Tannlæknar
Í dag mun ég fara í skemmtiferð í Kópavoginn þar sem Elfa tannlæknir ætlar að útrýma silfurfyllingum úr munni mínum. Ég hef fengið kvíðaköst annað slagið alla helgina, bónað á mér stellið svo venjulegt fólk hefur blindast og gert allar þær ráðstafanir sem mér eru mögulegar með það í huga að kannski þurfi ég bara ekkert að fara til tannlæknis. Svo varð mér það ljóst að ég þarf að sjálfsögðu ekkert að heimsækja hana Elfu því för mín þangað er eingöngu í hégómlegum tilgangi gerð, því engar skemmdir eru í tanngarði Sprettsins heldur á bara að losa málminn og fylla með hvítu eðalefni í staðinn þar sem það er ólíkt huggulegra að vera með hvíta jaxla í stað silfurnámunnar sem þar er nú. Ekki það að maður sé endilega með ginið gapandi ofan í fólk alla daga, en þetta er eitt af því sem ég ákvað að gera fyrir mörgum árum og hef smám saman verið að safna kjarki í. Málið er nú einfaldlega þannig að flestir þeir sem fóru reglulega til Jonna tannsa á Sigló í den eru sjálfsagt haldnir tannlæknafóbíu á hæsta mögulega stigi. Minningin um Jonna Nasista er ljós í mínum huga enn þann dag í dag. Barn að aldri fór Spretturinn í skoðun til tannlæknis eins og flestir. Sumir foreldrar sendu börnin sín reyndar til tannlæknis á Akureyri, sjálfsagt þeir sem vissu hvað djöful Jonni hafði að geyma. Í ljós kom að skemmdir voru í tönnum litla Spretts og voru gerðar ráðstafanir til viðgerðar. Skemmst er frá því að segja að tannlæknir þessi sem lifandi var mættur úr litlu hryllingsbúðinni notaði í fyrsta lagi ekki hanska og var alveg einstaklega vont tóbaksbragð af fingrum hans, í öðru lagi var hann ekkert að setja upp grímu heldur sem var sjálfsagt framhald hansaleysisins og í þriðja lagi þá var mannhelvítið með sígarettuna í munnvikinu svona rétt á meðan hann boraði allt vit úr tanngómum barnsins. Ég prísa mig sæla að hafa þó verið deyfð meðan á öllu þessu stóð en deyfingin var eitt það skelfilegast sem ég hef gengið í gegnum þar sem nálin var þrædd inn eftir tannholdinu þar til mér fannst hún komin aftur í hnakka. Í mörg ár var ég skelfingu lostin við tilhugsunina eina við það að þurfa að fara til tannlæknis en þegar fjölskyldan flutti í borg óttans þá þurfti Spretturinn eitt sinn á þjónustu slíkrar veru að halda. Í rúmar þrjár vikur, frá því tíminn var pantaður og þar til að honum kom, var ég ýmist í afneitun um að ég þyrfti á slíku að halda, eða ég svitnaði og skalf yfir því hvað tíminn var alltof fljótur að líða. Þegar ég síðan mætti með tárin í augunum til tannsa og opnaði munninn þá andvarpar aumingja maðurinn og sagði bara titrandi röddu “hver komst eiginlega í munninn á þér barn”. Í gegnum tíðina hef ég prófað nokkrar tannlækna og fann þar loks einn sem tók bara á mér eins og litlu barna þegar hann sá hvað ég var ógurlega hrædd við hann og þar hef ég verið síðan. Fyrir u.þ.b tveimur árum veiktist hann Tommi minn ægilega mikið og var frá vinnu í langan tíma. Þurfti því að finna annan tannlækni á meðan og þar kom hún Elfa mín til sögunnar, en henni kynntumst við hjónin í Pilates tímum sem við sóttum einn veturinn á laugardögum í lokuðum hópi sem vinur okkar setti saman, en sá er pilateskennari. Allavega þá er Folinn búinn að fara í allsherjar skiptingu á gömlum fyllingum en ég frestaði mínum tímum endalaust þar til að í ljós kom að Elfa er að fara til Atlanta núna í sumar í tveggja ára framhaldsnám í tannskurðlækningum svo það var annað hvort að hrökkva eða stökkva.....ég ætti kannski bara að hrökkva :/
Sprettur í kvíðakasti
Sprettur í kvíðakasti
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home