After all, tomorrow is another day!

föstudagur

Skór

Skrapp í Kringluna í hádeginu til að kaupa eina skólabók fyrir Unglinginn sem og afmælisgjöf sem Prinsessan þarf að hafa með sér þegar hún fer í fæðingarveislu einnar vinkonu seinna í dag. Datt aðeins inn í nokkrar skóbúðir í leiðinni og pínkupons inn í Karen Millen og Kúltur. Merkilegt hvað maður á auðvelt með að detta inn í svona búðir þó maður geri allt í sínu valdi til að sneiða hjá þeim. Svo detta bara fimmþúsundkallarnir stjórnlaust upp úr veskinu þegar maður rekur augun í einhverja girnilega flík eða skó. Minn helsti veikleiki á bæjarrölti (Kringluhlaupi í þessu einstaka tilviki) eru samt skóbúðir. Finn ógurlega og jafnframt viðurkennda (a.m.k. meðal kynsystra minna) þörf fyrir nýja skó mjög reglulega eða svona um það bil í hvert skipti sem ég fletti tísku- eða slúðurblöðum, horfi á auglýsingar í sjónvarpi eða heyri í útvarpi. Þá er sko ekkert endilega verið að auglýsa skó. Kannski er konan sem er að auglýsa múrbrjótinn eða loftpressuna bara í ægilega huggulegum skófatnaði og þá er það akkúrat það sem Spretturinn tekur eftir, þ.e. skórnir. Mér þótti ég ekki eiga neitt brjálæðislega mikið af skóm samt, eða alveg þangað til skóumræða við vinnufélaga minn varð til þess að hann spurði mig hversu mörg skópör ég ætti. Ég svaraði hreinskilnislega að það væru í heildina kannski u.þ.b. 45 – 50 pör, en það væri MEÐ ÖLLUM , þ.e. íþróttaskóm, gönguskóm o.þ.h. Ég fékk bara gapandi munn upp á gátt og augu á stilkum, vesalingurinn kom ekki upp orði en þegar viðkomandi rankaði við sér sagði hann bara að ég væri sko ekki í lagi. Ég fór að hugsa minn gang og velta fyrir mér hvort kannski væri það óvenjulegt og óheilbrigt með meiru að eiga ekki bara eina íþróttaskó, eina gönguskó og eina spariskó. Eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér komst ég að þeirri niðurstöðu að ég væri óvenjulegur skófíkill að einu leyti og það væri að ég ætti bara alls ekki nógu mörg skópör, því allir alvörufíklar eiga sko miklu fleiri. Enda er umræddur vinnufélagi karlmaður og því augljóst mál að þó ekki sé nema sökum kynferðis hans þá get ég ekki tekið slíkar yfirlýsingar alvarlega og mun því eftir fremsta megni reyna að bæta að minnsta kosti einu pari í skósafn mitt þegar við Folinn bregðum okkur til Barcelona í næstu viku.

Gangið hægt um gleðinnar dyr,
Imelda Marcos de la Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home