After all, tomorrow is another day!

miðvikudagur

Páskafrí

Kom heim í gær eftir að hafa sótt Unglinginn í vinnuna. Þar hafði Prinsessan verið með Prakkarann og eina frænkuna í heimsókn og fór það ekkert á milli mála. Þau höfðu greinilega fengið sér að borða....nokkrum sinnum og á hinum ýmsu stöðum í húsinu. Ekkert alvarlega mikið drasl en það beið bara eftir þeim þegar þau komu heim úr sundinu. Ég skellti mér á æfingu í Spönginni þar sem ég tók vel á í rúman klukkutíma. Tek aðra eins í dag eftir að búið er að fara með Prinsessuna og Unglinginn í klippingu. Unglingurinn verður nú að vera frambærilegur fyrir allar dönsku tútturnar í næstu viku . Í gær var ákveðið að leyfa frænkunni og Prakkaranum að gista í kvöld og verður því örugglega fjör í Fannafoldinni í kvöld. Við Folinn erum reyndar að fara í smá kokteilboð svo Unglingurinn verður kannski fenginn til að sitja hjá þeim í smátíma, ef hann verður ekki farinn úr bænum. Hann stefnir á Snæfellsnesið í tvo daga þar sem hann ætlar að slaka á og hafa það notalegt, kannski að kíkja aðeins í kennslubækur fyrir samræmdu prófin ef hann nennir.

Í gær var ein sú heimskulegasta niðurstaða úr könnun birt á mbl.is, en það var kosningin um besta fræga föðurinn.....þarf að segja meira Þar fór Bob Geldof fremstur í flokki meðal jafningja og þótti bestur fyrir að eiga þrjár stelpur með Paulu Yates og hafa ættleitt yngstu dóttur hennar og Michael Hutchense eftir að þau höfðu bæði framið sjálfsmorð í einhverri vímunni. Á eftir honum komu síðan margir misfrægir sem þóttu meðal þeirra tíu bestu. Mér finnst þetta asnalegt og út í hött að vera að setja upp einhverja bjánakönnun um svona fáránlega hluti en verð í sömu andrá að viðurkenna að ég las nú samt ”fréttina” svo tilgangnum er sjálfsagt náð hjá þeim sem að henni stóðu, fólk les svona vitleysu........ Ég er nú líka svolítill sökker fyrir slúðri. Er ekki mikið í Séð & Heyrt pakkanum en á nokkuð stóran stafla af blöðum eins og ”In Style”, ”Hello”, ”Cosmo”.....osfrv.

Jæja, það er eiginlega hægt að segja að í dag sé föstudagur. Yndislegt fimm daga frí framundan þar sem ég ætla að nota skynsamlega, s.s. æfa mikið, borða mikið og vera mikið löt. Kannski fæ ég eitt lítið páskaegg . Eftir það er vinna í tvo daga og svo fer ég í annað fimm daga frí þar sem ég ætla að fara í eina fermingarveislu og skreppa svo til Köben í tvo daga. Hótelið sem við verðum á er með þessa fínu líkamsræktarstöð, SPA, sundlaug og guð má vita hvað. Ætli við hjónin fáum okkur ekki bara reiðhjól og skrollumst um borgina á þeim ef veðrið er gott. Höfum gert það áður og er eiginlega eina rétta leiðin til að fara um svæðið, nema fyrir þá sem hætta sér ekki út fyrir Strikið. Hitti eina í gær sem er að fara í sömu ferð og fannst voðalega fúlt að eiga bara laugardaginn alveg lausan (föstudagskvöldið planað og því kannski lítið farið á eitthvað sjopperí) því búðirnar væru bara opnar til tvö á laugardögum!! :/ .....voða fínt að fara í búðir í útlöndum EN, ef stoppið er stutt þá nenni ég nú ekki að þræða búðargötur á öðru hundraðinu eins og útspýtt hundsrassgat að kaupa einhverjar tuskur sem mig hvorki vantar né langar í......bara af því ég er í útlöndum. Allt í lagi að kaupa sér eitthvað en ekki bara hendast á milli búða....bara til að hendast á milli búða. Þá get ég bara alveg eins tekið einn laugardag í Smáralind og Kringlunni. Sjálfsagt kíkjum við aðeins í H&M eins og alltaf en við ætlum fyrst og fremst að hafa það gott, hjóla út í Kristjaníu, sitja á kaffihúsi og kannski kíkja í Tivoli sem opnar fyrir sumarið núna í apríl.

Jæja, best að fara að æfa sig í páskaletinni.

Spretturinn flottastur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home