After all, tomorrow is another day!

miðvikudagur

Miðvikublogg

Maður er eitthvað svo andlaus í blogginu þessa dagana. Kannski vill maður bara ekki sjá á prenti hvað líf manns er hversdagslegt, nú eða þá að maður er svo ofboðslega spennandi og brjálæðislega upptekinn persóna að það er bara hreinlega enginn tími til að blogga. Ég kýs að vera númer tvö.

Unglingurinn tók uppá því að týna PSP tölvunni sinni í strætó um daginn og setti með því nýtt met þar sem aldrei áður hefur hann átt nokkurn hlut í jafnstuttan tíma eins og þessa leikjatölvu. Að sama skapi held ég að hann hafi aldrei tekið það jafnnærri sér að týna nokkrum hlut. Hér á eftir fer upptalning á nokkrum þeim hlutum sem koma upp í hugann af því sem hann hefur týnt eða skilið eftir einhversstaðar í gegnum tíðina:

Úlpa þegar hann var 6 ára gamall í Vesturbæjarskóla. Hann fékk nýja.
Skólabækur í tugatali frá 6 ára aldri til 14 ára. Hann fékk nýjar.
Sími þegar hann var 13 ára. Hann fannst.
Sami sími þegar hann var 14 ára. Hann fannst.
Fékk nýjan síma í desember sl. sem týndist í febrúar. Hann fannst ekki.
Húfur til að klæða heilan þjóðflokk. Fundust aldrei.
Reiðhjól þegar hann var 6 ára. Fannst aldrei.
Reiðhjól þegar hann var 7 ára. Fannst og týndist aftur. Fannst ekki.
Reiðhjól þegar hann var 7 ára (já annað). Fannst ekki.
Reiðhjól þegar hann var 12 ára. Fannst og týndist aftur. Fannst ekki.
Reiðhjól þegar hann var 13 ára. Fannst aldrei.
Reiðhjól þegar hann var 14 ára. Fannst aldrei.
Tek það fram að flestum þessum reiðhjólum hefur verið stolið því hann nennir ekki að læsa þeim. Tek einnig fram að þessi þrjú síðustu hefur hann keypt fyrir eigin peninga.
Línuskautar þegar hann var 13 ára. Fundust ekki.
Debetkort þegar hann var 14 ára, þrjú stykki. Eitt fannst aftur.
Veski þegar hann var 14 ára (með einu debetkortinu). Fannst ekki.
PSP leikjatölvann sem rann úr buxnavasanum í strætó. Hefur ekki fundist.

Þetta er nú svona það sem kemur upp í hugann í bili :/

Slæmar fréttir í bloggheimum þessa dagana þar sem G-strengurinn dó, þ.e. bloggið hennar. Vinir og vandamenn hafa reynt að telja þessari eðalkonu trú um að hennar verði sárt saknað en hún skellur skollaeyrum við þeim grátstöfum, svo nú er bara að bíða og sjá hvort hún tekur upp þráðinn síðar.

Ég gerðist svo djörf að taka mér æfingafrí á sunnudaginn þar sem ég hafði æft daglega í 10 daga og fannst því tilvalið að slaka aðeins á. Æfði á mánudag og þriðjudag, fer í Spöngina í dag og tek nokkrar lyftur og smá cardio. Er að svitna svolítið á hjólinu þessa dagana, koma mér í hjólaform fyrir vorið svo ég geti hjólað í vinnunna á góðviðrisdögum. Ágætis æfing að hjóla úr Grafarvoginum niður í Efstaleiti, tekur ca. 25 mínútur og svo annað eins heim. Myndi nú ekki nenna þessu nema af því við erum með svo góða aðstöðu hér á stofunni, búningsherbergi, sturta og tilheyrandi. Alltaf verið að reyna að koma þessum lögmönnum í form....gengur ekki neitt ma´r. Ég var með blóðþrýstings-, fitu- og ummálsmælingar í gær. Sumir voða glaðir og aðrir í smá sjokki. Vorum með svona til gamans um miðjan janúar og allir ægilega gíraðir í að koma sér í fínt form fyrir næstu mælingu........gekk ekki alveg eftir hjá öllum. Sumir stóðu sig þó betur en aðrir.


Armbeygjurnar hafa alveg farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér og því lítil framför þar. Tók 48 í fjórum settum í gær sem er í sjálfu sér ágætt. Sé hvort ég næ ekki 30 í einu setti í dag og stefni svo á að reyna upphífingar, án stuðnings, sem mér finnst alveg óheyrilega erfið æfing. Skiptir engu hvaða þyngdir ég er að taka í öðrum æfingum, upphífingarnar eru bara alveg hrikalega erfiðar, held ég nái ekki einu sinni tveimur án stuðnings :/.

Jæja, Prinsessan er að elda í kvöld með Folann sem aðstoðarkokk. Hún fletti fram og tilbaka í uppskriftarbókum í fyrrakvöld og ákvað síðan að elda ítalskar kjötbollur sem verða bornar fram með tagliatelle og fersku salati í Fannafoldinni í kvöld.


