After all, tomorrow is another day!

fimmtudagur

Þjófóttir unglingar á SigloCity

Að vera unglingur á Sigló var mikið ævintýri, en ekki er víst að foreldrum mínum hafi fundist ég jafnskemmtilegur unglingur og mér sjálfri fannst. Var ýmislegt gert sem ekki hefði verið vinsælt hjá þeim ef upp hefði komist. Við vinkonurnar fundum okkur alltaf eitthvað uppbyggilegt að gera ef okkur leiddist og dæmi um einn slíkan dag er þegar ég, ásamt Bylgju og Möggu Dís, ákváðum að gera okkur klárar í ránsferð um bæinn. Ekki voru nú margar verslanir í plássinu en við röltum á milli og tókum þar traustataki ýmsar nytjavörur fyrir unglinsstelpur. Í Versló unnu margar góðar konur sem af einhverjum ástæðum voru ekkert að fylgjast neitt sérstaklega með þremur grunsamlegum stelpum sem ekki voru að kaupa neitt heldur bara hanga í búðinni. Fengurinn úr Versló var stórt net (poki) af appelsínum. Þaðan lá leiðin í Kaupfélagið sem var nú mun auðveldara viðfangs og þá aðallega vegna stærðar. Ekki man ég sérstaklega hvað við tókum í Kaupfélaginu en það hefur sjálfsagt verið eitthvað bráðnauðsynlegt eins og appelsínurnar. Eins og gefur að skilja vorum við orðnar ansi þreyttar og taugastrekktar eftir slíka ferð sem þessa og ákváðum því að enda bara í búðinni hjá Önnu Láru og láta gott heita. Búðin hennar Önnu Láru seldi nú ýmislegt en þó mest fatnað og eitthvað af snyrtivörum. Amma Gunna vann nú hjá henni sem saumakona en ekki man ég hvort hún var að vinna þennan dag. Það var ekkert sérstaklega auðvelt að hnupla úr búðinni hennar Önnu Láru því hún hafði yfirleitt auga með okkur. Þá þóttist ein jafnvel þurfa að máta buxur eða eitthvað slíkt svo hinar fengju frið til að athafna sig. Þetta var eiginlega skipulögð glæpastarfssemi mætti segja. Út fórum við með tvo augnskugga, annan appelsínugulan hinn túrkisbláan, algjört möst . Leiðin lá heim til ömmu Gunnu sem var nú hálfpartinn amma allra barna á Sigló sem kærðu sig um það, en þó átti ég nú mest í henni því hún var sko mín alvöru. Á þessum tíma hélt ég dagbók og við færðum samviskusamlega inn í þá góðu bók allt sem gerst hafði þennan viðburðaríka dag og hvað við höfðum upp úr krafsinu. Dagbókin innihélt einnig ýmsa aðra leyndardóma sem enginn vissi, eða veit, hverjir eru nema þessar tvær vinkonur mínar. Ég var hjá ömmu og afa í "pössun" í einhverja daga því mamma og pabbi höfðu brugðið sér eitthvað í burtu. Meðan á dvölinni stóð geymdi ég bókina ofaní gömlum plötuspilara hjá ömmu. Sá var ævarforn og hafði ekki verið opnaður í fjölda ára svo ég taldi leyndarmálum mínum óhætt þar. Eitthvað annað spennandi hefur tekið yfir næstu daga svo ekkert var skrifað í bókina og gleymdist hún um hríð. Líklega hafa liðið einhverjar vikur áður en ég mundi eftir því að hún var þarna hjá ömmu svo ég ákvað að ná í hana og viti menn......plötuspilarinn var horfinn, ekki bara úr herberginu heldur húsinu og ekki gat ég spurt hvert því ég var skíthrædd um að amma hefði kíkt ofaní, lesið bókina og nú væru allir mínir leyndardómar á yfirborðinu. Ég beið bara eftir að við vinkonurnar yrðum handteknar og færðar fyrir Óla löggu fyrir þessa skipulögðu glæpastarfssemi okkar. Sá dagur kom nú ekki en ég hef ennþá aldrei þorað að spyrju ömmu hvort hún hafi fundið þessa bók, en líklega hefur hún bara farið á haugana með græjunni án þess að eftir henni væri tekið. Ekki man ég nú heldur hvort appelsínurnar voru borðaðar þann daginn en augnskuggarnir voru sko aldeilis nýttir þar sem ég og Sibba vinkona tókum alveg ægilega fantasíuförðun hvor á annarri og tókum svo myndir því okkur fannst við svo æðislegar.

Ætli þetta sé fyrnt?

Sprettur þjófótti

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home