After all, tomorrow is another day!

þriðjudagur

Hjólagleði

Vorið komið í Sprettinn sem nýtir morgunsólina í hjólreiðar og rennir sér til vinnu í góða veðrinu. Hjólaði í og úr vinnu á fimmtudag og tók æfingu í Spönginni eftir það, hjólaði í og úr vinnu á föstudag en engin æfing eftir það. Tók þess í stað æfingu á laugardag og mánudag. Hjólaði í vinnu í morgun en næ líklega ekki að taka á því í Spönginni eftir túrinn heim þar sem uppskeruhátíð er í körfuboltanum hjá Prinsessunni sem byrjar kl. 18:00 og er ætlast til að við mætum með veitingar með okkur svo við mæðgurnar munum útbúa eitthvað hollt og gott fyrir þessa fínu hátíð. Það er bara eitt sem ég ekki skil og það er fólk sem segist ekki hafa tíma til að fara í ræktina eða hreyfa sig á einhvern annan hátt.....en þetta sama fólk hefur tíma til að horfa á sjónvarpið á hverju kvöldi, hefur tíma til að sitja á kaffihúsum eftir vinnu með listaspírunum og menningarvitunum og svo mætti lengi telja. Stundum segist fólk ekki getað hugsað sér að fara strax eftir vinnu frá börnunum en veit samt ósköp vel að börnin eru hvort eð er ekkert heima að hanga yfir foreldrunum, heldur úti að leika við vinina. Ekki misskilja mig, ég hef ofboðslega gaman af því að fara á kaffihús og sitja þar og spjalla við góða vini, ég horfi líka á sjónvarpið á hverju einasta kvöldi og börnin mín eru langt frá því að vera vanrækt sökum hreyfingarfíknar móðurinnar. Þetta er allt spurning um forgangsröðun og skipulag. Ég vinn fulla vinnu, ég fer í ræktina nánast daglega, ég elda á hverju einasta kvöldi, húsið mitt er alltaf hreint og fínt (með hund á heimilinu) og samt get ég sinnt manni og börnum nokkuð vel. Ég hef bara ekki áhuga á að rotna og daga upp af einskærri leti og leiðindum svo ég segi bara við ykkur letihaugana, drullist nú upp af ykkar lata rassi og farið að hreyfa ykkur áður en þið verðið orðin of gömul og þreytt til að geta nokkurn skapaðan hlut. Það eru forréttindi að NENNA að hreyfa sig.

Við hjónin skruppum í bíó um helgina og sáum Inside man með Clive Owen, Denzel Washington og fleiri góðum. Spike Lee mynd en þó í allt öðrum dúr en hans myndir almennt eru, en var bara nokkuð góð.....þrjár * af fjórum. Áður en við fórum í bíó var tekinn smá rúntur um borgina og fór hungur að herja á okkur hjónin svo við ákváðum að fá okkur eitthvað létt í gogginn. Enduðum í burger og tilbehör......ójá, mín fékk sér sko feitan hamborgara með frönskum og alles. Fæ mér, eins og gefur að skilja, afskaplega sjaldan slíkan hroðbjóð en finnst það voðalega gott meðan á átinu stendur....síðan er ég með óbragð í munninum næstu klukkutímana á eftir og er mér því nauðsynlegt að hafa stóran poka af Extra tyggjói við höndina til að deyfa ógeðiseftirviðbjóðsbragðið í munninum.

Framundan er stutt vinnuvika eina ferðina enn sem vekur alltaf lukku hjá Sprettinum. Samkoma glæsikvenda er áformuð á fimmtudagskvöldið í Laxakvíslinni og víst er að þar verða reiddar fram ljúffengar veitingar að hætti húsmóðurinnar þar á bæ. Síðan verður líklega farið í samkomusumarfrí þar sem hver mun sinna sínu fram á haustið. Einhvern veginn hittumst við nú samt alltaf nokkuð oft í þessum ”fríum” okkar þar sem það vill jú þannig til að flestar erum við systur, frænkur og bestu vinkonur hvort eð er. En skipulagður hittingur liggur í dvala yfir sumarmánuðina eins og áður sagði.

Spretturinn hjólandi kveður í bili

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home