Sprettur

föstudagur

Föstudagur

Föstudagurinn runnin upp bjartur og fagur sem endranær. Helv...kalt reyndar en hvað um það. Prinsessan var voðalega óróleg þegar ég kom heim því engin af vinkonum hennar nennti í sund og hún var sko bara alls ekkert ánægð með þessar stelpur svo hún sagðist þá bara fara ein, sem hún og gerði. Á meðan tók ég cardioæfingu í Spönginni, stöðin full af fólk að reyna að koma sér í form sem gengur greinilega misvel hjá liðinu. Suma sér maður þarna daglega, aðra annan hvern dag og svo enn aðra sem maður sér örsjaldan og þegar þeir koma er það svolítið með hangandi hendi og rétt til að friða samviskuna og réttlæta kortakaupin. Hvað um það, Unglingurinn kom og fékk far heim í Fannafoldina þar sem ætlaði að klára ritgerð og fara síðan á fund í Laugum. Við hin fórum í matarboð til vina okkar þar sem dýrindis lasagna gældi við bragðlaukana. Héldum svo heim á leið þar sem Prinsessan lagðist í rúmið með sína ástsælu Paddingtonbók og við Folinn snúlluðumst eitthvað á heimilinu þar til Desperate housewifes byrjaði, sem við auðvitað misstum ekki af. Held að Folinn sé ekkert sérstaklega spenntur fyrir þessum þáttum en mér finnst miklu skemmtilegra að horfa saman svo hann lætur sig hafa það þessi elska.

Ég var að lesa dóm yfir manni sem dæmdur var í 6 mánuða fangelsi, þar af 3 skilorðsbundið, fyrir hin ýmsu brot t.d. þjófnað, eiturlyfjabrot ofl. Einnig var þarna brot gegn fyrrverandi sambýliskonu mannsins, en hana hafði hann ítrekað ráðist á og veitt áverka, t.a.m. rifbeinsbrotið hana í tvígang. Hafði hann brotið skilorð með þessum athöfnum sínum svo hæfilegt þótti að dæma hann til ofangreindrar refsingar. Aumingjans maðurinn þarf nú að sitja í fangelsi í 3 mánuði fyrir þessi brot sín en jafnar sig nú vonandi fljótt á því. Ef hann er heppinn þá kannski verður sambýliskonan fyrrverandi ekki alveg búin að jafna sig eftir síðustu árás og hann kannski rifjað upp gömul glóðaraugu eða brotið einhver önnur bein til tilbreytingar, svo leiðinlegt að hengja sig alltaf í það sama. Kannski hann gæti gengið skrefinu lengra og nauðgað henni líka, bara svona til að sjá hvort hann komist ekki örugglega einnig upp með það. Ég meina, til hvers að stoppa hér þegar möguleikarnir eru endalausir enda vita allir að slík brot eru nánast refsilaus hér á landi. Svo er líka svo fínt að safna svona brotunum saman, skreppa bara á Hraunið annað slagið í 2 – 3 mánuði í senn, til að jafna sig og fá smá hvíld fyrir næstu törn. Sniðugt þetta söfnunarkerfi í íslensku réttarkerfi, svolítið eins og vildarpunktar...mætti kannski tengja þessi kerfi saman.

Anyways, búið er að skipuleggja baðstofuferð með glæsitúttunum í vinnunni í dag. Ég ætla að byrja á æfingu eftir vinnu og fara svo beint í dekrið með þeim hinum. Ætlaði reyndar að taka æfingarfrí í dag en þar sem ég er hvort eð er að fara í World Class get ég alveg eins mætt örlítið fyrr og tekið æfingu. Nenni ekki að fara heim i klukkutíma og svo aftur niðureftir. Svo á bara að gufast og pottast, fá sér eitthvað gott að borða og hafa það huggulegt.

