðherji hjá stórliðinu Arsenal í ensku deildinni og er nú nýjasta undirfatamódel tískurisans Calvin Klein. Freddie hefur spilað fótbolta alla tíð og var valinn fótboltamaður ársins í ensku deildinni árið 2002 og hefur skorað yfir 40 mörk fyrir liðið. Hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann gerðist atvinnumaður í fótbolta.

Freddie Ljungberg:
Flestir í boltanum geta nú státað af flottum kroppi en Freddie er þó þar fremstur meðal jafningja. Ógurlega tælandi augnsvipur og einstaklega þrýstnar og kynæsandi varir sem fær flestar konur til að svíkja málstaðinn og halda með Arsenal.

Hérna....
http://www.mostbeautifulman.com/athletes/freddieljungberg/pages/pic01.shtml

og hérna....
http://netmode.vietnamnet.vn/dataimages/original/images530921_footballers-dop4a.jpg

og hérna....
http://freddieljungbergweb.tripod.com/id4.html

Sprettur sexxy

fimmtudagur

Afmæli og kynþokki 2

Tengdapabbi átti afmæli í gær og bauð stórfjölskyldunni til veislu þar sem boðið var uppá íslenska kjötsúpu og gulrótarköku í eftirrétt. Súpan rann ljúflega niður og maður skellti í sig einni kökusneið á eftir, með rjóma líka skal ég nú barasta segja ykkur. Ég var í mestu vandræðum að kaupa eitthvað handa karli en endaði nú bara í Dressman og keypti léttan sumarjakka handa honum, sem hann var líka ægilega ánægður með og pósaði í bak og fyrir fjölskylduna, sagðist fíla sig eins og gæjarnir í auglýsingunni, enda væru þeir líka svona þroskaðir eldri menn eins og hann sjálfur.

Æfingin fór fyrir bý þar sem þurfti að versla gjöfina og þegar heim var komið var klukkan orðin hálfsex og mæting í boðið var stundvíslega hálfsjö. Maður hefði svosem alveg getað sett í fluggírinn og tekið 20-30 mínútna cardio en ég ákvað að sleppa því bara og taka frídaginn minn í gær. Fer svo tvíefld í Spöngina í dag og heltek á því.

Jæja, aftur að fáfræði þeirra kvenna í efra,
Kynþokki 101
Tími 2.

Um er að ræða einn af þeim heitari í bransanum í dag. Colin Farrell hefur leikið í myndum á borð við Phonebooth, The Recruit og nýjasta mynd hans lítur dagsins ljós síðla sumars en það er myndin Miami Vice, sem er gerð eftir samnefndum þáttum sem nutu mikilla vinsælda á níunda áratugnum en þá léku Don Johnson og Philip Michael Thomas hlutverk töffarana. Það er Jamie Foxx sem leikur á móti Farrell í kvikmyndinni.
Colin Farrell:
Kynþokkinn hreinlega lekur af kvikindinu. Einstaklega falleg augu, vel skapaður á skrokkinn og írskur uppruni hans afskaplega vel falinn undir kynþokkanum. Hér má finna dæmi þess sem um ræðir.

Hérna....
http://www.imdb.com/gallery/hh/0656179/HH/065617/tigerland1.jpg?path=pgallery&path_key=Farrell,%20Colin%20(I)

og hérna...http://colin-farrell.czechpark.com/wallpapers-colin-farrell/Collin-Farrell-33.jpg

og hérna....http://www.fragile-dreams.com/images/actors/Colin%20Farrell%201024.jpg

Yfir og út í bili
Sprettur - Forstöðumaður kynþokkasviðs

miðvikudagur

Kynþokki og fáfræði

Tók 90 mínútna æfingu í Spönginni í gær, bæði lyftingar og cardio. Er heim var komið hafði Folinn sett kjúkling í ofninn þannig að maður bætti bara góðu meðlæti við og þá var kominn þessi fíni dinner sem Folinn, Unglingurinn og Sprettur sjálf skófluðu í sig yfir leik Brasilíumanna og Króata, en Brasilíumenn unnu að sjálfsögðu leikinn eins og maður bjóst við, 1-0 fyrir mínum mönnum. Einhversstaðar er enn verið að selja miða á HM fyrir þá sem hafa áhuga á að skella sér til Þýskalands, nýjasta verðið á miða á úrslitaleikinn er rétt um 100þúsund kallinn á svörtum markaði.

