After all, tomorrow is another day!

fimmtudagur

Miðvikudagsbull

Jæja börnin mín stór og smá, miðvikudagur enn á ný og helgin nálgast með ógnarhraða. Alltaf gott þegar tíminn er fljótur að líða en að sama skapi kannski ekkert svo gott þar sem það þýðir að við eldumst mjög fljótt og áður en við vitum af er veru okkar á Hótel Jörð bara lokið. Ég mun að sjálfsögðu staldra lengur við en meðaljónan þar sem allir vita að fegurð, umburðarlyndi, drenglyndi, djörfung, hugrekki og allar þessar bestu dyggðir, þær lengja lífið um fjölda ára. Ég fékk nú eiginlega of stóran skammt af þessu öllu í vöggugjöf svo ég sé fram á að verða langelsti Íslendingur sem sögur fara af. Ef ég ætla ekki að lifa í 200 ár þá verð ég að fara að tóna aðeins niður þessar dyggðir mínar. Ég get nú samt ekki hugsað mér að fara að verða einhver dómhörð, óþolinmóð, stjórnsöm skvetta því það er bara einhvernveginn ekki ég. Ég er nú samt bara venjuleg manneskja eins og þið hin, kannski aðeins fallegri og glæsilegri en samt bara manneskja þrátt fyrir allt.

Yfir í allt annað.....Unglingurinn minn er búinn að finna draumahjólið í Nítró og seldi hlutabréfin sín í Glitni áðan til að fjármagna kaupin á gæðingnum sem er af ætt Yamaha 125cc, árgerð 2005 og kostar litlar 499.000 krónur svo það er eins gott að vera ekkert að drullumallast neitt á svona dýru hjóli því það gæti bara skemmst. Veit samt ekki hvort hann er sammála mér í því. Þetta er nú ekkert ósvipað hjólinu sem hann átti í fyrra, bara nýrri týpa....held ég
Prinsessan er búin að skrá sig í skólagarðana sem fara í gang í byrjun júní. Þar ætlar hún að rækta ýmislegt góðgæti handa fjölskyldunni í sumar, t.d. kartöflur, rófur, blómkál, brokkolí og einhverjar þrjúþúsund tegundir í viðbót sem þau fá þegar þau mæta. Ekki ónýtt það. Einnig ætlar hún á íþróttanámskeið hjá Fjölni í júní og svo reiðnámskeið í Faxabóli í ágúst. Nóg að gera hjá henni í sumar sýnist mér.

Fór lengri leiðina heim á hjólinu í gær, svona til að finna muninn á átakinu og tímanum. Tekur aðeins meira í lærin og er svona u.þ.b. 8-10 mínútum lengra svo ég næ aðeins betri æfingu út úr því svo ég mun líklega fara þá leiðina aftur.

Bloggstíflan sem heltók Sprettinn um daginn virðist ætla að hafa einhverja viðdvöl áfram svo þetta er í styttri kantinum þessa dagana .

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home