Sprettur dekurdýr

Skóslys

Skrapp í Kringluna í hádeginu í gær svona rétt til að fá kort í síma Unglingsins þar sem hann hafði týnt símanum sínum. Afi hans var svo góður að láta hann fá gamlan síma sem hann átti og vantaði því bara kortið. Kringluferðir væru nú ekki í frásögur færandi hjá venjulegu fólki á venjulegum dögum. En ég er náttúrulega ekkert venjuleg kona eins og flestir vita sem mig þekkja. Vek ég alltaf svo ægilega mikla athygli hvar sem ég fer sökum fegurðar minnar og yndisþokka og fólk lagði niður störf til að horfa á mig svífa um ganga Kringlunnar í gær. Þegar ég hafði lokið erindum mínum í Kringlunni lá leið mín að rúllustiganum upp á þriðju hæð til að komast undan æstum aðdáendum og út í glæsikerruna. Ekki gekk það nú betur en svo að í öllum látunum þá rek ég hælinn á flottu nýju...eða næstunýju...stígvélunum mínum lítillega í og finn strax að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Lít við í tíma til að sjá fína hælinn skoppa niður rúllustigann eins og ekkert væri sjálfsagðara. Eins og allir vita verður maður að halda ró sinni í slíkum aðstæðum og ekki sýna nein veikleikamerki, sem ég og gerði enda í einstaklega góðu jafnvægi almennt . Er upp var komið tók ég þessa fínu U-beygju og renndi mér í rúllustigann niður aftur til að endurheimta strokuhælinn. Það vildi svo vel til að mér hafði tekist að flýja undan æstu aðdáendunum og ljósmyndurunum svo atvik þetta varð ekki fest á filmu og mun því ekki birtast í næsta tölublaði In Style undir fyrirsögninn "Tískuslys í Kringlunni". Spretturinn hafði að sjálfsögðu samband við verslunina sem selt hafði honum stígvélin og óskaði kurteisislega eftir því að þeir tækju á sig kostnað vegna viðgerðar þar sem strokuhællinn hefði ekki verið notaður nema u.þ.b. 4-5 sinnum síðan varan var keypt. Afgreiðsludruslunni fannst þetta allt voða leiðinlegt en fannst augljóslega grunsamlega lítil notkun á græjunni miðað við tímann sem hafði liðið frá kaupunum sem var ca. mánuður. Þar sem hún er nú með greind undir meðallagi og þarf því að vinna í einhverri aumingjans tískuvöruverslun fyrir lágmarkslaun þá setti ég bara upp vorkunnartóninn og benti henni á að auðvitað gæti hún ekki vitað að ég ætti fleiri skópör en þetta eina og þyrfti því ekki að ganga í sömu druslunum alla daga. Veit greinilega ekki hver ég er.

Æfingin í gær í styttra lagi eða aðeins 40 mínútur þar sem ég ætlaði að skjótast í búðina á eftir og sjoppa ávexti og aðra hollustu til að setja í pressuna góðu. Skruppum til Foreldranna í gærkveldi og var setið og spjallað í nokkra stund. Unglingurinn hafði fengið þessar fínu peysur frá þeim þegar þau komu frá Amsterdam og var voða lukkulegur með það. Prinsessan fékk skrautlega vekjaraklukku og smá sælgæti í nammibankann. Folinn skrapp svo í körfu og lögðumst við mæðgurnar í sjónvarpssófann þar sem sú stutta sofnaði.
Eigið góðan dag og passið ykkur á rúllustigunum.

Sprettur celeb

miðvikudagur

Frost á Fróni

Miðvika aftur mætt með heiðskírum himni og 7° frosti. Dagurinn í gær var frekar langur, fór og lauk lögfræðinámskeiðinu í HR sem var mjög skemmtilegt en að sama skapi var síðasti klukkutíminn líka frekar þungur þegar fjallað var um EES samninginn og EB, þvílíka skriffinnskubáknið þarna í Brussell….OMG hvað þetta er þungt og tormelt efni, en getur örugglega verið gaman að grúska í því ef maður setur sig virkilega inní það. Mig langar alveg óskaplega mikið að sitja kúrs í sifja- og erfðarétti svo ég ræddi við deildarstjóra lagadeildarinnar og úr því varð að hún ætlar að kanna möguleikana á að setja upp slíkt námskeið sem hentar mér að sjálfsögðu miklu betur J. Þar sem ég er í lærdómsgírnum þá ætla ég einnig að kanna með frönskunám fyrir byrjendur. Ég heillaðist svo afskaplega af landi og þjóð þegar við fórum þangað fyrir tveimur árum síðan og svo þessa stutta ferð sem við fórum nú um daginn endurlífgaði þann áhuga sem legið hafði í dvala. Við Folinn höfðum reyndar ákveðið fyrir mörgum árum síðan að við ætluðum okkur að læra samkvæmisdansa og frönsku einhvern tímann í framtíðinni. Nú erum við löngu búin að læra samkvæmisdansana…..og gleyma þeim að mestu leyti líka ef út í það er farið :/…..svo þá er bara að skella sér í frönskuna.

Prinsessan fór í sund seinnipart gærdagsins og Unglingurinn að vinna. Ég tók æfingu eftir námskeiðið, sem hafði reyndar dregist til kl. 17:00, og var því ekki komin heim fyrr en um hálfsjöleytið. Litum við í nýjum híbýlum Stóru stelpnanna sem voru búnar að gera afskaplega huggulegt hjá sér en vantaði lítillega aðstoð Folans við smá snúll og snall. Þær voru afskaplega húsmóðurlegar, búnar að baka vöfflur og lummur sem þær buðu uppá. Tengdó mætti svo á svæðið og sátum við lengur er við ætluðum og fórum því ekki heim fyrr en rétt fyrir kl. tíu sem þýddi það að Prinsessan var alveg einstaklega fúl á móti þegar hún var vakin í morgun enda ekki vön að vaka svona lengi á skóladögum þessi elska. Var reyndar hundfúl þegar heim var komið og hún fékk ekki að lesa fyrir svefninn. Hún er nefnilega að lesa gamla Paddingtonbók sem ykkar einlæg átti sem barn og finnst Prinsessunni hann Paddi alveg einstaklega fyndinn og uppátækjasamur skógarbjörn svo hún á oft erfitt með að leggja bókina frá sér þegar kemur að því að fara að sofa.

