Miðvikublogg
Maður er eitthvað svo andlaus í blogginu þessa dagana. Kannski vill maður bara ekki sjá á prenti hvað líf manns er hversdagslegt, nú eða þá að maður er svo ofboðslega spennandi og brjálæðislega upptekinn persóna að það er bara hreinlega enginn tími til að blogga. Ég kýs að vera númer tvö.
Unglingurinn tók uppá því að týna PSP tölvunni sinni í strætó um daginn og setti með því nýtt met þar sem aldrei áður hefur hann átt nokkurn hlut í jafnstuttan tíma eins og þessa leikjatölvu. Að sama skapi held ég að hann hafi aldrei tekið það jafnnærri sér að týna nokkrum hlut. Hér á eftir fer upptalning á nokkrum þeim hlutum sem koma upp í hugann af því sem hann hefur týnt eða skilið eftir einhversstaðar í gegnum tíðina:
Úlpa þegar hann var 6 ára gamall í Vesturbæjarskóla. Hann fékk nýja.
Skólabækur í tugatali frá 6 ára aldri til 14 ára. Hann fékk nýjar.
Sími þegar hann var 13 ára. Hann fannst.
Sami sími þegar hann var 14 ára. Hann fannst.
Fékk nýjan síma í desember sl. sem týndist í febrúar. Hann fannst ekki.
Húfur til að klæða heilan þjóðflokk. Fundust aldrei.
Reiðhjól þegar hann var 6 ára. Fannst aldrei.
Reiðhjól þegar hann var 7 ára. Fannst og týndist aftur. Fannst ekki.
Reiðhjól þegar hann var 7 ára (já annað). Fannst ekki.
Reiðhjól þegar hann var 12 ára. Fannst og týndist aftur. Fannst ekki.
Reiðhjól þegar hann var 13 ára. Fannst aldrei.
Reiðhjól þegar hann var 14 ára. Fannst aldrei.
Tek það fram að flestum þessum reiðhjólum hefur verið stolið því hann nennir ekki að læsa þeim. Tek einnig fram að þessi þrjú síðustu hefur hann keypt fyrir eigin peninga.
Línuskautar þegar hann var 13 ára. Fundust ekki.
Debetkort þegar hann var 14 ára, þrjú stykki. Eitt fannst aftur.
Veski þegar hann var 14 ára (með einu debetkortinu). Fannst ekki.
PSP leikjatölvann sem rann úr buxnavasanum í strætó. Hefur ekki fundist.
Þetta er nú svona það sem kemur upp í hugann í bili :/
Slæmar fréttir í bloggheimum þessa dagana þar sem G-strengurinn dó, þ.e. bloggið hennar. Vinir og vandamenn hafa reynt að telja þessari eðalkonu trú um að hennar verði sárt saknað en hún skellur skollaeyrum við þeim grátstöfum, svo nú er bara að bíða og sjá hvort hún tekur upp þráðinn síðar.
Ég gerðist svo djörf að taka mér æfingafrí á sunnudaginn þar sem ég hafði æft daglega í 10 daga og fannst því tilvalið að slaka aðeins á. Æfði á mánudag og þriðjudag, fer í Spöngina í dag og tek nokkrar lyftur og smá cardio. Er að svitna svolítið á hjólinu þessa dagana, koma mér í hjólaform fyrir vorið svo ég geti hjólað í vinnunna á góðviðrisdögum. Ágætis æfing að hjóla úr Grafarvoginum niður í Efstaleiti, tekur ca. 25 mínútur og svo annað eins heim. Myndi nú ekki nenna þessu nema af því við erum með svo góða aðstöðu hér á stofunni, búningsherbergi, sturta og tilheyrandi. Alltaf verið að reyna að koma þessum lögmönnum í form....gengur ekki neitt ma´r. Ég var með blóðþrýstings-, fitu- og ummálsmælingar í gær. Sumir voða glaðir og aðrir í smá sjokki. Vorum með svona til gamans um miðjan janúar og allir ægilega gíraðir í að koma sér í fínt form fyrir næstu mælingu........gekk ekki alveg eftir hjá öllum. Sumir stóðu sig þó betur en aðrir.
Armbeygjurnar hafa alveg farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér og því lítil framför þar. Tók 48 í fjórum settum í gær sem er í sjálfu sér ágætt. Sé hvort ég næ ekki 30 í einu setti í dag og stefni svo á að reyna upphífingar, án stuðnings, sem mér finnst alveg óheyrilega erfið æfing. Skiptir engu hvaða þyngdir ég er að taka í öðrum æfingum, upphífingarnar eru bara alveg hrikalega erfiðar, held ég nái ekki einu sinni tveimur án stuðnings :/.
Jæja, Prinsessan er að elda í kvöld með Folann sem aðstoðarkokk. Hún fletti fram og tilbaka í uppskriftarbókum í fyrrakvöld og ákvað síðan að elda ítalskar kjötbollur sem verða bornar fram með tagliatelle og fersku salati í Fannafoldinni í kvöld.
Sprettur
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home