After all, tomorrow is another day!

fimmtudagur

Komin heim

Komin aftur frá Barcelona og góða veðrinu. Mátti ekki tæpara standa æstir aðdáendur í Heimsklassanum hafa allir verið með ógurleg fráhvarfseinkenni sökum fjarveru minnar. Vil ég því minna á að ég verð í Spönginni í dag á mínum vanalega tíma að vinnudegi loknum þar sem ljóta og óaðlaðandi fólkið getur barið minn fagra kropp augum og tekið gleði sína á ný.

Prinsessan var að sjálfsögðu afskaplega ánægð að sjá foreldra sína og kyssti þau og kjassaði í bak og fyrir milli þess sem hún montaði sig af því að það hafi “sko ekki komið eitt einasta tár allan tímann”, sem er mikið afrek hjá þeirri litlu.

Sláturtíðin er í fullum gangi þessa dagana og fór Spretturinn því í búðarferð í gær þar sem keyptar voru upp birgðir Hagkaupa af sláturgerðarefni, eða svona allt að því. Framundan er því mikil sláturgerðarhelgi hjá stórfjölskyldunni sem ætti nú aldeilis að verða gaman. Unglingurinn ætlar meira að segja að reyna að komast í bæinn svo hann verður settur í að brytja mör og hræra blóð. Síðan er meiningin að litla fjölskyldan skelli sér norður í land og heimsæki piltinn og ætla amma og afi að vera með í för. Búið er að leigja hús og híbýli fyrir fólkið og er planið að hafa það bara gott, skella sér út að borða með strákinn og rölta um og skoða mannlíf stórborgarinnar Akureyri. Tvö glæsilegustu kvendi bæjarins verða kysst og knúsuð og heimta ég hér með smá hitting, ef þið eruð að lesa (eins og ykkur ber að sjálfsögðu heilög skylda til).

Rit- sem og nefstífla á hæsta stigi er að ergja Sprettinn svo ég læt þetta gott heita í bili og kveð þar til næst :o)

þriðjudagur

Unglingasápur

Komið fram í miðja vinnuviku hjá Sprettinum sem fer í frí eftir morgundaginn. Ekkert sérstaklega langt svosem en þó fram í næstu viku. Spáin er 28° stiga hiti og sól alla vikuna í Barcelona sem vonandi gengur eftir, nenni ekki að rigna niður þessa örfáu daga sem við verðum á staðnum.

Í gær ákvað ég að sleppa æfingu og fara heim til mín og einbeita mér að því að gera ekki neitt. Kveikti á sjónvarpinu og á á Skjá einum var þá að byrja gömul unglingasápa sem flestir jafnaldrar mínir muna vel eftir, Beverly Hills 90210. Ég ákvað að fylgjast með þessum trendsetterum allra alvöruunglinga á sínum tíma. Man hvað ég var yfir mig ástfangin af Dylan sem var þessi örlítið uppreisnargjarni unglingur og töffari með meiru....eins og ég sjálf náttúrulega. Sveiflaðist stundum á milli hans og Brandon sem var þessi skynsama týpa með ógurlega sterka réttlætiskennd. Brenda tvíburasystirin var líka í uppáhaldi af aðalpíunum sem voru ásamt henni, Kelly og Donna. David þótti mér ávallt óskaplega hallærislegur og skildi aldrei hvað Donna sá við hann, en hún óð nú svosem ekki í vitinu stúlkan sú. Steve einhvernveginn bara “var”, ekkert endilega neitt sætur, stundum smá skemmtilegur en bara mest svona ....ekkert. Jim og Cindy voru draumaforeldrar allra unglinga. Í nánum tengslum við krakkana og treystu þeim og dómgreind þeirra fullkomlega, eða svona yfirleitt. Svo var það Melrose Place, en þeir þættir tóku við af BH90210 og slógu einnig í gegn hjá Sprettinum. Flottari strákar, flottari stelpur, kynlíf, svik, framhjáhald, tæling, morð, ástarflækjur og geðklofi svo eitthvað sé nefnt. Ég horfði á einn slíkan þátt og rifjaði upp gamlar MP minningar. Jake er búin að vera með Jo sem hætti með honum, síðar reyndi hann að stofna til sambands með Jane sem var systir Sidney, sem Jake hafði einnig verið með fljótlega eftir að hún hætti að starfa sem rándýr hóra. Billy var herbergisfélagi Alison, en það þróaðist fljótlega í annað og meira. Þegar því lauk, líklega vegna ofdrykkju Alison, fór Billy að vera með Amöndu sem var yfirmaður Alison á auglýsingastofunni. Eftir að þau hættu saman fór Billy einnig að vinna á auglýsingastofunni. Nýlega birtist bróðir Jake og að sjálfsögðu er hann nú farinn að vera með Jo. Amanda reyndi að eiga í stuttu sambandi við Michael, sem var fyrrverandi maður Jane en hélt framhjá henni með Kimberly og þau skildu í kjölfarið, en það gekk ekki upp svo hún fékk víst taugaáfall og var rekin sem forstjóri auglýsingastofunnar, þar sem Alison tók við starfinu. Svo er fólk forviða yfir því að unglingsárin séu ruglingsleg. Nýlega sá ég leikarann Jason Priestely (Brandon) þar sem hann leikur eitt hlutverkanna í þáttunum Love Monkey sem einnig eru sýndir á Skjá einum. Leikarinn Grant Show (Jake) birtist í þættinum Beautiful people þar sem Daphne Zuniga (Jo) leikur einmitt aðalhlutverkið. Doug Savant (Matt) leikur Tom, eiginmann Lynnette í Desperate Housewifes. Courtney Thorne Smith (Alison) er kona James Belushi í According to Jim og Shannen Doherty (Brenda) lék eina nornasysturina í Charmed. Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér þegar ég horfði á þessar gömlu unglingasápur og svo nýrri þætti sem þetta sama fólk leikur í núna þónokkuð mörgum árum síðar og ég sá að sumir höfðu elst betur en aðrir. Segið svo að maður nýti ekki tímann í heilbrigðar og skynsamlegar vangaveltur um heimsmálin ;0).

