After all, tomorrow is another day!

mánudagur

6. febrúar 2006

Gleðilegan mánudag elskurnar mínar og velkomin á fætur og út í kuldann. Helgin var bara nokkuð góð, nóg að gera í félagslífinu að minnsta kosti. Tók samviskuæfingu á föstudaginn þar sem miðvikudagsæfingin var í léttari kantinum heima við. Eftir sturtu og snyrtingu hélt fjölskyldan í matarboð til tengdó þar sem stórfjölskyldan var stödd og foreldrar mínir einnig. Eftir ljúfar veitingar og létta drykki settist hópurinn niður og horfði á Idolið í nýja 50” skjánum þeirra gömlu. Hvað er eiginlega málið með þessi tvö þarna, Eirík og Tinnu? Þau eru ósköp ágæt bæði tvö en þau hljóta að hafa heilu kaupstaðina með sér úr því þau komast svona áfram viku eftir viku....á engu. Lögreglumál eins og einhver dómarinn sagði, að Angela skyldi detta út í stað annarshvors hinna tveggja. En hvað um það, litla fjölskyldan hélt síðan heim á leið og Prinsessan sofnaði nú fljótt en við hjónin létum fara vel um okkur það sem eftir lifði kvölds.
Á laugardagsmorguninn var vaknað rúmlega níu og byrjaði að gera mig klára í ræktina. Nú skyldi haldið í Laugar og Jóna grjóna tekin með. Hinar pjöllurnar ætluðu svo að hitta okkur í brunch í Café Laugum. Jóna mín er ekkert sérstaklega vön því að vera að lyfta og hamast í tækjasal svo hún var á taugum yfir því að ég skyldi pína hana um of og að hún gæti þá ekki gengið um kvöldið, hvað þá dansað, en ég fór varlega með han. Fengum við tútturnar síðan dásemdarmat og höfðum það huggulegt, slúðruðum og hlógum hver af annarri, því við erum jú allar svo einstaklega fyndnar og miklir gleðipinnar. Skrapp svo í Kringluna og keypti mér topp, hálsmen og ógó flott stígvel í GS. Seinnipartinn komu svo mamma og Esther í smákíkk og Selma fljótlega þar á eftir. Þar sem við erum svo ógurlega miklar skemmtitúttur þá settum við saman snilldarpistil um hana Jónu, sem var að fara að halda 40 ára afmælið hátíðlegt um kvöldið. Prinsessan var sett í geymslu hjá tengdó og við Folinn brugðum okkur í bæinn til að hitta allt þetta skemmtilega fólk sem í veisluna kom, flestir náskyldir mér og því skemmtilegri og fallegri en fólk er flest, þó voru þarna lágstéttarmótmælendur inn á milli eins og kennarar sem hún Jóna vinnur með, en þeir eru nú samt ágætir líka. Mikið fjör og mikið dansað, pistillinn sló í gegn og var mikið hlegið....offkors Þar sem Prinsessan er einstaklega mikill foreldrafíkill var hún búin að taka sjöfalt loforð af foreldrunum um að hún yrði sótt og þyrfti ekki að gista, svo við héldum í Jötnaborgir rétt fyrir klukkan eitt og sóttum hana, steinsofandi að sjálfsögðu.
Sunnudagurinn, uss uss...vill helst ekkert minnast á þá staðreynd að ég fór ekki á æfingu eins og lög gera ráð fyrir. Vöknuðum þegar klukkan var að slefa í hálfellefu og Folinn gerði sig kláran í sína sunnudagskörfu. Ég tók mig til og fór að sinna verkamannastörfum heimilisins svosem að þvo þvott, ryksuga og allskyns svoleiðs störf sem mér eru ekki samboðin. Folinn kom heim og ég bara NENNTI ekki að gíra mig á æfingu svo við fórum bara í smásunnudagsbíltúr eins og hver önnur fjölskylda. Hundurinn tekinn með og honum hleypt á sprettinn í Geldinganesinu, sem honum finnst ægilega fínt. Sóttum Unglinginn og keyrðum hann í Heimsklassann eftir rúntinn þar sem hann ætlaði að horfa á stórleik Liverpool og Chelsea. Mínir menn unnu 2-0 og púlarinn grét sig í svefn.... Annars bara týpískur sunnudagur í alla staði utan æfingaleysis ykkar einlægrar. Prógrammið riðlast því aðeins þar sem ég stökk á æfingu á föstudaginn sem á að vera frídagur og ætli ég renni mér ekki í Spöngina á eina stutta í dag þar sem ekkert varð úr slíku í gær. Næsta föstudag erum við fallegustu konur á höfuðborgarsvæðinu að halda árlegan fagnað þar sem við bjóðum mökum okkar að taka þátt í að tjútta með ”sauma”klúbbnum. Segi ykkur síðar frá því svo þið verðið bara að halda í ykkur og anda djúpt.
Silvía Nótt til Aþenu segi ég, sá endurtekið atriðið hennar í gær og fannst hún bara flottust. Það er líka bara húmor í því að senda svona atriði í þessa austantjaldskeppni úr því við erum að bögglast við að vera með í þessu.
Farin að sinni, en vel farin þó
Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home