Fermingar
Páskarnir komnir og farnir, annað frí framundan eftir stutta vinnuviku. Fer til Köben á föstudag og kem líklega ekki fyrr en degi seinna en ætlað var, þ.e. á mánudaginn. Tvöföld fermingarveisla á morgun hjá systkinabörnum Folans sem halda sameiginlega veislu fyrir vini og vandamenn. Mikið finnst mér sniðugt þegar fólk gerir svoleiðis. Ég fermdist fyrir 20 árum síðan í Siglufjarðarkirkju og var haldin sameiginleg veisla fyrir okkur tvær frænkurnar sem okkur fannst bara voðalega gaman. Það komu fleiri gestir sem þýddi í rauninni fleiri pakka handa okkur því fólki fannst alveg óhæft að mæta bara með pakka handa því fermingarbarni sem bauð því til veislunnar, úr því við vorum tvær þá skyldum við báðar njóta góðs af. Auðvitað voru ”aukapakkarnir” ekkert alltaf eins flottir eða stórir og ”alvörupakkarnir” en hverjum var ekki sama. Það tíðkaðst ekki eins að gefa peninga á þessum tíma og fékk maður því ekki mikið af slíku. Þó man ég að ég fékk heilar 25.000 krónur sem ég lagði á banka og eyddi síðan stuttu síðar en í hvað get ég ómögulega munað. Ég man heldur ekkert eftir því hvað ég fékk í fermingargjöf frá öllu þessu fólki en þó man ég eftir svefnpoka sem ég fékk og týndi síðan eina verslunarmannahelgi Húsafelli nokkrum árum síðar. Pabbi og mamma gáfu mér Apple tölvu sem var það alflottasta og besta sem ég hafði nokkru sinni fengið að gjöf, þrátt fyrir að ég kynni ekkert á hana, fyrir utan leikina sem fylgdu með. Allir mínir vinir öfunduðu mig alveg rosalega mikið og fannst að það hlyti að vera fínt að eiga svona ríka foreldra....sem mér fannst. Veislan var haldin á heimili foreldra minna sem bjuggu í stærra húsi en frænka mín. Undirbúningur var mikill og safnaðist öll fjölskyldan saman heima hjá ömmu Gunnu þar sem grillaðir voru kjúklingar, roastbeef steikt, salöt búin til og guð má vita hvað. Þetta var alveg ógurlega skemmtilegt að mér fannst, að vera heima hjá ömmu langt fram á nótt að elda og dúllast í matnum fyrir veisluna mína. Yngstu systur hans pabba, sem ekki er nema fimm árum eldri en ég og var alltaf eins og stóra systir frekar en föðursystir, leit ég alltaf mikið upp til þegar ég var barn og á þessum tíma var hún með stutt hár sem var blásið ægilega mikið til hliðar og í vöngum og að aftan var það litað kirsuberjarautt. Allar hinar stelpurnar fóru í hárgreiðslu, nema ég fór til Jónu frænku og lét hana lita og blása á mér hárið alveg eins og hennar....og fannst ég langflottust, sem ég náttúrulega var . Í bekknum var strákur sem var mikið í hestum og hjá fjölskyldu hans dvaldist ungur tamningamaður frá Þýskalandi sem hét Ralf, en svo vildi til að hann og Jóna frænka urðu kærustupar. Mér fannst þessi maður alveg óskaplega fallegur og lá við að ég legði fæð á frænku mína á tímabili fyrir að hafa náð í hann. Í kirkjunni sat hann á fremsta bekk með fjölskyldu bekkjarfélaga míns og þegar ég leit til hans í eitt af mörgum skiptum þá blikkaði hann mig og brosti, enda þekkti hann mig auðvitað, litlu frænkuna hennar Jónu. Ég reis öll upp í sætinu, brosti pínulítið á móti og hitnaði öll inn í mér því nú var ég sko alveg viss um það að hún Jóna frænka gæti bara gleymt honum Ralf því hann væri sko örugglega orðinn ástfanginn af mér. Hann fór þó fljótt til síns heima á ný og ástin kulnaði, enda nóg af fiskum í sjónum á SigloCity.......hmmmm .
Anyways, fjölskyldan hafði það nokkuð gott um páskana. Vorum með matarboð fyrir fjölskylduna á föstudaginn langa og fórum í matarboð til foreldranna á páskadag. Annars var bara æft af fullum krafti alla dagana, skroppið í Heiðmörk og kíkt í bíó. Unglingurinn var að vinna mikið um páskana svo við sáum ekkert voðalega mikið af honum, en þó eitthvað. Ágætis frí svona overall. Vann í gær, vinn í dag, síðan frí fram á þriðjudag í næstu viku.
Sprettur kveður
Anyways, fjölskyldan hafði það nokkuð gott um páskana. Vorum með matarboð fyrir fjölskylduna á föstudaginn langa og fórum í matarboð til foreldranna á páskadag. Annars var bara æft af fullum krafti alla dagana, skroppið í Heiðmörk og kíkt í bíó. Unglingurinn var að vinna mikið um páskana svo við sáum ekkert voðalega mikið af honum, en þó eitthvað. Ágætis frí svona overall. Vann í gær, vinn í dag, síðan frí fram á þriðjudag í næstu viku.
Sprettur kveður
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home