Sprettur sápa

mánudagur

Helgin

Gleðilegan mánudag og velkomin af lakinu, eins og góð vinkona mín orðaði einu sinni svo vel. Í nótt var lítið sofið og þá ekki vegna þess að ég var svo ógurlega upptekin af heitu kynlífi með Folanum, nei heldur skreið Prinsessan uppí um miðja nótt og hafði Spretturinn bara ekki rænu á að færa hana aftur í sitt eigið rúm, heldur lá ég það sem eftir lifði nætur og færði fótleggi Prinsessunnar og handleggi frá mér því einhver óstjórnleg þörf var hjá blessuðu barninu að breiða leggjum sínum í sífellu yfir hálfsofandi móður sína. Einmitt, hálfsofandi er það ástand sem Spretturinn glímdi við í um það bil 4 klukkustundir áður en fjölskyldan fór á fætur í morgun. Prinsessan útsofin að sjálfsögðu þar sem hún hafði jú breytt svo vel úr sér. Svona getur maður verið vitlaus í hálfsvefni.

Tók annars vel á því með G-strengnum um helgina þar sem við mættum galvaskar í morgunsárið bæði laugardag og sunnudag. Lyftum hundruðum kílóa og vorum að sjálfsögðu langflottustu úthverfapíurnar á höfuðborgarsvæðinu. Skil ekki fólk sem ekki nennir að hreyfa sig, kannski það sé bara haldið einhverri flottfælni því allir vita að það er kúl að vera í formi. Merkilegt hvað er mikið af fólki nennir ekki að hreyfa sig og sötrar kalt kaffi og svælir í sig heimatilbúnum sígarettum á einhverri kaffibúllu allan daginn haldandi að það sé voðalega töff og kúl. Þar fyrir utan er ég samt mjög meðmælt kaffihúsarölti og hvítvínsþambi sem því fylgir, svona annað slagið.

