After all, tomorrow is another day!

miðvikudagur

Ennþá hérna.....

Nú verð ég að taka mig á ef ég á ekki að deyja hægum og kvalafullum bloggdauða. Það er búið að vera svo afskaplega mikið að gera og lítið að segja svo einhvern veginn hefur þetta bara farið fyrir ofan garð og neðan, en nú skal tekið á því.

Náttfatapartý Prinsessunnar heppnaðist með ágætum og skríkjandi smástelpur voru í hverju horni þar til þar duttu út af hver á fætur annarri um og rétt eftir miðnættið á föstudaginn síðasta. Eftir það var helgin bara nokkuð róleg, kíktum í lunch með Stóru stelpunni og Tengdadótturinni á laugardaginn þar sem sú Stóra hafði átt afmæli á föstudeginum. Skruppum í bió á laugardagskvöld og vorum með matarboð á sunnudagskvöld. Mikið fyndist mér það mikilvægt baráttumál að reyna að fá þriggja daga helgar inn í vinnuviku fallega fólksins s.s. my self. Þvílíkur munur það er að fá þennan aukadag. Eins gott að Samfylkingin fann nú ekki upp á þessu í kosningabaráttunni því þá hefði ég kannski þurft að kjósa Dag hans fylgifiska. Æfingum var sinnt af kostgæfni um helgina þar sem brunað var í Laugar bæði sunnudag og mánudag, en laugardagurinn tekinn í Spönginni.

Anyways, í gær útskrifuðust börnin úr skóla en útskrift Prinsessunnar var aðeins “less formal” þar sem hún náði í einkunnaspjaldið sitt og fór svo í framhaldinu í skólagarðana þar sem hún setti niður haug af kartöflum og bar svo hestaskít á herlegheitin til að sprettan yrði nú góð, eins og hún útskýrði mjög vel fyrir fáfróðum foreldrum sínum. Unglingurinn fékk örlítið formlegri útskrift þar sem grunnskólagöngu hans er nú loks lokið og við tekur nú alvara lífsins. Ægilega hátíðlegt og fínt þar sem skólastjóri hélt góða ræðu um það sem framundan var og sjálfsagt enginn unglingurinn hefur hlustað á með báðum eyrum, en hvað um það. Nokkrir krakkar komu fram með ræðu, söng og fiðluleik sem var ofboðslega skemmtilegt að hlusta á enda getur Grafarvogurinn af sér eintóm undrabörn. Fjöldi viðurkenninga voru veitt fyrir framúrskarandi árangur í hinu og þessu og voru það þrjár stúlkur sem stóðu bara á sviðinu og skiptu þessu bróðurlega á milli sín eins og góðra stúlkna er siður. Var síðan boðið upp á kökur og góðgæti. Þetta var nú allt gott og blessað fyrir utan eitt......BUBBAtónleikarnir voru á sama tíma og höfðum við Folinn fengið boð um að mæta í kokteilboð og síðan á tónleikana, boð sem við að sjálfsögðu ætluðum að þiggja, enda um einstakan viðburð að ræða. Lítið vissum við þá að útskrift Unglingsins yrði á sama tíma. Úr varð að Folinn fór á tónleikana en Spretturinn á útskrift drengsins. Prinsessan fylgdi móður sinni og amma og afi kíktu með okkur.

Ég hef ekkert hjólað í vinnuna í tvær vikur, aumingjaskapur og ekkert annað. Hef reyndar þurft að hafa bíl í einhver skipti þar sem ég hef verið að erindast, suma daga hefur rignt og rokið, sem er ekki það ákjósanlegasta veður sem ég get hugsað mér þegar kemur að hjólreiðum. Enda er ég sparihjólari og hjóla bara í góðu veðri svo það er eins gott að sumarið fari að láta sjá sig, enda orðin langþreytt á endalausum kuldaköstum, rigningu og roki. Vita veðurguðirnir ekki að það er komið sumar á klakanum??

Framundan er kveðjupartý/afmæli á Rauða húsinu á Eyrarbakka á föstudagskvöld, en Elfa tannlæknir býður þar til veislu þar sem hún mun halda til Alabama í framhaldsnám í lok mánaðarins. Við ætlum þó að reyna að ljúka því sem byrjað var á í kjafti Spretts áður en tannsan heldur út í heim.

Í næstu viku eru aðrir stórtónleikar, með Roger Waters, sem við Folinn fengum boð á og munum ekki láta fram hjá okkur fara enda eru Pink Floyd í miklu uppáhaldi og best hefði náttúrulega verið að fá þá snillinga hér saman en þiggjum það sem næstbest er.

Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home