Við Folinn festumst í Prison Break á Stöð 2, eins og reyndar alla aðra þriðjudaga. Það eru nokkrir þættir sem ég vil alls ekki missa af í sjónvarpinu, Desperate Housewifes, Prison Break og svo hámenningarþátturinn Footballer´s wifes, þegar hann er á dagskrá. Erum alveg hætt að nenna að fylgjast með LOST þar sem nákvæmlega ekkert gerðist í fyrstu 4 þáttunum og síðan er komið í ljós að við fáum heldur enga niðurstöðu í lok 2. seríu og ég nenni nú hreinlega ekki að horfa á guð má vita hvað margar seríur til að verða upplýst um leyndardóm þessarar dularfullu eyju sem þau eru á. Held að höfundarnir viti það ekki sjálfir, þeir improvæsa bara hvern þátt fyrir sig.....ekki nógu glöð með þá.

Annars er planið í dag að renna á æfingu eftir vinnu eins og landslög gera ráð fyrir. Prinsessan ætlar á skauta eftir skóla og fer síðan beint á körfuboltaæfingu. Unglingurinn að vinna í Klassanum. Síðan munum við sjálfsagt taka síðan á Foreldrunum sem komu heim frá Amsterdam í gær og eru sjálfsagt léttskökk eftir að hafa villst inn á einhverja hassbúlluna J.

Kjúklingur a la Nigella Lawson í Fannafoldinni í kvöld. Gef ykkur kannski uppskriftina af honum síðar ef þið hafið brjálaðan áhuga á því.

Spretturinn út

þriðjudagur

Monday bloody monday

Eftir að hafa verið í París í 6 daga í síðustu viku finnst manni frekar lítill tími líða á milli hennar og þeirrar næstu sem er til Köben þann 21. apríl nk. Eins og það sé ekki nóg þá þarf Folinn að fara til Hollands um mánaðarmótin í heila þrjá daga á ráðstefnu og námskeið svo ég verð grasekkja, snökt snökt .

Glæsikvendin hafa ákveðið að vera með vorveislu mikla keimlíka þeirri sem haldin var fyrir ári síðan. Verður boðið uppá kræsingar í Fannafoldinni þann 20. maí nk., á júrókvöldinu mikla þar sem við vonum á Silvía Nótt verði meðal keppenda. Ein, og jafnvel tvær gyðjur munu ekki sjá sér fært að mæta þar sem þær hafa þarfari hnöppuna að hneppa norður á SigloCity þessa sömu helgi. Persónulega get ég ekki séð að nokkuð sé merkilegra eða skemmtilegra en við hinar tútturnar, sem það er heldur örugglega ekki . Það kemur alltaf annað slagið upp einhver sjálfstæðisbarátta í eitthvert kvendið í klúbbnum, en ég hef reynt eftir bestu getu að berja það jafnharðan niður aftur og hefur tekist nokkuð vel til. Maður verður stundum að leyfa þessum gærum að rasa aðeins út fyrir utan félagsskapinn svo þær sjái hvað þær hafi það gott. Enda koma þær alltaf skríðandi tilbaka þegar þær sjá hvað þær hafa það gott undir minni stjórn. Ég er eins og flestir góðir leiðtogar og tek þeim því opnum örmum á ný um leið og þær hafa fært fórnir mér til heiðurs og keypt stóra pakka handa mér. Ég er mildur, skilningsríkur og þolinmóður leiðtogi, fyrir utan að vera óstjórnlega falleg og fyndin .

Helgin var áreynslulaus að mestu leyti fyrir utan massaæfingar gyðjunnar. Eftir æfingu vara boðið í mexíkósku súpuna sem tókst með eindæmum vel eins og við var að búast hjá þvílíkum snilldarkokki eins og mér sjálfri. Stóra stelpan og Tengdadóttirin standa í stórræðum þessa dagana þar sem verið er að flytja af Miklubrautinni og í kjallaraíbúð á Bergþórugötunni. Voru þær því voða glaðar að fá eitthvað almennilegt að borða í framkvæmdunum. Eftir matinn renndi fjölskyldan sér í Idolkaffi til tengdó sem var afskaplega fínt. Við vorum að sjálfsögðu ekki alveg sátt við úrslitin en það skiptir svosem engu máli í hvaða röð þau detta úr svo framarlega sem hún Ína stendur uppi sem sigurvegari. Langbesti söngvarinn í hópnum að hinum öllum ólöstuðum.

