After all, tomorrow is another day!

föstudagur

Vinnuvikan senn á enda

Hjólreiðar til og frá vinnu hafa gengið afskaplega vel. Er jafnan með rokið í andlitinu á heimleið og þá sérstaklega í Bryggjuhverfinu sem virðist vera með einkaleyfi á roki alla daga. En það reynir þá bara aðeins betur á lærvöðvana. Í dag var hjólið geymt heima og ákveðið að ganga heim eftir vinnu. Það ætti að taka tæplega klukkutíma að komast úr Efstaleitinu í Fannafoldina svona ef maður gengur hvorki hægt né hratt.

Unglingurinn er nú á kafi í samræmdum prófum og hefur hingað til gengið ágætlega, nema í dönskuprófinu sem var núna í morgun, gekk sæmilega sagði hann enda danska eiginlega hans veikasta fag en eingöngu vegna þess að ef hann fengi að ráða þá yrði tungumál frænda vorra í Danaveldi sjálfsagt flokkuð með leiðinlegustu uppfinningu allra tíma. Hans mælikvarði þegar maður spyr hvernig gekk í prófinu er eitthvað á þessa leið....”ágætlega, svona átta fimm”.

Litla fjölskyldan ætlar að skella sér í ”útilegu” um helgina, ef hægt er að kalla það útilegu að fara í ferðalag með hjólhýsið, því ekki er legið úti þegar slíkri græju er fyrir að fara. Set hér með í gang samkeppni um besta nafnið á slíkt ferðalag fyrir þá sem kjósa að vera með hjólhýsi, tjaldvagna, fellihýsi osfrv. þá mætti sá hinn sami endilega skjóta því nafni að mér hér á vefnum. Í verðlaun er árituð mynd af gyðjunni mér . Ekki er endanlega ákveðið hvert á að fara heldur fer það bara eftir veðurspánni, sýnist þó að það verði annaðhvort Kirkjubæjarklaustur eða bara norður í land.

Þar sem ég verð ekki á svæðinu yfir helgina og mun því ekki mæta í Spöngina í fyrramálið þá vona ég nú að helgin verði ekki ónýt hjá ljóta fólkinu sem treystir á að ég mæti því til ánægju og yndisauka. Ég mun bæta þeim það upp með tvöfaldri innkomu á mánudaginn. Annars verð ég komin með svo hrikalega stinna lærvöðva ef ég held áfram að vera dugleg að hjóla að fótleggjafegrun í Klassanum mun kannski leggjast af í einhverjar vikur. Þó mun ég að sjálfsögðu mæta að minnsta kosti 4x í viku í Klassanum, auk hjólreiðanna, því ekki má maður bregðast aðdáendum sínum.

Síðasta samkoma okkar glæsikvenda var í gærkveldi hjá Ellu, sem töfraði fram grillaðar kjúklingabringur með piparostasósu og tilheyrandi gúmmulaði......slurp og slef segir maður nú bara eftir slíka veislu.

Mér þykir yfirleitt alveg fíflalegt hvað hægt er að setja í ”fréttirnar” en er samt alræmdur sökker fyrir slíkum ”fréttum” sem allajafna gengur undir nafninu slúður.....helst vil ég nú samt frekar líta á það sem þjónustu við aðdáendur að vera bara upplýst um það hvað fræga fólkið er að gera eða ekki gera. Eini munurinn á mér og svo roooooosalega mörgum er sá að ég trúi yfirleitt ekki nema í mesta lagi 50% af því sem ég les og skoða en þykir engu að síður gaman að fletta slíkum tímaritum og síðum á netinu. Allavega, ferskt slúður um Beckham dúkkurnar. Þau segjast nú ólm vilja eignast dóttur og hafa lagst í rannsóknir á því hvernig það megi helst takast. Eitt af þeim ráðum sem þau hafa fengið er að stunda kynlíf standandi (hélt reyndar að karlmaður ætti alltaf að vera standandi..... :/ ). Þetta er svona svipað og að segja að ef þú borðar 7 poka af M&M með hnetusmjöri þá geturðu flogið........en ég get nú ekki ætlast til þess að allir séu jafnskynsamir og ég.

Jæja kæru vinir þá kveð ég í bili og geng hægt inn í helgina á leið út úr bænum.

Sprettur slúðrari

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home