Með mér vinnur eðalfólk sem yfirleitt veit ýmislegt um ýmsa hluti. Þó verð ég að lýsa hneykslan minni á tveimur túttum sem boruðu bara í nefið og ypptu öxlum þegar talið barst að kvikmyndum og leikurum, þar sem minnst var á kyntröllið Hugh Jackman. Stöllur þessar vissu hvorki haus né sporð á þeim eðalmanni sem varð til þess að námskeiðið Kynþokki 101 var sett í gang með hraði. Ég sjálf fer þar fremst í flokki jafningja við sköpun á námsefninu. Auðvitað væri þetta afskaplega auðvelt ef ég mætti nú bara setja einn glóðvolgann inn í miðja bók og láta gott heita því þá væri valið auðvelt, enda Folinn sá flottasti sem völ er á.
Það er ábyrgðarhlutverk að upplýsa fáfróðan lýðinn um mikilvægi kynþokkans og tek ég hlutverk mitt alvarlega. Ljóskurnar tvær í efra, eins og þær eru oft kallaðar, verða því vonandi einhverju nær þegar námskeiðinu lýkur. Starffélagi minn sem við skulum bara kalla Ms. Sexxy, mun verða mér til halds og trausts og saman munum við leysa úr öllum deilumálum af okkar alkunnu smekkvísi og sanngirni. Ég hef ákveðið að setja inn námsefni dagsins, daglega næstu daga, þar sem ykkur gefst kostur á að kynna ykkur viðfangsefnið ítarlega.

Tími 1.
Ástralinn Hugh Jackman er frægastur fyrir leik sinn í X-men myndunum. Hann kynntist konu sinni þegar þau léku saman í sjónvarpsþáttunum Corelli á ABC árið 1995. Fimm ár í röð var hann valinn einn af 50 fallegustu í heimi í People Magazine (2000-2004). Hann hefur leikið í fjölda mynda og sjónvarpsþátta, auk þess að leika á sviði. Má þar nefna t.d. X-men eins og áður sagði, Swordfish, Van Helsing ofl. Hann talar þýsku reiprennandi.

Hugh Jackman:
Ógurlega kynþokkafullur og fallegur maður í alla staði, einstaklega fallegt bros. Hér má finna nokkur dæmi um kynþokka hans og karlmennsku.

Hérna...
http://www.avrev.com/gifs/swordfish/halle_berry.gif

og hérna...
http://www.123people.net/j/jackman-hugh/jackman-hugh7.jpg

og hérna.....
http://images.google.is/images?hl=is&q=hugh%20jackman&lr=&sa=N&tab=wi

Þetta getið þið yljað ykkur við í votviðrinu.
Sprettur
Forstöðumaður Kynþokkasviðs

þriðjudagur

Wish you were here....lalala

Wish you were here.......ég á varla orð til að lýsa tónleikum Roger Waters í gærkveldi, æðisgengnir og stóðu fullkomlega undir væntingum og vel það. Stóð og dillaði mér í sæluvímu frá kl. 20:15 – 23:15 þegar tími var kominn til að fara heim. Flottustu og án efa bestu tónleikar sem ég hef farið á og sem haldnir hafa verið hér á landi.

Helgin var nú annars nokkuð ágæt. Tók æfingu eftir vinnu á föstudaginn, nokkuð netta samt, cardio í 45 mínútur og rétt örlitlar magaæfingar. Við Folinn fórum svo í boð til Tönnslunnar á föstudagskvöldið þar sem við fengum ægilega flotta 3ja rétta máltíð og Valgeir Guðjónsson glamraði á gítar og fór með gamanmál. Mikið er maðurinn ægilega skemmtilegur og sjarmerandi, svo kom mér líka algjörlega í opna skjöldu hvað hann er fyndinn og hnyttinn. Ræð hann sem veislustjóra í næsta stórpartý sem haldið verður á mínum vegum J. Tönnslan var ægilega ánægð með hringinn og ekki skemmdi fyrir að hún fékk hálsmen í sama stíl svo nú er hún Esjuð upp alveg hreint.

Á laugardagsmorgun fór Folinn í golfmót sem Systir bauð til f.h. Tæknivals. Við Prinsessan buðum Fimleikadrottningunni með okkur í Laugar þar sem stúlkurnar brugðu sér í sund meðan Spretturinn tók massaæfingu með hrikalegum lyftingum og þriggja kortera cardio á eftir. Var þónokkur fjöldi karlmanna að sprikla á brettunum, flestir að horfa á leik Englands og Paraguay í HM, sem eins og flestir vita fór 1-0, eins og búist hafði verið við. Systir, Oddurinn og fleiri mættu svo í grill á laugardagskvöldinu eftir að golfmótinu lauk, þar sem ljúffeng nautalund og lambafilé með tilheyrandi meðlæti var matreitt ofan í fjöldann.