Unglingurinn er hjá okkur um helgina en fór með félaga sínum í bíó og kom því ekki heim fyrr en seint um kvöldið og renndi sér í rúmið með nýju PSP tölvuna sem foreldrarnir höfðu keypt fyrir hann (ekki handa honum ) í Fríhöfinni á heimleið frá Frakklandi.
Prinsessan fór í Enskuskólann á laugardagsmorgninum og tók mín þá æfingu í Laugum á meðan, tók nokkuð vel á því og fegraði kroppinn í tæpa tvo tíma eða þar til tími var kominn á að sækja Prinsessuna aftur. Eldaði aðra gómsæta sælkeramáltíð á laugardagskvöldið handa litlu fjölskyldunni, tagliatelle með humri. Unglingurinn var að vinna og fékk því ekki að bragða kræsingarnar og fannst þetta ekkert girnilegt þegar hann kom heim frá vinnu kl. 10 um kvöldið. Er mikill pastakarl en finnst humar og rækjur í pasta algjör hroðbjóður svo hann fékk sér bara brauðsneið og læddi sér svo í rúmið með nýja elskhuganum, PSP. Við hjónin lágum eins og rotið grænmeti fyrir framan kassann allt laugardagskvöldið og fórum dofin í rúmið eftir allt glápið. Um tvöleytið bankar Unglingurinn á herbergisdyr foreldra sinna og hvað haldið þið hann hafi vantað á þessum tíma sólarhringsins.......”mamma geturðu keyrt mig á Players á morgun, ég ætla að horfa á Liverpool leikinn”.........þetta mátti semsé ekki bíða til næsta dags, sér í lagi þar sem leikurinn byrjaði hálftvö.....

Æfing snemma á sunnudagsmorgun þar sem við vorum einbíla þar sem bíll Folans var í flutningum með stelpunum og körfuboltaæfing kl. 11 hjá mínum manni. Ég skutlaðist því kl. 10 í Spöngina og tók 45 mínútna cardioæfingu.
Keyrði Unglinginn á Players rúmlega eitt þegar Folinn skilaði sér úr körfunni. Sparifrænkurnar í næsta húsi voru boðnar í sunnudagsmatinn og var göldrum fram dýrindis nautalund með tilheyrandi sem rann ljúflega í mannskapinn. Eldri frænkan af þeim tveimur fór nú fljótlega heim þar sem hún var svo þreytt....held hún hafi verið í gleðskap kvöldið áður og því þurft að jafna sig örlítið. Hin sat eftir og var skrafað og spjallað þar til hún fór. Unglingurinn tók til við að skrifa ritgerð sem er ”due” á þriðjudaginn og við tókum því rólega það sem eftir lifði kvölds.

Þá er helgarrapportinu hér með lokið.

Er annars að selja fjórhjól ef einhver hefur áhuga, Bombardier Quest Rotax 650, árg. 2004 og keyrt innan við 400 km. Sendið mér bara tp. á sjl@simnet.is ef þið viljið kíkja á græjuna .

Sprettur

föstudagur

Komin aftur

Jæja þá börnin mín stór og smá, þá er maður bara mættur á klakann aftur og klár í bloggið. París var frábær í alla staði og í rauninni ekkert meira um það að segja þar sem við vorum afskaplega mikið á röltinu í góða veðrinu (var reyndar rosalega kalt 3 dagana af þessum 6) þar sem sól og logn var mestallan tímann. Við misstum að minnsta kosti af rigningunni sem Systir og Oddurinn fengu á sig daginn áður en við komum. Vorum með þeim yfir helgina og svo þegar þau fóru á mánudagsmorgun vorum við tvö eftir þar til við komum svo heim á miðvikudagsnótt. En semsagt var mest verið að rölta og skoða mannlífið, kíktum á markaði, fórum í latínuhverfið og gyðingahverfið, versluðum smávegis, borðuðum góðan mat og svo fórum við í túristagírinn einn dag þar sem við fórum í Eiffelturninn, Notre Dame osfrv. Ferðinn dásamleg í alla staði. EN…..þegar við síðan ætluðum nú að tía okkur heim til Íslands komu upp hin ýmsu vandamál. Við mættum á Charles De Gaulle flugvöllinn rétt rúmum klukkutíma fyrir brottför eins og til er ætlast. Þá var búið að loka hæðinni þar sem Icelandair var að tékka inn sína farþega. Við skrolluðumst þarna um og reyndum að fá upplýsingar frá einhverjum, sem gekk frekar erfiðlega þar til ég hóaði í einn lögregluþjóninn sem var þarna á röltinu og fékk þá uppgefið að það léki grunur á að um sprengju væri að ræða og því væri búið að loka hæðinni. OK fine, allir aðrir Íslendingar sem áttu að vera um borð í þessari vél virtust hafa ákveðið að mæta brjálæðislega snemma og voru því búnir að tékka sig inn og við gátum ekki betur séð en að við værum einu strandaglóparnir, a.m.k. íslenskir. Tíminn leið og við frekari eftirgrennslan þá kom í ljós að fluginu yrði ekki frestað og við biðum því eftir að okkur yrði hleypt niður. Þegar bunkinn af lögregluþjónum kom svo askvaðandi og fólk var beðið um að fara lengra í burtu þá sáum við að líklega yrði ekki hleypt á neðri hæðinna í bráð. Hringdum því í Icelandair og þeir komu af fjöllum, höfðu ekkert heyrt af sprengjuhótun en báðu okkur að hafa samband við þjónustuborð SAS sem myndi aðstoða okkur. Á þeim tímapunkti voru ca. 20 mínútur í brottför. Kona hjá SAS tók afskaplega vel á móti okkur og eftir nokkrar mínútur var ljóst að vélin færi án okkar. Tók hún þá til við að finna önnur úrræði fyrir okkur og að lokum bauð Icelandair okkur tvo kosti. Sá fyrri var að fljúga til London með Air France eftir rúman klukkutíma, bíða á Heathrow í tæpa sex tíma og fljúga þá með Icelandair þaðan til Íslands og vera komin heim um hálfeittleytið e. miðnætti. Sá seinni var að vera áfram í París í tvo daga til viðbótar og taka þá beint flug heim með Icelandair á föstudeginum, s.s. í dag. Auðvitað vildum við bara drífa okkur heim og tókum því fyrri kostinn þrátt fyrir alla þá bið sem við áttum fyrir höndum í London. Ónei, ekki svona auðvelt mín kæra…..ef þið takið þann kostinn þá þurfið þið að borga 80 EUR á mann. Ástæðan sem Icelandair gefur upp er sú að það hefði ekki verið þeim að kenna að við hefðum ekki komist með vélinni og því þyrftum við að borga. Ef við hefðum valið seinni kostinn hefðum við ekki þurft að borga aukalega en að sjálfsögðu hefði hótelkostnaðurinn orðið miklu meiri svo við greiddum með semingi þessar 160 EUR og mun ég nú herja allsvakalega á flugfélagið og ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana með þessa greiðslu. Okkur finnst þetta fáránleg svör, þ.e. að við þurfum að borga af því þetta var ekki þeim að kenna…..Þegar við lentum á Heathrow sáum við að það tæki því ekki að fara inn í London þar sem sú ferð tæki sjálfsagt rúman klukkutíma báðar leiðir, kostaði morðfjár og þegar upp væri staðið gætum við kannski eytt 2-3 tímum þar. Þannig að við fengum okkur að borða og röltum aðeins um. Bjargaði þessu algjörlega að vera með passa í Executive Lounge þar sem við gátum chillað og glápt á sjónvarpið þar til við fórum. En mikið helvíti er leiðinlegt að bíða svona á vellinum. Þetta var sjálfsagt ágætisæfing fyrir Nýja Sjálands ferðina í desember þar sem sú ferð tekur að minnsta kosti rúman sólarhring EF MAÐUR ER HEPPIN og þarf ekki að bíða mikið á völlunum. En, nú er bara að búa sig undir ferðina til Köben í næsta mánuði...það verður reyndar mjög stutt stopp, bara tveir dagar svo við slöppum bara af og fáum okkur kannski hjól ef veðrið er gott. Mæli reyndar með því við alla sem fara til Köben að fá sér hjól þar sem hægt er að leigja þau fyrir kúk og kanil hingað og þangað um borgina og alveg ótrúlega gaman að skottast þar um á hjóli, smá tilbreyting frá hinu eilífa rölti J

