After all, tomorrow is another day!

mánudagur

Veðurguðirnir

Eftir röska göngu frá Efstaleitinu í Fannafoldina, sem tók um það bil 50 mínútur, á föstudaginn var farið að pakka niður útilegugallanum á fjölskylduna og svo haldið var austur á bóginn í átt til Kirkjubæjarklausturs með hjólhýsið góða. Vorum að spá í að renna norður en nenntum eiginlega ekki að keyra svo langt fyrir svona stuttan tíma. Höfðum það afskaplega gott á klaustri, fórum í smáfjallgöngu með Prinsessuna og vinkonu hennar sem fékk að fljóta með í ferðalagið, lásum, borðuðum og höfðum það notalegt. Vantaði reyndar sundlaugina sem búið var að rífa, en í bígerð er að byggja nýja á næstunni svo við komum bara með sundgallann næsta sumar. Runnum inn í borgina um fjögurleytið í gær og enduðum í grilluðu lambalæri hjá foreldrunum í gærkveldi ásamt Systir, Oddinum og afleggjurum þeirra.

Folinn tók fram hjólið sitt í morgun og hjólaði í Heimsklassann í Laugum þar sem hann ætlaði að taka æfingu með Rafvirkjanum. Það kom því í minn hlut að sjá um Prinsessuna í morgunsárið. Sú stutta var í þreyttari kantinum í morgun eftir annasama helgi og kannski líka svolítið eftir að hafa farið frekar seint að sofa í gær. Spretturinn fór því á Þjóðverjanum ógurlega í dag en ætla nú samt að ganga heim eftir vinnu og skilja bara þann stóra eftir hér í Efstaleitinu og sæki hann svo bara í kvöld. Ætla að mæta í Spöngina í dag og taka léttar lyftingar en mun þó ekki stoppa lengur en í ca. 40 mínútur þar sem labbið tekur tæpan klukkutíma heim. Hef ekki samvisku í að bregðast aðdáendum mínum sem hafa sjálfsagt beðið með óþreyju eftir gyðjunni alla helgina. Prinsessan er svo upptekin þessa dagana að leika sér úti með krökkunum að hún tekur vart eftir því því þótt maður láti sig hverfa í smátíma.

Ég hef á tilfinningunni að það séu samantekin ráð veðurguðanna að vera með eitthvert hópgrín í okkur hér á Klakanum. Kannski einhverskonar samkvæmisleikur þar á bæ. Ráðast inn á Klakann með bongóblíðu og öðrum tælandi veitingum í formi sólskins og hita, svo þegar maður er rétt að átta sig á því að maður er bara sáttur við þessa lúmsku tælingu og búin að taka fram minipilsið og hlírabolinn, þá kippa þeir fótunum undan tilveru saklauss fólks og drekkja því í rigningu og kulda, eins og við séum saklaus tilraunadýr í efnafræðitíma alheimsins. Í dag fáum við sól í gegnum mistrið og ágætis hita. Á morgun er okkur lofað aðeins hærra hitastigi og kannski pínulítið meiri sól. Á miðvikudaginn lækkar hitastigið um nokkrar gráður og sólin fer í frí á Snæfellsnesið. Á fimmtudaginn heldur hitastigið áfram að lækka um nokkrar gráður í viðbót, dimmir aðeins yfir og rigningin dettur inn í öllu sínu veldi. Á föstudag og laugardag hættir nú reyndar að rigna en hitastigið er ennþá eins og í meðalísskáp hjá vísitölufjölskyldu í Árbænum.
Þetta er ástæðan fyrir því að ég skil ekki fólk sem talar um að síðasta sumar hafi nú verið svo frábært…blablabla….og fólk segir þetta á hverju ári. Mín skoðun er sú að við Íslendingar erum svo fádæma góðir í sjálfsblekkingarleikjum (enda höldum við því blákalt fram að við séum hamingjusamasta fólk í heiminum þrátt fyrir myrkur á níu mánuði ársins og alvarlegan skort á sól og hita hina þrjá) að þegar veðurguðirnir heiðra okkur með sól og 10+ gráðu hita í tvo og hálfan dag á einu sumri þá eru það einu dagarnir sem minnið kærir sig um að varðveita og útkoman verður því öll þessi frábæru sumur sem við höfum átt síðastliðinn ár. Ég á til dæmis móðursystur á SiglóCity sem segir alltaf þegar talað er við hana “Hvað segirðu, er kalt fyrir sunnan…það er nú sko bara eins og á Majorka hér á Sigló núna”……blindbylur og búið að loka göngunum…….

Ég spái 29 stiga hita um miðja næstu viku í bland við snjókomu og eldingar.

Sprettur veðurfræðingur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home