Aftur var farið á æfingu á sunnudaginn, en þó ekki fyrr en um hádegi. Fór þá í Laugar þar sem ég pústaði og harkaði í rétt tæpa tvo tíma. Rólegheit einkenndu síðan það sem eftir lifði dags og kvölds.

Þetta er án efa alveg einstaklega óspennandi bloggfærsla hér að ofan en ég læt hana þó standa .

Í dag verður farið í Spöngina og lyft og brennt eins og Sprettinum einum er lagið. Enda þýðir ekkert að vera í einhverri spariþjálfun og hætta bara að mæta þegar fyrsti sólargeislinn lætur sjá sig að vori, eins og sumir gera. Uss, ég lagðist nánast í þunglyndi þegar ég þurfti að hætta æfingum í tvo mánuði vegna hnéaðgerðar fyrir 1 ½ ári síðan. Fannst ég öll svo lin og máttlaus og lasburða þar sem ég var vön að hreyfa mig mikið. Skil hreinlega ekki fólk sem gefur sér ekki tíma til að sinna sjálfu sér og heilsunni.

Lýk þessu á heilbrigðu nótunum í dag þar sem Animals diskur þeirra Pink Floyd manna hljómar í eyrum mínum og ég endurlifi sæluvímu gærkvöldsins.

Sprettur

föstudagur

Helgin framundan

Skæður vírus gengur nú um bloggheima og ræðst á menn og tölvur af ógurlegu afli og eru einkennin helst í formi ægilegrar ritstíflu. Þetta veit ég því bæði í gær og dag hefur það tekið mig örfáar mínútur að renna yfir mína uppáhaldsbloggara sem er náttúrlega með öllu óhæft. Getur mögulega verið að líf okkar allra sé svo óspennandi að ekki sé frá neinu að segja? Ef svo er þá á ég nokkur ráð við því. Til dæmis er alltaf hægt að grípa til hinna vandmeðförnu verkfæra lyga og skáldskapar og búa til einhver skemmtilegheit.

Í gær fór ég til hans Olla klippara þar sem hann fór faglegum fingrum um makka minn og litaði hann og klippti eftir kúnstarinnar reglum. Nú er ég fögur sem aldrei fyrr og stunur og andvörp heyrast hvar sem ég fer, svo hugfangið er fólk af mér. En þessu er ég nú aldeilis vön svo ég læt það ekki á mig fá. Mest finn ég til með ljóta fólkinu samt sem er svolítið harkalega minnt á eigin ljótlega þegar það sér mig. Ég reyni því að forðast slíka sjónmengun því það er ekki hollt fyrir mig að upplifa of mikið af slíku.

Ég keypti afmælisgjöf fyrir Tönnsluna og varð esjuhringur eftir Hendrikku Waage fyrir valinu (www.hw.is), grænn að lit og ægifagur. Ég er næstum því bara klökk yfir hvað mér þykir hann er fallegur, en samt mest af eftirsjá því mig langar svo ógurlega mikið að eiga hann sjálf. Í kvöld munum við Folinn svo renna austur fyrir fjall þar sem Tönnslan býður til veislu í Rauða húsinu, downtown Eyrarbakki. Ég ætla að reyna að halda aðeins aftur af sjarmatröllinu sjáfri mér, svo ég skyggi ekki á Tönnsluna, því það er aldrei vel séð á slíkum samkundum. Ég reyni því að tóna útgeislun mína og sjarma niður um nokkur þrep.

