After all, tomorrow is another day!

þriðjudagur

Mjallhvít.....allavega að hluta

Hetja dagsins er Sprettur sem kom heill á húfi úr svaðilför sinni til Elfu tönnslu í gær. Hvítar tönnslur í efri góm skína nú skært og brosa fallega í átt að silfurnámunum sem eiga heima bæði á móti og á neðri hæð munnsins. Næsti tími eftir viku og aldrei að vita nema ég verði örlítið slakari þá. Þegar þessu hvíttunarferli mínu verður lokið er fegurð mín fullkomnuð með tönnum hvítum sem fönn og brosi blíðu sem bræðir sig inn i hjörtu hinna verstu leiðindapúka og svartsýnismanna.

Eftir ævintýri gærdagsins ákvað ég að sleppa bara ræktinni þar sem örlítill eftirverkur gerði vart við sig er líða fór á seinni hluta dagsins. Mun því mæta tvíefld í dag og bæði lyfta og hlaupa af krafti. Stefni síðan á að hjóla í vinnuna á morgun ef ekki verður sú hellirigning sem spámenn sjónvarpsstöðvanna lofuðu höfuðborgarbúum í veðurfréttatíma gærkvöldsins. Mig er farið að vanta góðar harðsperrur svo kroppurinn gleymi sér ekki í viðjum vanans, svo ég er að hugsa um að taka smá krók á æfingunni á eftir til að hrista vel upp í vöðvum sem hafa sofið síðan á laugardaginn.

Hvítasunnuhelgin framundan sem er vel þegin þar sem hún er lengri en aðrar helgar. Prinsessan verður með náttfatapartý á föstudagskvöld/nótt og mun ég því eiga von á 5 fræknum bekkjarsystrum hennar sem ætla að mæta með tannbursta og góða skapið ásamt náttfötum, dýnum og svefnpokum. Planið er að þær borði eitthvað einstaklega spennandi og gott, fái ís í eftirmat sem síðan mun taka púlsinn á meltunni meðan þær stuttu ætla að dansa trylltan dans við nýjast disk Prinsessunnar “Pottþétt 40”. Að því loknu á að tylla sér í rólegheit og spila eitthvað skemmtilegt og gæða sér á volgu poppkorni og eplasafa. Að sjálfsögðu verðum við Prinsessan búnar að undirbúa þetta aðeins og ryðja til í stofunni fyrir dýnur og tilheyrandi svo ég tali nú ekki um pláss til að sveifla skönkunum í takt við danstónlistina. Skemmst frá því að segja að þær eru afskaplega spenntar og ég er klárlega langvinsælasta mamman í vinahópnum.

Nú er skólinn að klárast hjá börnunum og er Unglingurinn því afskaplega feginn. Hann byrjar í sumarvinnunni hjá Ísaga á föstudaginn og verður síðan að vinna aukalega í World Class aðra hvora helgi svo hann ætti nú aldeilis að geta safnað sér örlitlum aur í sumar, svona þegar búið er að borga upp lánin sem hann fékk fyrir því sem vantaði uppá til að kaupa mótorfákinn og tilheyrandi græjur. Er hann því stórskuldugur ömmu og afa og smáskuldugur okkur Folanum.

Sprettur út

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home