Á laugardagskvöld fórum við Folinn í teiti útí bæ, sem væri nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að í miðju samkvæmi kom askvaðandi inn í stofuna mannkríli sem ég held að sé óhætt að segja að allir Íslendingar þekki og mögulega gegn vilja sínum. Um mig hríslaðist kjánahrollur og svei mér ef ekki læddist örlítið gallbragð í munninn á mér. Þetta kríli fór stórum og fögrum orðum um eigið ágæti og meðal annars gólaði upp úr þurru "það er enginn meiri en Geiri" í miðri setningu. Já mikið rétt, þetta var hinn eini sanni Iceblue, a.k.a. Geir Ólafs, sem þarna kvað upp raust, reyndi að vera pínulítið fyndinn og flottur áður en hann söng lögin tvö sem hann kann við undirspil af geisladisk, sem btw hann sjálfsagt tekur með sér hvert á land sem er,svona bara til öryggis ef ímyndaðir æstir aðdáendur heimtuðu að hann tæki lagið í sjoppunni í Varmahlíð or sommþeing. Ég verð að viðurkenna að maður glotti nú aðeins og átti bágt með að fara ekki að hlægja því hann var bráðfyndinn maðurinn. Það versta var samt að hláturinn varð að bæla niður því hann var alls ekkert að reyna að vera fyndinn.

Fórum líka í bíó um helgina og sáum Crank með Jason Statham sem mér finnst alveg ógurlega flottur og karlmannlegur. Myndin var hin fínasta skemmtun, góður húmor svo ég hló og rýndi eins og svín og skemmti mér ægilega vel í góðum félagsskap Folans og fleiri aðdáenda.

Spretturinn kveður

föstudagur

Skór

Skrapp í Kringluna í hádeginu til að kaupa eina skólabók fyrir Unglinginn sem og afmælisgjöf sem Prinsessan þarf að hafa með sér þegar hún fer í fæðingarveislu einnar vinkonu seinna í dag. Datt aðeins inn í nokkrar skóbúðir í leiðinni og pínkupons inn í Karen Millen og Kúltur. Merkilegt hvað maður á auðvelt með að detta inn í svona búðir þó maður geri allt í sínu valdi til að sneiða hjá þeim. Svo detta bara fimmþúsundkallarnir stjórnlaust upp úr veskinu þegar maður rekur augun í einhverja girnilega flík eða skó. Minn helsti veikleiki á bæjarrölti (Kringluhlaupi í þessu einstaka tilviki) eru samt skóbúðir. Finn ógurlega og jafnframt viðurkennda (a.m.k. meðal kynsystra minna) þörf fyrir nýja skó mjög reglulega eða svona um það bil í hvert skipti sem ég fletti tísku- eða slúðurblöðum, horfi á auglýsingar í sjónvarpi eða heyri í útvarpi. Þá er sko ekkert endilega verið að auglýsa skó. Kannski er konan sem er að auglýsa múrbrjótinn eða loftpressuna bara í ægilega huggulegum skófatnaði og þá er það akkúrat það sem Spretturinn tekur eftir, þ.e. skórnir. Mér þótti ég ekki eiga neitt brjálæðislega mikið af skóm samt, eða alveg þangað til skóumræða við vinnufélaga minn varð til þess að hann spurði mig hversu mörg skópör ég ætti. Ég svaraði hreinskilnislega að það væru í heildina kannski u.þ.b. 45 – 50 pör, en það væri MEÐ ÖLLUM , þ.e. íþróttaskóm, gönguskóm o.þ.h. Ég fékk bara gapandi munn upp á gátt og augu á stilkum, vesalingurinn kom ekki upp orði en þegar viðkomandi rankaði við sér sagði hann bara að ég væri sko ekki í lagi. Ég fór að hugsa minn gang og velta fyrir mér hvort kannski væri það óvenjulegt og óheilbrigt með meiru að eiga ekki bara eina íþróttaskó, eina gönguskó og eina spariskó. Eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér komst ég að þeirri niðurstöðu að ég væri óvenjulegur skófíkill að einu leyti og það væri að ég ætti bara alls ekki nógu mörg skópör, því allir alvörufíklar eiga sko miklu fleiri. Enda er umræddur vinnufélagi karlmaður og því augljóst mál að þó ekki sé nema sökum kynferðis hans þá get ég ekki tekið slíkar yfirlýsingar alvarlega og mun því eftir fremsta megni reyna að bæta að minnsta kosti einu pari í skósafn mitt þegar við Folinn bregðum okkur til Barcelona í næstu viku.

Gangið hægt um gleðinnar dyr,
Imelda Marcos de la Sprettur

fimmtudagur

Sjónvarpsgláp

Gerðist svo djörf að sleppa æfingu í gær sökum tímaskorts. Prinsessan og Folinn tóku sig til og elduðu gómsætar ítalskar kjötbollur með pastalengjum. Prinsessan einstaklega lagin við að hnoða og blanda í gumsið. Foreldrarnir litu í mat og ákveðið var að ganga í sláturgerð í lok mánaðarins þar sem við vorum greinilega aðeins of fljót á okkur að ætla í slátrið um næstu helgi, því sláturgerðarefni verður ekki í boði í verslunum fyrr en eftir rúma viku .

