After all, tomorrow is another day!

föstudagur

Fótbolti....

Alveg er merkilegt hvernig sumum getur tekist að stýra umræðu heils hóps þegar ljóst er að meira en helmingur hópsins hefur ekki áhuga á umræðuefninu. Í hádeginu á vinnustað Sprettsins er heit fótboltaumræða afskaplega oft í gangi hjá nokkrum karlmönnum sem starfa með mér og er hádegið í dag þar með talið. Persónulega finnst mér allt í lagi að spjalla létt um fótbolta annað slagið, enda horfi ég á HM og einstaka leiki í ensku deildinni og hef gaman af, en þetta getur verið helvíti leiðinlegt svona endalaust að hlusta á umræðu um einhvern leik sem allir horfðu hvort eð er á, þessi leikmaður átti sko ekki að fá aukakast, þessi leikmaður var bara ekki í gírnum osfrv. Þetta er óskaplega fast í hausnum á sumum því þeim tekst meira að segja að snúa heitu slúðri um þjóðþekkta einstaklinga upp í fótboltaspjall því viðkomandi hafði einhverntímann spilað fótbolta með 3. flokki Vals!!!
Að auki eru þeir ekkert sérstaklega spenntir þegar þeir heyra okkur stelpurnar tala um fótbolta, sem ég skil ekki því við vitum nú aldeilis ýmislegt er snýr að boltanum. Fabio Cannavaro er t.d. ótrúlega flottur, ógurlega kynþokkafullur og fallegur með eindæmum og það að hann er frekar lágvaxinn skiptir ekkert svo miklu máli því það sést ekkert á vellinum þegar hann stendur við hliðina á hinum Ítölunum. Ofvaxni álfurinn hann Wayne Rooney er einstaklega óaðlaðandi drengur, smekklaus og kolvitlaus að auki. Calvin Klein auglýsingin með Freddie Ljungberg er alveg brjálæðislega vel gerð og hann er nú ekkert lítið heitur sá sænski. David Beckham þykir okkur einnig frekar flottur á kroppinn, svo framarlega sem hann talar ekki mikið. Hann er líka alltaf svo töff í tauinu. Rio Ferdinand og Michael Ballack má horfa á sér til skemmtunar þar sem þeir falla alveg í flottustrákafælinn. Ronaldinho er ógurlegt krútt, en þyrfti að heimsækja tannréttingasérfræðing við tækifæri og Ronaldo mætti nú alveg við því að slaka aðeins á í skyndibitanum, hefur bætt aðeins á sig strákurinn. Oliver Kahn þykir ekkert sérstaklega smart í tauinu utan vallarins og þyrfti að leita á náðir stílista áður en hann fer næst út á meðal fólks og þótt svo Zidane sé ekkert endilega svo myndarlegur þá er nú þessi hráa karlmennska sem gerir hann dáldið flottan, allavega í fjarlægð. Luis Figo þyrfti að koma sér upp góðum skammti af botox, hann er svo ægilega krumpaður greyið og Fernando Torres, OMG hafið þið séð lærin á stráknum.

Ekki segja að stelpur hafi ekki vit á fótbolta.

Enn og aftur verð ég að viðurkenna þá staðreynd að ég á það til að detta inn í ameríska lágmenningu þegar kemur að sjónvarpsglápi. Það sannast best á því að þegar Folinn fer í sinn miðvikudagskörfubolta þá sitjum við mæðgurnar og horfum á America´s Next Top Model, sem súperskvísan Tyra Banks stjórnar. Stelpurnar verða ómerkilegri, vonlausari og minna í þær varið með hverri þáttaröðinni. Þeir í Ameríkunni eru kannski orðnir uppiskroppa með flottar stelpur, gæti verið. Það besta við þættina, eins og ég hef áður sagt, eru síðustu mínúturnar þar sem maður fær að berja Nigel Barker ofurhönk augum og andvarpa örlítið yfir því hvað hann er flottur og svo veitir ekkert af að hafa smá karlmennsku til að vega aðeins upp á móti drottningunni Ms. Jay.

Í gær fékk ég komment frá gömlum skólafélaga, sem neitar reyndar að ljósta upp nafni sínu en ég mun komast að síðar hver er. Ýmsar minningar frá unglingsárunum spruttu upp í huganum, mismikilvægar en allar mjög skemmtilegar. Ég var óttalegur villingur á unglingsárunum og mátti minnstu muna að Foreldrarnir enduðu á hæli fyrir vikið, en þau sluppu fyrir horn. Við vinkonurnar vorum náttúrulega flottustu og heitustu stelpurnar in SigloCity, að okkur fannst, og þótti okkur bekkjarfélagarnir margir frekar lúðalegir. Stelpurnar voru t.d. ekki farnar að mála sig, klæddu sig eins og smástelpur og skrópuðu aldrei í skólanum. Strákarnir í bekknum voru flestir óttarlegir mömmustrákar og algjörir fábjánar, við umgengumst sko ekki svona litla strákalinga sem voru ekki nógu gamlir til að keyra og eiga bíl svo við höfðum hvort eð er engin not fyrir þá. Enda vorum við svo þroskaðar sko :/

Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home