Anyways, life goes on og hefst með æfingu í Spönginni í dag þar sem ég ætla bara að taka langt og gott cardio og kannski smá magaæfingar. Prinsessan í kröfubolta og svo er planið að bjóða Stóru stelpunni og Tengdadótturinni í mexíkóska súpu í kvöld. Stefnan verður svo líklega tekin á híbýli tengdaforeldra minna þar sem við ætlum að kíkja í smákaffi til þeirra sem endar sjálfsagt með Idolpartýi hjá þeim gömlu J.

Spretturinn kveður

miðvikudagur

Sitt lítið af hverju

Á mbl.is í dag segir leikarinn Macauley Culkin (Home alone) að leikaraferli hans sé lokið, enginn vilji ráða hann. Ég verð að segja að mér þykir maðurinn einstaklega tregur að átta sig á því þar sem hann virðist lítið sem ekkert leikið síðan Home alone myndirnar slógu í gegn fyrir mörgum árum. Mér fannst hann ógurlega mikið krútt í þeim myndum en hann hefur lítið breyst í útliti, virðist bara hafa stækkað en andlitið ekkert breyst. Ég geri mér grein fyrir því að við erum flest ekkert endilega gjörbreytt frá því við vorum börn og hægt að sjá sama svipinn, en það sem mér fannst svo ægilega sætt og indælt við hann þegar hann var barn finnst mér bara hálfcreepy svipur á honum núna sem fullorðnum manni. Svo finnst mér engin sérstök meðmæli að vera góður vinur Michael Jackson. En það er nú aldeilis gott að greyið hafi nú á endanum áttað sig á þessu öllu saman þó svo það hafi nú tekið hann 16 ár.

En yfir í allt annað....ég tók cardioæfingu í Spönginni í gær og fór þaðan vel sveitt eftir áreynsluna. Þá tók við bekkjarkvöld hjá Prinsessunni þar sem krakkarnir endurtóku atriði sem þau voru með á árshátíð bekkjarins. Stóðu sig afskaplega vel og Prinsessan alveg að meika það í aðalhlutverki sem Gedda gulrót í Ávaxtakörfunni. Pantaðar pizzur að því loknu og allir héldu heim klukkan átta. Ég fríkaði út í fataskáp okkar Folans og reif og tætti út flíkur sem hafa runnið sitt skeið, í bili að minnsta kosti. Nennti nú ekki að taka allan skápinn í gegn í gærkveldi svo ”there´s more to come” þegar ég missi mig í restinni, sem og fatahirslu Prinsessunnar. Er nú samt nýbúin að grisja til hjá þessari elsku, en hún stækkar bara svo ört þannig að maður hefur varla við. Er jafnstór Prakkaranum sem er rúmlega ári eldri og vantar örfáa sentimetra upp á að vera jafnstór og Fimleikadrottningin sem er þremur árum eldri. Þau eru reyndar bæði í lægri kantinum miðað við jafnaldra..but still.......Það verður þá bara skemmtilegt að sjoppa aðeins á trítluna í París.

