After all, tomorrow is another day!

mánudagur

Letilíf

Fínasta helgi að flestu leyti. Eftir æfingu á föstudaginn var brunað heim og sláturgerðin tekin með stæl ásamt tengdó og foreldrunum. Unglingurinn tók virkan þátt þar sem hann sat og saumaði keppi. Prinsessan var einnig mjög áhugasöm og sá um að skammta mörina og rúgmjölið í blöndurnar. Laugardaginn byrjaði ég með æfingu og skrapp síðan með Unglinginn í Menningarmiðstöðina miklu, Kringluna, þar sem hann festi kaup á einhverjum fatnaði sem og tölvubúnaði sem er honum lífsnauðsynlegur til að geta spilað einhvern ógurlegan tölvuleik. Um kvöldið töfraði ég fram kjúklingapizzuna frægu og Unglingurinn bauð félaga sínum í mat. Þeir hafa ekki komist á séns það kvöldið þar sem pizzan innheldur um það bil heilan hvítlauksakur.

Sjaldan hef ég nú samt átt daga eins og í gær, sunnudag. Vaknaði fyrir allar aldir til að keyra Unglinginn á flugvöllinn þar sem hann hélt í skólann á ný eftir þessa stuttu helgarheimsókn. Fyrir hádegi fór Folinn í körfubolta eins og landslög gera ráð fyrir á sunnudögum og eftir það ætlaði hann að skjótast á svartfuglsveiðar með félaga sínum. Prinsessan ákvað að fara í Húsdýragarðinn með vinkonu sinni og var þar allan daginn. Þegar húsið var orðið tómt gerðu einhverjar undarlegar kenndir vart við sig hjá Sprettinum rétt í því sem átti að halda á æfingu, kenndir þessar eru mér er ókunnar með öllu, eða svona allt að því. Vissi því ekki fyrr en letin tók öll völd og ég fylgdi bara með eins og vel þjálfaður sirkustrúður. Ekkert varð úr æfingu, né nokkru öðru ef út í það er farið, þann daginn. Lá ALLAN daginn í lazyboy sófanum í sjónvarpsherberginu, ég og hundurinn með risaskjáinn, poppkorn og peanut butter M&M sem ég úðaði samviskusamlega í mig á meðan ég naut samvista við Carrie, Samantha, Charlotte og Miranda, Mr. Big og allar þær kynlífs- og sálarflækjur sem gera þættina einmitt svo ægilega skemmtilega. Ég rankaði við mér um hálfsjöleytið þegar Folinn kom heim með fullan poka af svartfugl, haglabyssan vel söltuð og öll skotin búin. Mér hafði tekist að klára seríu nr. 2 af Sex & the City og með henni einn popppoka, hálfan poka af M&M, tvær karamellur, 4 tekex, fjóra bita af suðusúkkulaði, eitt mjólkurglas, 2 djúsglös, eitt súkkulaðimöffins og hálfan pakka af extratyggjói. Í þokkabót var síðan ekkert eldað heldur skotist á American Style og keyptir feitir hamborgarar með frönskum og kók. Eftir þennan leti og sukkdag get ég með sanni sagt að mér leið verr en mér hafði lengi liðið, höfuðverkur, slen, illt í maganum og almennur aumingjaskapur hrjáði mig þar til ég sofnaði um kvöldið, hafði rétt rænu á að tannbursta mig áður en ég datt á koddann. Svaf ekki vel og finn að svona sukklíferni á ekki við mig. Mun líða langur tími þar til slíkt verður tekið fyrir aftur, ef þá nokkurn tíma, a.m.k. þannig að gleymt verði þvílíkan toll þessi hroðbjóður, sem sumir vilja kalla afslöppun en aðrir leti, tekur af bæði hug og kropp. Mun því mæta galvösk í Spöngina eftir vinnu í dag og taka vel á því til að hreinsa viðbjóðinn út. Úff hvað það er erfitt að lifa letilífi, mun helst ekki leggja það á mig í framtíðinni.

Sprettur haugur :/

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home