Körfuboltaævintýri Folans er hafið á ný eftir sumarfrí og var fyrsta æfing í gærkveldi. Við mæðgurnar skemmtum okkur yfir amerískri lágmenningu sem hefur hafið göngu sýna á á Skjá einum á ný, eða America´s next top model. Það er varla að ég viðurkenni fyrir sjáfri mér að hafa gaman af þessum þáttum en svona er það bara. Þarna eru samankomnar, eins og áður, hópur af ungum stelpum sem flestar eiga það sameiginlegt að vera ógurlega mjóar og æðislega sætar. Þarna er þó ein sem fór strax alveg svakalega í taugarnar á mér, Jade, sem er hin mesti hrokagikkur og leiðindaskjóða. Voða flott á myndum en verður einhvern veginn bara hundljót af því hún er svo leiðinleg. Afríkudrottningin Nnenna er mitt uppáhald, svona í bili að minnsta kosti. Helsti kosturinn við þennan þátt í heild er að heyra og sjá hinn úbersexý ljósmyndara og dómara Nigel Barker, kynþokkinn hreinlega drýpur af manninum. Ms. Jay er alltaf jafnfurðuleg(ur) og skrýtinn. Skil ekki af hverju sumir hommar eru ósköp og venjulegir karlmenn en svo eru aðrir sem fara algjörlega overboard á hinn veginn. Ms. Jay er einn af þessum “hinn veginn” hommum. Þetta er ekki einu sinni kvenlegt, engin heilvita kona hagar sér svona svona því þetta er svo ógurlega ýkt að það er bara bjánalegt. En það er hægt að brosa að honum svo sjálfsagt gegnir hann einhverju hlutverki í þessum þáttum öðru en því að kenna þessum stelputrippum að ganga. Svo er það hinn Jay”inn”, voðalega sætur strákur, dáldið í kvenlegri kantinum, en ósköp venjulegur að öðru leyti, huggulegur strákur sem hægt er að taka alvarlega því hann kemur ekki þrammandi fram sýningarpall á 15 sentimetra háum hælum og í stuttum kjól með uppsett hár og rósir í eyrunum. Tyra Banks er bara Tyra Banks, falleg kona sem kann að nota frægðina sér (og öðrum) til framdráttar, ekkert nema gott um það að segja.
Ég ætti algjörlega að vera sjónvarpsþáttagagnrýnandi, sé það núna. Gæti allavega ekki verið dómari í svona þætti því þá tæki enginn eftir þessum stelpugreyjum sem eru að baslast við að vera sætar og sexy.

Æfing í Spönginni í dag og á morgun, síðan er það hardcore æfingar um helgina með G-strengnum sem ætlar að mæta galvösk í spandexgallanum með legghlífarnar bæð laugardags- og sunnudagsmorgun :)

Sprettur

þriðjudagur

Enginn titill

Af því ég er svo ógeðslega falleg og töff þá er stundum svolítið erfitt fyrir mig að vera á meðal venjulega fólksins því það glápir svo mikið á mig. Í ræktinni í gær varð ég illilega vör við þessi þroskahöft . Ég var að taka brjálað á því eins og vanalega og vera ég ótrúlega flotta sjálf, en þarna voru einhverjir guttar sem voru alltaf að gjóa glyrnunum á mig. Hélt fyrst að þeir væru bara að öfundast af því ég er svo æðislega miklu sterkari en þeir. Lét það því ekki á mig fá þó þeir gláptu aðeins, en konurnar þeirra eru örugglega illa tilhafðar með aflitað hár og næntísmeiköpp úthverfamæður og maður verður að sýna slíku skilning, enda ekki allar konur sem geta verið bombur og natúral bjútís eins og ég. En þeir voru með uppglennt hvolpaaugun og slefið í munnvikunum í hvert sinn sem ég gekk framhjá þeim svo þetta var að verða vandræðalegt. Ég byrsti mig aðeins við þá og sagði ákveðið að enginn vildi renna á rassinn í aumingjaslefi á líkamsræktarstöð svo þeir yrðu bara að taka sig saman í andlitinu og fara í kalda sturtu. Þeir urðu ægilega skömmustulegir og sögðust bara ekki ráða við sig því ég væri svo ótrúlega flott og æðisleg. Aha, tell mí sommþeing æ dónt nó :/