Sprettur farin í helgarfríið

fimmtudagur

Ýmislegt að gerast

Detti mér allar dauðar.......skv. mbl.is hefur verið lögð fram kæra hjá sýsla í Reykjavík vegna sveitastjórnarkosninganna um að tjöldin fyrir kjörklefunum hafi verið blá víðast hvar. Þar sem hann gekk í þungum þönkum að klefanum og sá þá hvar þessi stóru bláu tjöld blöstu við honum sá hann sig nauðugan til að kanna málið frekar og þeyttist því um borgina þvera og endilanga til að taka út tjöldin á kjörstöðum. Í ljós kom að þau voru blá á að minnsta kosti níu stöðum, hugsið ykkur, sem hann segir augljóslega geta haft áhrif á óákveðna kjósendur líkt og margt annað. Er maðurinn ekki heill í toppstykkinu eða hvað? Ég held þetta hljóti bara að vera einhver svekktur framsóknarmaður sem hefur lítið annað með tímann að gera en að finna falin kosningasvik og heilaþvott í formi blárra tjalda er hylja kjörklefa borgarinnar. Við ættum kannski að reyna að setja upp svona regnbogatjöld til að allir flokkarnir ættu nú jafna möguleika á að komast til valda. Ætli Gunnar í Krossinum taki að sér að af-flokka fólk sem hefur villst af leið og stefnir stjórnlaust til hægri, þar sem skipulagður heilaþvottur flokksins virkar greinilega ágætlega en sumir hafa kannski ekki verið nógu móttækilegir fyrir tjöldunum því Sjálfstæðismenn fengu aðeins 7 fulltrúa í borginni......djö :/ Sá sem kærir fékk þá skýringu að aldrei hafi á það reynt að ógilda kosningar sökum bláa litsins ná tjöldunum.

Mikið er nú annars gott að enn eru einhverjir menn sem eru nokkuð heilir í hausnum á þingi Bandaríkjamanna. Bush virðist vera haldinn áráttu varðandi hjónabönd samkynhneygðra og nýjasta útspilið var að reyna að fá stjórnarskránni breytt þar sem slíkt yrði bannað. Hverslags trúarofstækisland eru Bandaríkin að verða, ég bara spyr? Ég er sammála Ted Kennedy sem sagði að verið væri að reyna að setja fordóma og þröngsýni inn í stjórnarskrá landsins. Vonandi næst þetta ljóta og skammarlega frumvarp aldrei í gegn og kannski draga BNA menn hausinn út úr rassgatinu á sér fyrir næstu kosningar og kjósa einhver til valda sem ekki er með greindarvísitölu á við græna baun. Svo þusar þetta lið og skammast yfir trúarofstæki múslima.....sé ekki muninn. Fangelsi sem brjóta á mannréttindum og fólk er látið dúsa í til fleiri ára án þess að verða ákært fyrir nokkurn skapaðan hlut, samkynhneygðir eru annars flokks borgarar, konur fá ekki að ráða yfir eigin líkama og fara í fóstureyðingar, jafnvel þótt um nauðganir sé að ræða eða t.d. alvarlega fósturgalla, allar þjóðir sem ekki eru sammála BNA eru handbendi satans og því er hinn heilagi her BNA sendur til að bjarga fólkinu sem jafnvel kærir sig ekkert um að vera bjargað. Nema náttúrulega Saudi Arabía, þeir eiga svo mikla olíu og mikla peninga að þeir mega alveg kúga, berja, naugða og misþyrma konum og stúlkum eins og þeim einum er lagið. Hverjum er ekki sama um það, bara svo framarlega að hjónaband samkynhneygðra verði nú ekki að veruleika því það er siðferðislega rangt. Annars liggur við að maður segði bara að ef BNA menn eru svona vitlausir að kjósa þennan málhalta mann, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, þá kannski eiga þeir hann kannski fullkomlega skilið.

Nú byrjar boltinn á morgun og margir sjálfsagt orðnir spenntir. Það fer afskaplega í taugarnar á mér þessar endalausu “stelpuhitt og stelpuþetta” í júní, þar sem keppst er um að finna sem mesta afþreyingu fyrir kvenkynið meðan á HM stendur. Hvaða þurs datt í hug að við konur þyrftum sérstaka aðstoð við slíkt og hvar stendur að karlar megi einir horfa á HM? Einhversstaðar heyrði ég líka sagt að við mættum færa þessum elskum bjórinn og samlokuna þegar þeir væru að horfa á mikilvægan leik, en undir engum kringumstæðum mættu konur setjast niður og reyna að horfa á fótboltann með manni sínum því þetta væri stund sem þeir vildu eiga út af fyrir sig eða með strákunum. Á mínu heimili getur maðurinn bara sótt sínar veitingar sjálfur og ég horfi bara á þá leiki sem mér þóknast. Ekki þarf að bjóða mér upp á fótsnyrtingu útí bæ eða eldgamla unglingaþætti á Skjá einum. Er það bara lífsins ómögulegt að konur geti mögulega haft áhuga á að horfa á fótbolta?

Áfram Brasilía!

Sprettur

miðvikudagur

Ennþá hérna.....

