After all, tomorrow is another day!

mánudagur

Rjómabollur og kjúklingasalat

Helgin var alltof fljót að líða eins og oft vill verða. Fór í kampavínsboðið fína á föstudaginn eftir æfinguna. Þar mættu um það bil hundrað konur sem gæddu sér á indælis veitingum í föstu og fljótandi formi. Á leiðinni heim ákvað ég að koma við á American Style og næla mér í kjúklingasalatið þeirra góða og hammara handa Folanum og Unglingnum sem sátu heima. Á Styleinum var brjálað að gera og hrökklaðist ég því frá og renndi yfir á Ruby Tuesday þar sem ekki var jafnmikið af hungruðu og trylltu mannfólki. Þegar heim var komið með salat og hamborgara kom ástæðan fyrir mannfjöldanum, eða kannski mannskortinum, á Ruby. Hamborgararnir voru svosem allt í lagi skildist mér, en salatið var ein hörmung. Átti að vera kjúklingasalat með grilluðum kjúklingi, beikoni, tómötum og einhverju gúmmulaði. Kjúklingurinn leit út eins og hann hefði verið soðinn en ekki grillaður, ekkert krydd á honum og beikon fann ég ekki þrátt fyrir mikla leit. Kálið sjálft var eins og það sem ég hefði kannski gefið kanínu ef ég vildi vera verulega kvikindsleg við hana. Þar sem ég var afskaplega svöng þá svældi ég þessu í mig á meðan ég rumdi af reiði yfir þessum hroðbjóð. Var ég þó fljót að jafna mig á þessu en ég veit ekki hvort liðið á Ruby verður jafnfljótt að jafna sig eftir mig þegar ég helli mér yfir það í símanum í dag. Ég er nefnilega afskaplega dugleg að láta vita ef ég fæ góða þjónustu og líkar vel við þann sem mér sinnir. EN, ég sit heldur ekki á skoðun minni ef ég fæ slæma þjónustu eða óætan mat á veitingastöðum, sem gerist nú reyndar alveg afskaplega sjaldan....sem betur fer fyrir þá sem þar vinna .

Prinsessan var með fimleikadrottningunni og Sparifrænku þetta kvöld. Unglingurinn lokaði sig inní herbergi með einhverjar videóspólur og við Folinn gláptum á Idolið eins og venja er á heimilinu á föstudagskvöldum. Vorum algjörlega sammála lokum þess þáttar í þetta skiptið svo það er ekki mikið meira um það að segja.

Unglingurinn átti að mæta til vinnu í Heimsklassanum kl. hálftíu svo ég skutlaði drengnum þar sem ég átti jú að mæta á æfingu. Tók þar massamikið á efri hluta líkamans og var komin heim rúmlega hálfellefu. Eftir hádegið var farið að versla og svo tekið til við að undirbúa matarboðið góða sem heppnaðist einstaklega vel í alla staði og fóru allir saddir og sáttir til síns heima rétt fyrir klukkan eitt.

Ákvað að taka frí á æfingu á sunnudeginum þar sem ég hafði æft síðustu sex daga. Hefði eiginlega ekki átt að gera það, þar sem að í morgun mundi ég að engin æfing yrði í dag þar sem við mæðgurnar vorum búnar að ákveða að fara í bíó á Nanny McPhee beint eftir vinnu hjá mér. En þar sem æfingin í dag átti að vera cardio er aldrei að vita nema ég taki eina stutta svoleiðis eftir bíóið sem verður hvort eð er líklega búið um hálfsex. Ég er nefnilega ein af þeim sem fer aldrei á æfingu eftir kvöldmat, svo ef ég af einhverjum ástæðum næ ekki að fara á mínum ”venjulega” tíma, eða svona einhversstaðar í kringum það.....þá bara sleppi ég því frekar.

Unglingurinn fór að vinna eftir hádegið á sunnudaginn og við hin fórum í afmæli hjá litlum frænda sem varð 7 ára. Þar var boðið uppá agalegar kræsingar en því miður var allt sætt og engir brauðréttir né neitt slíkt. Maður úðaði aðeins í sig þar og fór pakksaddur og uppfullur af sykri heim rétt fyrir klukkan sex. Ekki hafði maður mikla lyst á að elda einhvern mat svo það var bara lagst í leti. Eftir kvöldmat var okkur svo boðið í bollukaffi til Sparifrænku í næsta húsi. Þar var sett aðeins meira af sykri í sig. Þegar við síðan komum heim var ég með dúndrandi hausverk og lömuð af sykuráti . Í morgun öskraði kroppurinn hreinlega á næringuna sem hann hafði farið svo skelfilega á mis við í gær. All bran með undanrennu hefur aldrei áður verið svona ógurlega gott verð ég að segja. Setti ekki einu sinn banana útí það áður en ég gúffaði því í mig.

Sprettur out

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home