Yfir í allt annað, m helgina ætla ég að feta í fótspor íslenskra kjarnakvenda og taka slátur með fjölskyldunni. Þá verður nú aldeilis fjör í Fannafoldinni leyfi ég mér að segja. Foreldrarnir og Tengdó mæta á svæðið stútfull af sláturfræðum sem beint verður til komandi kynslóða. Það verður nú aldeilis hressandi að geta skellt slátri í pottinn af og til þegar veturinn skellur á. Fullt af börnum sem aldrei hafa borðað heitt slátur eða svið....skil ekki svoleiðis. Verðum að viðhalda okkar gömlu góðu hefðum, sérstaklega þessum góðu Í næstu viku ætlum við Folinn síðan að skjótast til Barcelona í nokkra daga þar sem við munum rölta um stræti og torg, vonandi í góðu veðri, og láta fara vel um okkur á fimm stjörnu hóteli í miðborginni. Vorum jafnvel að spá í að fara á leik Barcelona vs. Valencia en það eru bara til miðar á dýrasta svæðið sem kosta litlar 175 EUR á mann, eða tæpar 16.000 krónur. Svo var maður að væla yfir miðaverði á landsleikina hér heima, þar sem dýrasti miðinn er á 5.000 kallinn :/
En, þar sem ég hef aldrei orðið svo fræg að koma til Barcelona og ef einhver er með góða punkta varðandi restauranta, möst sí staði eða hvað sem er....plís tell mí á kommentakerfinu.

Annars er ég eitthvað svo hugmyndasnauð og stífluð þessa dagana að ég rétt næ að merja í gegn örfáar og ómerkilegar setningar á þessu blessaða bloggi.

Farin í bili,
Sprettur fagri

miðvikudagur

Blessuð börnin

Prinsessan tók fyrstu körfuboltaæfingu vetrarins seinnipartinn í gær og var hæstánægð með að vera byrjuð aftur. Held hún sé bara nokkuð góð sú stutta. Merkilegt hvað margar af stelpunum (og strákunum kannski líka) sem eru með henni í bekk eru latar og ræfilslegar. Fæstar nenna að stunda einhverjar íþróttir og ef þær nenna því eru þær keyrðar og sóttar á æfingar, sem eru kannski í ca. 10 mínútna göngufæri frá heimilum þeirra, ansi margar eru keyrðar í skólann á morgnana og þá jafnvel sóttar líka. Borða kókópöffs í morgunmat, taka möffins í nesti og úða í sig kökum og kexi í eftirmiðdaginn sem skolað er niður með gosi og sykruðum jógúrtdrykkjum. Er það nokkur furða að íslensk æska sé að springa úr spiki og aumingjaskap. Foreldrarnir láta þessi grey gangast upp í ræfildómi og leti þar sem friður fyrir röfli er keyptur með nammipoka og íspinnum. Prinsessan hjólar eða gengur í skólann alla daga, mögulega er hún keyrð í ausandi rigningu, en rok, snjókoma og kuldi er ekki látið standa í vegi fyrir hjóla- eða göngutúr. Hún gerir slíkt hið sama er kemur að körfuboltaæfingum, sem eru þó í næsta hverfi, þ.e. Hamrahverfinu. Hún borðar ósætt morgunkorn eða ristaða brauðsneið í morgunmat alla daga, drekkur vatn með því henni þykir það best, nestispakkinn inniheldur yfirleitt ávexti, flatkökur og slíkt sem hún rennir síðan niður með klakavatni. Á heimili Spretts er kókópöffs keypt einu sinni á ári, jólunum. Mín börn eru vön þessu og þykir ekkert tiltökumál þó ekki séu allar hillur fullar af sykurjógúrti og súkkulaðikexi. Sem betur fer.

