After all, tomorrow is another day!

föstudagur

SigloCity í den

Kvöld eitt á SigloCity fyrir mörgum árum síðan, vorum við nokkrar vinkonur á unglingsaldri á röltinu í bænum á laugardagskvöldi í leit að einhverjum á bíl sem við gætum betlað rúnt af, sem okkur þótti hin besta skemmtun um helgar. Eina skilyrðið var að í bílnum væri einhver sætur og skemmtilegur, nema bílstjórinn mátti alveg vera nörd eða lúði þar sem hann þjónaði jú ákveðnum tilgangi. Rákumst við þetta kvöld á ansi spennandi kost að okkur fannst, sem voru 3 náungar af Króknum (Sauðárkróki) sem við könnuðumst við og þóttu bara alveg í lagi. Það þótti nú ekki tiltökumál að troða sér aðeins fleiri í bílinn en sætapláss bauð uppá, sem við og gerðum. Eftir smárúnt þurftum við stelpurnar að komast á pissið og var því stoppað fyrir framan sundlaugina svo við gætum hent okkur þar á bakvið hús og sinnt kalli náttúrunnar. Þegar ein var að standa upp greip hún í hurðarhún sem gaf eftir og hurðin opnaðist, hafði þá Baddi sundlaugarvörður greinilega gleymt að læsa húsinu. Þetta þótti okkur nú aldeilis spennandi og rukum upp á veg og hóuðum í strákana sem hlýddu kallinu (offkors), nema bílstjórinn sem varð auðvitað að vera á verði. Sundlaugin á Sigló var þannig þegar við vorum yngri að á veturna var sett gólf yfir laugina svo hægt væri að kenna íþróttir í skólanum, þar sem við áttum ekki íþróttahús. Við fórum inn í hús og hlupum þar um og fífluðumst, hoppuðum á einhverjum dýnum og höguðum okkur eins og unglinga er siður við slíkar aðstæður. Eftir stutta stund sáum við ljóstýru frá vasaljósi nálgast okkur frá hinum enda hússins. Var þá ekki Baddi mættur til að reka þessa stórhættulegu unglinga út og var kallinn búinn að hringja á lögguna í þokkabót. Það eina sem hræddi mig við lögguna var það að mágur móður minnar var þar háttsettur og auðvitað var hann á vakt þessa nótt og mætti til að lesa yfir þessum brjáluðu unglingum sem höfðu brotist þarna inn. Ég grátbændi hann um að segja mömmu ekki frá þessu því eins sárasaklaust og þetta var þá vissi maður að foreldrarnir litu hlutina ekki endilega sömu augum og maður sjálfur. Þar sem búið var að eyðileggja allt fjörið var öllum bara skutlað heim í háttinn.

Næsta dag var öll fjölskyldan í mat hjá ömmu Gunnu og eitthvað fannst mér mamma afundin og skrýtin við mig svo ég fékk kuldahroll og svitaköst til skiptist því nú var bara spurning um hvenær ég fengi skammir frá foreldrum mínum vegna þessa. Því eins og allir vita eru skammir frá foreldrum eitthvað það leiðinlegasta sem unglingar vita. Ég ákvað því að vera bara töff á því og redda málunum og var reddingin eitthvað á þessa leið:

Spretturinn við mömmuna: Mamma, pældí´ðí í gær maður þá vorum við bara á rúntinum sko, ég og Magga og Bylgja, með vinum okkur af Króknum, fórum sko að pissa bakvið sundlaugina og spáðí´da, það bara opin hurðin inn. Við vorum ekkert að reyna að opna sko, hún opnaðist bara þegar Magga eða einhver rak sig í húninn, eða sko það var allavega ekki ég. Við kíktum bara aðeins inn og þá bara löggan komin allt í einu. Eða Óli var sko á vakt, var hann ekki annars búin að segja þér þetta????.......

Mamman svarar: Neei!!!

Ég dó.

Sprettur hjartahreini

Ps. Myndin í gær var skemmtileg, fyndin og bara hið fínasta tjikkflikk.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home