After all, tomorrow is another day!

mánudagur

13. febrúar 2006

Mánudagarnir eru einhvern veginn alltaf frekar rólegir hjá mér. Vakna með eindæmum syfjuð því ég er búin að raska svefnvenjum virku daganna með vökum fram á rauða nótt. Engin æfing í dag samkvæmt hinu heilaga æfingaskipulagi. En dagurinn endar kannski í spennu þar sem ég mun leggjast í kör fyrir framan sjónvarpið í kvöld og horfa yfir mig spennt á LOST.
Föstudagurinn var frekar kreisí eftir vinnu þar sem, eins og áður sagði, var von á fullt af fallegu fólki í Fannafoldina. Maður þarf alltaf að undirbúa svoleiðis pínulítið þó svo að keyptur hafi verið kokkur á svæðið til að sjá um veitingarnar. Það þarf að dekka borðið og skreyta sem ég fékk Sparifrænku til að gera og leysti hún það verkefni með sóma. Svo finn ég alltaf þörf hjá mér til að taka allt í gegn áður en húsið fyllist af fólki, þegar ég ætti í reynd að gera það eftir að liðið er farið....en ég er ekki dóttir pabba míns tuskuglaða fyrir ekki neitt . Fólkið fór að tínast inn í sparigöllunum uppúr hálfátta, allir í góðum gír. Maturinn klikkaði ekki hjá Braga frekar en fyrri daginn, snilldarkokkurinn sem hann er. Annars var afskaplega mikil föstudagsstemning í fólki, bara rólegheit og spjall. Ég og Esther frænkulíus vorum offkors alveg óheyrilega skemmtilegar og settum saman smá stjörnumerkjalesningu fyrir fólkið. Það var reyndar alveg merkilegt hvað þessir vinir manns eru annars, kynóðir, stelsjúkir, hórkarlar, latir og svo mætti lengi telja....nema konur í voginni voru náttúrulega bæði fallegar og klárar, svo ég tali nú ekki um kynþokkafullar. Vildi bara akkúrat þannig til að við frænkurnar erum fæddar undir stjörnu vogarinnar....merkilegt nokk segi ég nú bara. Lífið er fullt af tilviljunum.
Ætlaði í ræktina snemma á laugardagsmorguninn en sökum næturbrölts lágum við Folinn í bælinu til að verða ellefu. Stóra stelpan og tengdadóttirin buðu okkur þá í hádegisverð á Miklubrautina svo æfingin varð að bíða betri tíma. Þangað hélt litla fjölskyldan og gæddi sér á kræsingum í kílóavís. Sátum þar eitthvað frameftir degi og spjölluðum, Folinn hafði tekið verkfærakassann með og hamraði saman einhverja hurðarómynd sem hafði gert þeim stöllum lífið leitt undanfarið. Skrapp svo í eina búð sem ég hafði frétt að hefði glæsilega síðkjóla til sölu á fullvaxnar konur, þ.e. yfir 150 cm á hæð, en eins og flestir vita er ég í hærri kantinum og á því stundum erfitt með að fá fatnað sem nær mér niður fyrir miðja kálfa. Óþolandi, eins og ekki sé gert ráð fyrir að neinar konur séu bæði hávaxnar og grannar....ef þú ert hávaxinn hlýturðu líka að vera feit og ef þú ert lágvaxinn þá hlýturðu að vera ægilega petít....hálfvitar....
En ég semsagt fékk þennan guðdómlega síðkjól sem er dragsíður meira að segja þegar ég er komin á hælana, svo nú verð ég langflottust á árshátíðinni næstu helgi...eins og alltaf auðvitað
Fór svo á æfingu í Laugum seinnipart dagsins og svitnaði aðeins. Von var á Sparifrænku í mat sem hafði sagst ætla að koma í veisluafganga, sem hún og stóð við. Ekki var nú mikið um afganga þar sem vinkonur mínar og þeirra menn eru ekki bara fallegt fólk með afbrigðum heldur sælkerar miklir að auki og var litlu leift af kræsingunum frá kvöldinu áður. En við renndum niður restinni svo þetta fór nú ekki til spillis. Unglingurinn var í "pössun" hjá okkur þar sem amma og afi höfðu brugðið sér í bústað um helgina. Hann mætti til vinnu hjá Klassanum hálftíu og vann þar til hálftvö, renndi þá beint með gulu hættunni í seinni vinnuna í Nóatúni þar sem hann afgreiddi brýnustu nauðsynjar til klukkan níu um kvöldið. Folinn skaust eftir honum svo þetta grey þyrfti nú ekki að taka strætó frá Nóatúni í Grafarvoginn kl. hálftíu á laugardagskvöldi, sem hefði þýtt að hann væri kominn heim að nálgast miðnætti. Sat svo litla fjölskyldan og úðaði í sig laugardagsnamminu yfir myndinni Cinderella man með Russel Crowe og Renée Zellweger, sem btw er rosalega góð og mælum við eindregið með þeirri ræmu.
Sunnudagurinn byrjaði með æfingu í Spönginni rétt fyrir hádegið þar sem aftur var legið í bælinu til að verða ellefu. Er heim var komið rétt um eittleytið var Unglingurinn enn sofandi og Folinn enn í körfubolta. Prinsessan bað um að fara í heimsókn til Skottunnar sem hún og fékk. Um miðjan dag var haldið í veislu til fagnaðar 10 ára afmæli Prakkarans, þar sem Prinsessan var jú fyrir að snúllast með Skottunni, og fengum þar dýrindisveitingar enda Systir ekki þekkt fyrir að bera annað fram. Kvöldið rólegt og tiltölulega snemma í háttinn.
Og þá er helgarsögunni lokið að sinni....
Spretturinn kveður

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home