Systir og Oddurinn flugu til Parísar snemma í morgun og fengu skýr fyrirmæli frá mér sjálfri og Folanum að klára allt sem væri leiðinlegt áður en við kæmum á föstudaginn. Finnst eins og þau hafi bara haldið að þetta væri eitthvað grín . Annars er ég búin að fá margar og góðar leiðbeiningar um allt sem er gott og skemmtilegt í París, sem er þónokkuð mikið, þar sem tveir lögmenn sem ég vinn með hafa mikið verið í París, annar bjó þar í nokkur ár og hin sem er reyndar frá Belgíu en hefur mikið verið í París. Mér finnst alltaf gott að vera með smávegis í farteskinu þegar ég ferðast til útlanda og ég er minnst hrifin af þessu týpíska túristadæmi, Langar að fara og kíkja á Eiffelturninn en ekkert sérstaklega spennt fyrir að fara upp. Sama gildir um Louvre safnið, ég er bara svo afskaplega laus við að vera svona menningarlega sinnuð að ég efast um að ég fari lengra en bara fyrir utan safnið, svona rétt til að sjá þetta. Ég ætla að þvælast um Mýrina, fara á stóra flóamarkaðinn í 10 hverfi og rölta um hverfið þar sem Rauða Myllan er og kannski versla pínulítið, og síðast en ekki síst ætla ég að borða endalaust af góðum mat alla dagana. Held ég verði samt að framlengja til að geta borðað á öllum þessu góðu stöðum. Einn ”túrista” ætlum við systur samt að taka með strákana okkar, en hún ætlar að panta fyrir okkur siglingu með dinner niður Signu og á eitthvað show. Best ég pakki niður í kvöld því Prinsessan fer til ömmu og afa annaðkvöld og þá kannski kíkjum við Folinn bara í bíó áður en við höldum út í heim .

Körfubolti hjá Prinsessunni og efrikroppsæfing hjá mér í Spönginni. Ætla að elda fajitas í kvöld handa familíen og húsmóðirin mikla brýst út og mun baka tortilla brauðið sjálf frá grunni....jú jú, hef sagt það áður og segi aftur....maður er ekki bara kynþokkafullt glæsikvendi, ónei .

Sprettur heimsborgari

þriðjudagur

I´m alive

Andið rólega kæru aðdáendur því ykkar einlæg er enn á lífi þó blogglífið hafi verið hálfdapurt undanfarna daga. Ég er búin að vera svo ægilega bissí að það hefur bara ekki gefist tími til að reifa daglegt líf. Nenni nú samt ekki að rita atburði síðustu daga í heild sinni.

Folinn átti afmæli í gær og af því tilefni buðum við stórfjölskyldunni í mat á sunnudagskvöldið þar sem boðið var upp á dýrindiskjúklingarétt og svo ísostatertu í desert. Prinsessan og Stóra stelpan höfðu líka bakað gulrótarköku sem við leyfðum fólkinu að njóta as well.
Fimmtudegi og föstudegi í síðustu viku, sem og fyrripart gærdagsins, eyddi ég við vinnu úti í bæ þar sem tími var komin á að leyfa fleirum að njóta samveru með mér. Fékk þar vinnuaðstöðu á skrifstofu með tveimur eðaldrengjum sem voru ósköpu viðkunnalegir og fínir, sjálfsagt aldrei verið með annan eins feng sem mig svona up close. Enda varð þeim lítið úr verki þessa daga og yfirmenn þeirra sjálfsagt dauðfegnir að vera lausir við mig svo starfssemi geti hafist að nýju í fyrirtækinu.

Folinn og Unglingurinn fóru í paintball á föstudagskvöldið með fjölda fólks úr Heimsklassanum, ég var ómögulega að nenna svo ég sat heima með Prinsessuna og við horfðum á Idolið. Vorum ekki alveg sáttar við úrslitin en svona er þetta bara. Helgin var nokkuð róleg fyrir utan matarboðið á sunnudaginn. Prinsessan byrjaði í Enskuskólanum á laugardagsmorguninn og renndi ég mér á æfingu í Laugum á meðan þar sem tekið var allharkalega á því og eru harðsperrurnar að líða úr fótleggjunum í dag. Tók svo cardio og nokkrar magaæfingar á sunnudaginn í Spönginni.

Í gær var brjálaður dagur í vinnunni og var ég ekki komin heim fyrr en kl. fimm sem mér þótti frekar seint þar sem ég er vanalega til fjögur. Prinsessan beið þar eftir mér og við skutluðumst í Laugar þar sem ég tók æfingu og hún skottaðist með pabba sínum þar til þau síðan fóru heim aftur. Handleggirnir titruðu nokkuð mikið að lokinni æfingunni og hefði mér verið boðin greiðsla fyrir að setja á mig maskara stóráfallalaust hefði ég sjálfsagt þurft að afþakka það.

