After all, tomorrow is another day!

mánudagur

Vöknuð af værum blundi

Merkilegt hvað ég get verið dugleg. Á föstudaginn var Folinn rekinn út úr húsi með Prinsessuna og fljótlega tóku að streyma að fagrar konur héðan og þaðan af höfuðborgarsvæðinu. Ákveðið hafði verið að við samstarfskonur myndum hittast og elda okkur dýrindismat og eiga góða kvöldstund saman. Þetta gerum við reglulega og höfum þá einhverskonar þema í matargerðinni. Í þetta skiptið ákváðum við að vera með “thanksgiving” dinner. Ógurlegur kalkúnn var sprautaður stútfullur af smjöri og í hann troðið fyllingu þar til út úr flæddi. Með þessu var ýmiskonar góðgæti, allt saman amerískt að uppruna og þrírétta desert til að “loka” þessu mikla matarkvöldi. Á laugardagskvöld varð hlutverkaskipting þar sem Spretturinn og Prinsessan voru send úr húsi þar sem Folinn var með nokkra vinnufélaga í dinner. Helgin endaði svo í gærkvöldi hjá Foreldrunum í humri og kjúklingi. Ekki dónalegir dagar þetta. Nú þarf ég ekki að borða fyrr en á jólunum þar sem ég úðaði svo ægilega í mig um helgina.

Jólin eru að koma svo nú er er byrjað að versla jólagjafir. Prinsessan sagði í gær, alveg í sjokki “mamma, það eru sko bara sex vikur þar til jólin koma, við verðum að fara að kaupa pakka”......okkur hefur tekist að kaupa þrjá slíka, svo nú eru ekki nema 23 eftir :/ Hugmyndin er sú að vera búin með allt ekki seinna en 1. desember, nema kannski fyrir grislingana okkar og Folann. Svo þarf að vera með eitthvað sniðugt í skóinn fyrir Prinsessuna og passa að jólasveininn skrópi ekki í gluggamætingum því sú stutta er svo ægilega samviskusöm að fara snemma í háttinn um leið og sá rauði boðar komu sína til stilltra barna. Folann verður að fara senda á veiðar ef fjölskyldan á að fá sína rjúpu á jólunum. Unglingurinn verður líklega lítið heima við í jólafríinu þar sem stefnan er tekin á vinnumarkaðinn þessar þrjár vikur sem fríið er. Líklegast verður það í einhverjum stórmarkaðinum þar sem almúginn og nemendur í jólafríi vinna 29 tíma á sólarhring þegar mest lætur í jólaösinni. Það um að gera að láta þetta lið vinna svolítið fyrir aurunum sem það fær svo útborgað, enda ekki ólíklegt að það hali nú inn hátt í hundraðkallinum fyrir þennan mánuðinn. Búið að berjast svo svakalega fyrir hærri lágmarkslaunum að þetta er að setja bankastjóralauninn úr skorðum. En almúginn hefur ekkert við hærri laun að gera, myndi bara eyða honum í óþarfa vitleysu. Vælinn er svo ógurlegur í almúganum að það heimtar alltaf meira og meira, segist þurfa að lifa eins og aðrir í þjóðfélaginu. Hvaða bull er þetta eiginlega, er ekki nóg að eiga fyrir húsaleigu og mat? Einstaka eyðslukló heimtar kannski hikstalaust að eiga bíl til umráða líka. Yfirgangurinn....

Sprettur jólasveinn

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home