After all, tomorrow is another day!

mánudagur

21. febrúar 2006

Það var nú aldeilis fín helgin sem leið. Á föstudagskvöld voru bara rólegheit hjá litlu fjölskyldunni þar sem fylgst var með Idolinu. Úrslitin voru náttúrulega bara skandall og ekkert annað. Það sér og heyrir hvaða fáviti sem er að aumingjans strákurinn að austan getur ekkert sungið. En landsbyggðarfríkurnar slá um hann herborg og kjósa sinn mann hvort sem hann á það skilið eða ekki. Einhver misskilningur í gangi þar sem pakkið heldur að þetta sé vinsældarkeppni og því ekki spurning um hæfileika á söngsviðinu. Unglingurinn var í heimsókn hjá okkur um helgina. Var að vinna á föstudaginn og fékk svo að gista hjá vini sínum.
Laugardagurinn var rólegur framanaf þar sem undirbúningur fyrir árshátíð hófst. Var svo heppin að fá tvær snilldardömur í heimsókn þar sem önnur þeirra sá um hár mitt og hin um andlit. Þegar þær höfðu lokið af sér var ég ægifögur sem endranær og nærri því klár í slaginn. Folinn hafði skellt sér í Baðstofuna og kom nýrakaður og slakur heim. Fordrykkur var á heimili framkvæmdarstjórans og var þar margt um manninn þegar við létum sjá okkur. Að sjálfsögðu sló þögn á mannskapinn og maður heyrði fólk taka andköf af hrifningu þar sem það hafði aldrei séð slíkan glæsileik né fegurð . En hvað um það, mér tókst nú að róa fólkið niður og fá mér einn fordrykk. Árshátíðin var síðan haldin í Glersalnum í Kópavogi. Skil nú ekki hvað er verið að æða með svona heimsborgardömu eins og mig út á landsbyggðina til að halda slíkan viðburð, en það er önnur saga. Skemmtum okkur konunglega, skemmtilegt fólk og skemmtilegar uppákomur.
Silvia Nótt vann Júróvisjón með yfirburðum sem mín fjölskylda er afskaplega ánægð með. Langflottust og komin tími til að senda bara einhvern skrautlegan karakter eins og hana. Svo er lagið líka þrusugott og grípandi. Finnst hún æði
Prinsessan var í pössun og gisti því útí bæ aldrei slíku vant. Við sváfum því á okkar græna til rúmlega hálfellefu er Folinn stökk framúr til að fara á körfuboltaæfingu. Ég ákvað að liggja bara aðeins lengur og láta fara vel um mig. Unglingurinn rumskaði rétt fyrir eitt og ætlaði að fara á körfuboltaæfingu. Eftir þras um það að ég vildi ekki keyra hann í íþróttahús Rimaskóla ákvað hann að hætta við æfinguna og fara í fýlu. Rauk út og sást ekki meir fyrr en seinnipart þess dags. Tek það fram að íþróttahúsið er í u.þ.b. 4 mínútna gangfjarlægð frá heimili okkar. Dagurinn annars rólegur og leti hjá okkur hjónum.
Í gær var okkur boðið í 25 ára afmæliskaffi Tengdadótturinnar og áttum við að mæta kl. 19:30. Eftir vinnu rauk ég því heim þar sem ég átti eftir að fara á æfingu, versla og svo auðvitað elda, áður en við færum til veislu. Þetta tókst allt saman og vorum við mætt rúmlega hálfátta. Unglingurinn var að vinna í Klassanum og ætlaði á körfuboltaæfingu að því loknu svo hann kom ekki með. Við sátum hjá þeim stöllum, ásamt foreldrum Tengdadótturinnar, fram eftir kvöldi og gúffuðum í okkur hinu ýmsa góðgæti.
Folinn fékk úthlutað hreindýri í haust, jibbí. Ekkert sérlega spennt fyrir önd og gæs þegar fer að hausta, sérstaklega ef fuglaflensan lætur nú á sér kræla hér á klakanum, en hreindýrið er alltaf ljúffengt og gott að fá nokkur kíló af því í kistuna þegar fer að hausta.
Spretturinn kveður

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home