Jæja, nú eru bara þrír dagar í París hjá okkur hjónum svo nú er komin tími til að fara að verða svolítið spennt.....hef alveg verið laus við tilhlökkun og spenning sem er alveg nýtt fyrir mér. Ég ákvað að skrifa það alfarið á þroska og innri ró sem ég hef greinilega þróað með mér sjálfri mér alveg að óvörum. Annars lítur út fyrir að árið verið ferðalagaár hjá okkur hjónum. París á föstudaginn, Kaupmannahöfn í lok Apríl, stefnt á Amsterdam með vinahjónum í september og að lokum Nýja Sjáland í 3-4 vikur um jólin með krakkana. Engar utanlandsferðir planaðar í sumarfríinu, gönguferð í Héðinsfjörðinn, með tvennum vinahjónum og börnum, nú fer hver að verða síðastur að fara þangað í ómengaða náttúruna. Ég skil afskaplega vel afstöðu Siglfirðinga til þessara ganga þar sem ég er nú einu sinni fædd og uppalinn í þeirri eðalborg, EN...mér finnst alveg fáránlegt að það eigi að drekkja öllum þessum peningum í slíkt mannvirki sem aldrei kemur til með að borga sig. En það er bara mín skoðun :/

Í dag æfing í Spönginni þar sem Unglingurinn ætlar að skrollast með móður sinni í smá cardio æfingum og tilheyrandi. Honum veitir nú ekki af því að fara að hreyfa sig þessari elsku, Skóli, vinna, sofa, sjónvarp og borða......vantar alveg hreyfinu þarna inní þetta prógramm hjá honum svo nú ætla ég að reyna að koma honum í gírinn. Take Away dagur í dag og mig dauðlangar að ná í eitthvað gott á Austurlandahraðlestina en nenni varla að fara úr Grafarvoginum niður í bæ til að sækja mat....get þá alveg eins eldað hann sjálf þar sem það tæki sjálfsagt svipaðan tíma

Spretturinn út

miðvikudagur

Miðvika...again

Jæja góðir hálsar, þá er þriðja tíma lokið á námskeiðinu góða í HR. Í dag var farið í lögskýringarfræði og helstu lögskýringargögn íslensks réttar, og aðeins farið yfir þjóðarrétt. Skemmtilegur tími í alla staði og kennarinn mjög fínn náungi. Í síðasta tíma var farið í réttarheimildarfræði, helstu réttarheimildir íslensks réttar. Mjög góður tími það. Einn tími eftir sem við ætlum að lengja aðeins til að geta farið yfir Evrópu- og EES rétt. Ég er orðin einstaklega áhugasöm og er að kanna möguleikann á að sitja einn kúrs í sifja- og erfðarétti í HR. Finnst ágætt að byrja á því, ekki mjög fræðilegt en örugglega áhugavert.

Meðan Prinsessan og litli G-strengurinn æfðu fyrir leiksýningu stökk ég á snögga æfingu í Laugum og mættum við Folinn síðan spræk á sýninguna og Skotta litla með okkur þar sem ég hafði sótt hana á leikskólann vegan námskeiðabrölts móður hennar. Að lokinni sýningu var haldið í saltkjöt og læti hjá Systir þar sem flest(allir) átu sig pakkasadda af veigunum. Unglingurinn varð eftir og gisti hjá frænku sinni þar sem hún þurfti að vakna eldsnemma til að sækja Oddinn á flugvöllinn, en hann var að koma úr tveggja vikna ferð frá Florida þar sem hann hafði verið að sinna lífsins mestu lystisemdum, eða spila golf eins og sumir myndu segja J. Rólegt kvöld hjá okkur hjónum, Prinsessan fékk að horfa á dvd í smástund þar sem frí var í skólanum á morgun (í dag). Fór hún síðan með vinkonu sinni og mömmu vinkonunnar í Smáralindina þar sem þær betluðu að mikilli lyst og uppskáru eftir því. Hún er því með falin fjársjóð í læstri kistu í herberginu sínu þar sem birgðir næstu nammidaga eru vel geymdir, var nú samt aðeins smakkað á góðgætinu svona í tilefni dagsins. Var reyndar alveg agalega hneyksluð þegar hún sagði mér frá þeirri staðreynd að sumir krakkar virtust halda að þeir ættu að gleypa allt slikkeríið í sig á öskudaginn sjálfan….fannst þetta frekar vitlaus börn.

Jæja, það er best að fara að henda sér í Spöngina og taka á fótleggjunum þar til ískrar í. Í kvöld er hittingur hjá helstu gyðjum höfuðborgarsvæðisins og mun þar sjálfsagt mikið verða skrafað og slúðrað um þær sem ekki sjá sér fært að mæta. Folinn í körfuboltann svo amma verður líklegast plötuð til að sitja hjá Prinsessunni á meðan.

Spretturinn með sól í hjarta og heiðskíran himinn