Nú verð ég að taka mig á ef ég á ekki að deyja hægum og kvalafullum bloggdauða. Það er búið að vera svo afskaplega mikið að gera og lítið að segja svo einhvern veginn hefur þetta bara farið fyrir ofan garð og neðan, en nú skal tekið á því.

Náttfatapartý Prinsessunnar heppnaðist með ágætum og skríkjandi smástelpur voru í hverju horni þar til þar duttu út af hver á fætur annarri um og rétt eftir miðnættið á föstudaginn síðasta. Eftir það var helgin bara nokkuð róleg, kíktum í lunch með Stóru stelpunni og Tengdadótturinni á laugardaginn þar sem sú Stóra hafði átt afmæli á föstudeginum. Skruppum í bió á laugardagskvöld og vorum með matarboð á sunnudagskvöld. Mikið fyndist mér það mikilvægt baráttumál að reyna að fá þriggja daga helgar inn í vinnuviku fallega fólksins s.s. my self. Þvílíkur munur það er að fá þennan aukadag. Eins gott að Samfylkingin fann nú ekki upp á þessu í kosningabaráttunni því þá hefði ég kannski þurft að kjósa Dag hans fylgifiska. Æfingum var sinnt af kostgæfni um helgina þar sem brunað var í Laugar bæði sunnudag og mánudag, en laugardagurinn tekinn í Spönginni.

Anyways, í gær útskrifuðust börnin úr skóla en útskrift Prinsessunnar var aðeins “less formal” þar sem hún náði í einkunnaspjaldið sitt og fór svo í framhaldinu í skólagarðana þar sem hún setti niður haug af kartöflum og bar svo hestaskít á herlegheitin til að sprettan yrði nú góð, eins og hún útskýrði mjög vel fyrir fáfróðum foreldrum sínum. Unglingurinn fékk örlítið formlegri útskrift þar sem grunnskólagöngu hans er nú loks lokið og við tekur nú alvara lífsins. Ægilega hátíðlegt og fínt þar sem skólastjóri hélt góða ræðu um það sem framundan var og sjálfsagt enginn unglingurinn hefur hlustað á með báðum eyrum, en hvað um það. Nokkrir krakkar komu fram með ræðu, söng og fiðluleik sem var ofboðslega skemmtilegt að hlusta á enda getur Grafarvogurinn af sér eintóm undrabörn. Fjöldi viðurkenninga voru veitt fyrir framúrskarandi árangur í hinu og þessu og voru það þrjár stúlkur sem stóðu bara á sviðinu og skiptu þessu bróðurlega á milli sín eins og góðra stúlkna er siður. Var síðan boðið upp á kökur og góðgæti. Þetta var nú allt gott og blessað fyrir utan eitt......BUBBAtónleikarnir voru á sama tíma og höfðum við Folinn fengið boð um að mæta í kokteilboð og síðan á tónleikana, boð sem við að sjálfsögðu ætluðum að þiggja, enda um einstakan viðburð að ræða. Lítið vissum við þá að útskrift Unglingsins yrði á sama tíma. Úr varð að Folinn fór á tónleikana en Spretturinn á útskrift drengsins. Prinsessan fylgdi móður sinni og amma og afi kíktu með okkur.

Ég hef ekkert hjólað í vinnuna í tvær vikur, aumingjaskapur og ekkert annað. Hef reyndar þurft að hafa bíl í einhver skipti þar sem ég hef verið að erindast, suma daga hefur rignt og rokið, sem er ekki það ákjósanlegasta veður sem ég get hugsað mér þegar kemur að hjólreiðum. Enda er ég sparihjólari og hjóla bara í góðu veðri svo það er eins gott að sumarið fari að láta sjá sig, enda orðin langþreytt á endalausum kuldaköstum, rigningu og roki. Vita veðurguðirnir ekki að það er komið sumar á klakanum??

Framundan er kveðjupartý/afmæli á Rauða húsinu á Eyrarbakka á föstudagskvöld, en Elfa tannlæknir býður þar til veislu þar sem hún mun halda til Alabama í framhaldsnám í lok mánaðarins. Við ætlum þó að reyna að ljúka því sem byrjað var á í kjafti Spretts áður en tannsan heldur út í heim.

Í næstu viku eru aðrir stórtónleikar, með Roger Waters, sem við Folinn fengum boð á og munum ekki láta fram hjá okkur fara enda eru Pink Floyd í miklu uppáhaldi og best hefði náttúrulega verið að fá þá snillinga hér saman en þiggjum það sem næstbest er.

Sprettur