After all, tomorrow is another day!

þriðjudagur

Wish you were here....lalala

Wish you were here.......ég á varla orð til að lýsa tónleikum Roger Waters í gærkveldi, æðisgengnir og stóðu fullkomlega undir væntingum og vel það. Stóð og dillaði mér í sæluvímu frá kl. 20:15 – 23:15 þegar tími var kominn til að fara heim. Flottustu og án efa bestu tónleikar sem ég hef farið á og sem haldnir hafa verið hér á landi.

Helgin var nú annars nokkuð ágæt. Tók æfingu eftir vinnu á föstudaginn, nokkuð netta samt, cardio í 45 mínútur og rétt örlitlar magaæfingar. Við Folinn fórum svo í boð til Tönnslunnar á föstudagskvöldið þar sem við fengum ægilega flotta 3ja rétta máltíð og Valgeir Guðjónsson glamraði á gítar og fór með gamanmál. Mikið er maðurinn ægilega skemmtilegur og sjarmerandi, svo kom mér líka algjörlega í opna skjöldu hvað hann er fyndinn og hnyttinn. Ræð hann sem veislustjóra í næsta stórpartý sem haldið verður á mínum vegum J. Tönnslan var ægilega ánægð með hringinn og ekki skemmdi fyrir að hún fékk hálsmen í sama stíl svo nú er hún Esjuð upp alveg hreint.

Á laugardagsmorgun fór Folinn í golfmót sem Systir bauð til f.h. Tæknivals. Við Prinsessan buðum Fimleikadrottningunni með okkur í Laugar þar sem stúlkurnar brugðu sér í sund meðan Spretturinn tók massaæfingu með hrikalegum lyftingum og þriggja kortera cardio á eftir. Var þónokkur fjöldi karlmanna að sprikla á brettunum, flestir að horfa á leik Englands og Paraguay í HM, sem eins og flestir vita fór 1-0, eins og búist hafði verið við. Systir, Oddurinn og fleiri mættu svo í grill á laugardagskvöldinu eftir að golfmótinu lauk, þar sem ljúffeng nautalund og lambafilé með tilheyrandi meðlæti var matreitt ofan í fjöldann.

Aftur var farið á æfingu á sunnudaginn, en þó ekki fyrr en um hádegi. Fór þá í Laugar þar sem ég pústaði og harkaði í rétt tæpa tvo tíma. Rólegheit einkenndu síðan það sem eftir lifði dags og kvölds.

Þetta er án efa alveg einstaklega óspennandi bloggfærsla hér að ofan en ég læt hana þó standa .

Í dag verður farið í Spöngina og lyft og brennt eins og Sprettinum einum er lagið. Enda þýðir ekkert að vera í einhverri spariþjálfun og hætta bara að mæta þegar fyrsti sólargeislinn lætur sjá sig að vori, eins og sumir gera. Uss, ég lagðist nánast í þunglyndi þegar ég þurfti að hætta æfingum í tvo mánuði vegna hnéaðgerðar fyrir 1 ½ ári síðan. Fannst ég öll svo lin og máttlaus og lasburða þar sem ég var vön að hreyfa mig mikið. Skil hreinlega ekki fólk sem gefur sér ekki tíma til að sinna sjálfu sér og heilsunni.

Lýk þessu á heilbrigðu nótunum í dag þar sem Animals diskur þeirra Pink Floyd manna hljómar í eyrum mínum og ég endurlifi sæluvímu gærkvöldsins.

Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home