After all, tomorrow is another day!

þriðjudagur

Komin úr fríinu...í bili :)

Aldeilis sumarfríið hefur nú verið fínt. Við höfum þvælst aðeins um landið með hjólhýsið í afturdragi en þó líka verið ógurlega heimakær og haldið mikið til í borginni þar sem tíminn hefur verið notaður í æfingar, kaffihúsaferðir, afslöppun, lestur og ýmislegt annað uppörvandi og skemmtilegt. Flestir dagar hafa þó byrjað með æfingum Sprettsins sem tekur ekki í mál að sleppa slíkum munaði þó farin sé í frí, enda eru það forréttindi að nenna að hreyfa sig eins og góður maður orðaði svo vel eitt sinn. Fríið hófst með ævintýraferð í Héðinsfjörðinn sem hafði verið skipulögð ásamt tvennum vinahjónum og afkvæmum þeirra. Rennt var í Ólafsfjörðinn þar sem mágkona mín og maður hennar tóku vel á móti okkur og lánuðu hús í eigu fjölskyldunnar undir ferðamenn. Við gistum þó í hjólhýsinu en húsið kom að góðum notum þegar elda átti fyrir stóran hóp svo ég tali nú ekki um salernisferðir manna, kvenna og barna. Á laugardagsmorgni var svo nesti smurt í stórum stíl því nú skyldi haldið í langa göngu þar sem stefnan var tekin á Héðinsfjörðinn. Lentum við í hinum ýmsu veðrum á leið yfir fjallið, svosem roki, rigningu, örlítilli sól en þó var ágætis gönguveður lengst af. Þar sem snjóaði í lok maí þarna norðan heiða var þónokkur snjór í fjöllum ennþá sem við strunsuðum yfir eins og ekkert væri og renndum okkur svo niður hinum megin börnunum til mikillar ánægju. Mikil mýri var á leiðinni og þrátt fyrir góða gönguskó var maður orðin svolítið blautur í fæturna þegar á leið. Börnin 3 sem voru 5, 8 og 9 ára stóðu sig eins og hetjur, kvörtuðu aldrei og gengu alla leiðina fyrir utan þann yngsta sem borinn var í mesta brattanum og tekinn á hestbak í tví- eða þrígang á leiðinni í smátíma í senn. Í heildina tók þessi ganga okkur rétt tæpa níu tíma sem var þónokkuð lengri tími en við höfðum ætlað en við gengum alveg niður að sjó sem bætti líklega u.þ.b. 11/2 tíma við þessa venjulegu göngu sem farin er niður að Héðinsfjarðarvatni. Í fjörunni beið báturinn sem siglt hafði frá Ólafsfirði með tjöld og vistir til útilegunnar sem átti að vera 2 dagar. Um það bil 10 mínútum eftir að báturinn fór kom þvílíkt rok að ég hef aldrei á ævinni upplifað annað eins. Við ætluðum aldrei að koma tjöldunum upp og endaði með því að þurfti að bera rekaviðsdrumba að tjöldunum og binda stögin við, setja stór grjót á tjaldhælana sem ruku upp í rokinu um leið og þeir höfðu verið settir niður. Allt tókst þetta að lokum og um miðnættið fengum við okkur að borða og tóku menn og börn til við að byggja bálköst í fjörunni því nóg var um marga metra langa rekaviðsdrumba allt í kringum okkar. Logaði í bálinu allan tímann sem við dvöldum í firðinum. Ég nenni nú ekki að segja alla ferðasöguna hér, en það var veitt, drukkið hvítvín, elduð nautalund, leikið í fjörunni og ýmislegt annað þessa tvo daga áður en báturinn sótti fólkið en þá brast á með þvílkri blíðu og var siglt í Ólafsfjörðinn þar sem svaðilfararnir skelltu sér í sund með tilheyrandi stunum og andvörpum, enda fólkið ekki farið í sturtu né þvegið sér að ráði í tvo daga, eftir að hafa lent í hinum ýmsu veðrum og vaknað sveitt í svefnpokum.
Nú er maður mættur til vinnu á ný, í bili að minnsta kosti. Ætlunin er svo að taka örlítið frí í september og skella sér eitthvað út í heim í nokkra daga, bara við tvö, Berlín eða Amsterdam koma sterklega til greina en þó er ekkert ákveðið.

Á sunnudaginn var haldið ógurleg veisla fyrir Prinsessuna á heimilinu sem varð 9 ára í gær. Mikið af góðu fólki mætti og gæddi sér á góðum veitingum og færði henni pakka í tilefni dagsins og það var þreytt en ægilega ánægð stelpa sem fór í háttinn þann daginn. Í gær var henni svo boðið í ferðalag með ömmu og afa og ætla þau að vera í tvo daga í burtu svo hún kemur líklega á morgun. Afskaplega skrýtið að hafa hana ekki heima. Folinn flýgur síðan á Egilsstaði á föstudagskvöld þar sem hann gistir og mun síðan freista þessa að skjóta eitt stykki hreindýr á laugardaginn áður enn hann flýgur aftur heim. Ég hef hlakkað til að fá þessa sömu steik á diskinn minn í allt sumar svo það verður tvöföld ánægja fyrir mig á laugardagskvöld þar sem Folinn kemur heim með tarf :)

Nú fer að líða að því að Unglingurinn heldur á vit ævintýranna og fer norður í land þar sem hann verður námsmaður næsta vetur ef vel gengur. Hann tók ákvörðun um að sleppa MS og fara í menntaskólann að Laugum sem ætti að verða mikið ævintýri fyrir drenginn og vonandi þroskandi og fræðandi á sama tíma. Hann er að minnsta kosti orðinn spenntur að fara. ;)

Búið í bili,
Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home