After all, tomorrow is another day!

föstudagur

Helgin framundan

Skæður vírus gengur nú um bloggheima og ræðst á menn og tölvur af ógurlegu afli og eru einkennin helst í formi ægilegrar ritstíflu. Þetta veit ég því bæði í gær og dag hefur það tekið mig örfáar mínútur að renna yfir mína uppáhaldsbloggara sem er náttúrlega með öllu óhæft. Getur mögulega verið að líf okkar allra sé svo óspennandi að ekki sé frá neinu að segja? Ef svo er þá á ég nokkur ráð við því. Til dæmis er alltaf hægt að grípa til hinna vandmeðförnu verkfæra lyga og skáldskapar og búa til einhver skemmtilegheit.

Í gær fór ég til hans Olla klippara þar sem hann fór faglegum fingrum um makka minn og litaði hann og klippti eftir kúnstarinnar reglum. Nú er ég fögur sem aldrei fyrr og stunur og andvörp heyrast hvar sem ég fer, svo hugfangið er fólk af mér. En þessu er ég nú aldeilis vön svo ég læt það ekki á mig fá. Mest finn ég til með ljóta fólkinu samt sem er svolítið harkalega minnt á eigin ljótlega þegar það sér mig. Ég reyni því að forðast slíka sjónmengun því það er ekki hollt fyrir mig að upplifa of mikið af slíku.

Ég keypti afmælisgjöf fyrir Tönnsluna og varð esjuhringur eftir Hendrikku Waage fyrir valinu (www.hw.is), grænn að lit og ægifagur. Ég er næstum því bara klökk yfir hvað mér þykir hann er fallegur, en samt mest af eftirsjá því mig langar svo ógurlega mikið að eiga hann sjálf. Í kvöld munum við Folinn svo renna austur fyrir fjall þar sem Tönnslan býður til veislu í Rauða húsinu, downtown Eyrarbakki. Ég ætla að reyna að halda aðeins aftur af sjarmatröllinu sjáfri mér, svo ég skyggi ekki á Tönnsluna, því það er aldrei vel séð á slíkum samkundum. Ég reyni því að tóna útgeislun mína og sjarma niður um nokkur þrep.

Sprettur farin í helgarfríið

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home