Unglingurinn er farinn í framhaldsskólan á Laugum og er bara sáttur við lífið og tilveruna. Mikið hefði ég viljað fara í heimavistarskóla á hans aldri, þvílíkt ævintýri. Þetta var þó aðeins meira tilstand að senda drenginn norður í land heldur en ef hann hefði farið í MS, sem hann hætti svo við ca. korter í skólasetningu . Það þarf náttúrulega að merkja hverja einustu flík með einhverju fyrirfram ákveðni þvottanúmeri. Það er gert til að blessaðir unglingarnir fái nú örugglega rétt föt tilbaka úr þvottahúsinu, því ekki held ég að þessi elska tæki sig neitt sérstaklega vel út í bleikum g-streng, þröngum Tark buxum og flegnum gullbol við. Svo þurfti að pakka niður hverri einustu flík sem drengurinn á, skólabækur í bunkum sem keyptar höfðu verið á skiptibókamarkaði í borginni, handklæði, skófatnaður, íþróttataska, skólataska og guð má vita hvað. Þetta hófst þó allt að lokum þegar Spretturinn var búin að standa sveitt með merkiborða og strauja á allar flíkur. Nú á bara eftir að senda þeim stutta (eða þannig) DVD diska sem hann vildi fá, græjurnar og lítinn “Coca Cola” kæli sem Systir var svo elskuleg að lána honum svo hann gæti nú haft kannski nokkra kalda drykki eða eitthvað annað inni á herbergi. Anyways, gott í honum hljóðið og gengur bara vel, svona fyrstu vikuna að minnsta kosti.

Ekki horfði ég á Rockstar í gær frekar en fyrri daginn, en mun fylgjast með endursýningunni í kvöld. Kaus þó kappann nokkrum sinnum í morgun þar sem ég “var stödd” með tölvuna í Auckland á Nýja Sjálandi. Kíkti aðeins á frammistöðuna á netinu og þótti bara nokkuð gott hjá gaurnum.

Sprettur út

þriðjudagur

Rockstar

Rockstar Supernova er nýjasta æðið hjá landanum þessa dagana. Magni stendur sig eins og hetja, en ég skil ekki af hverju ég var ekki beðin um að fara því þá væri búið að senda alla heim með skít og skömm því ég er svo ógeðslega góð söngkona. Miklu betri heldur en þessar glyðrur sem eru þarna núna, Dílahana og Stormur í vatnsglasi, tala nú ekki um spartzldolluna þarna með aflitaða kambinn, ómægod, kom í ljós að þetta var ekki rosalega mössuð og ófríð kona, nei nei heldur kanadískur karlmaður sem gengur um eins og útbrunninn transari sem kannski eitt sinn var dragdrottning Halifax og lifir á þeim gamla draumi ennþá. Svo er einn þarna líka sem lítur nú nokkuð eðlilega út, þar til hann fer að berjast við að tala.....er þetta eitthvað syndrome sem hann er með eða er kannski bara verið að djóka með okkur...nei, ég held að við ættum bara að senda eftir Magna til að koma heim til konu og barns því þessir geðsjúklingar geta bara ekki verið að hafa góð áhrif á svona stapílan og mikinn fjölskyldumann sem hann og er. Nei, ég get ráðist svona á aumingja fólkið...tek þetta allt tilbaka því mér finnst þau öll frábær og ótrúlega góðir söngvarar, ég er nú ekki svo hörð að ég vaki og horfi í beinni, en missi þó helst ekki af endursýningunni, því fátt þykir mér skemmtilegra en að fylgjast með góðum söngvurum sýna hæfileika sína, þótt svo ég viti innst inni að ég er miklu betri, enda ekki að ástæðulausu sem ég hef aldrei komið opinberlega fram því þá væru allir íslenskir tónlistarmenn atvinnulausir og ég nenni bara ekki að vera þessi ótrúlega hæfileikaríka og flotta sem allir öfunda. Nóg er nú samt að hafa allt ljóta fólkið gónandi á sig alla daga.

Björn Bjarnason, sá er titlar sig dómsmálaráðherra, segir Íslendinga þurfa að búa sig undir komu alþjóðlegra glæpahringja. Vísar hann til fjölda Litháa sem hafa verið handteknir undanfarin misseri. Er maðurinn asni? Auðvitað leita þessir menn hingað til lands, ef þeir nást og eru svo óheppnir að fá dóm, þá fá þeir þetta fína sumarfrí á Kvíabryggju í nokkra mánuði í fríu fæði og nýjum rúmum með kveðju frá Árna Johnsen. Kannski er það þess vegna sem við þurfum leyniþjónustu!

Nóg í bili, reyni að renna inn færslum aðeins oftar á næstunni.
Sprettur flottasti