After all, tomorrow is another day!

mánudagur

Helgin

Við mæðgurnar skelltum okkur í jólagjafagírinn um helgina og héldum í slíkan leiðangur. Byrjuðum á því að vera ægilega menningarlegar og fórum á Laugaveginn. Þegar við stigum út úr bílnum fyrir utan Landsbankann frusum við á staðnum sökum mikils kulda. Var því skundað á aðeins meira en meðalhraða beinustu leið á Sólon þar sem við settumst niður og blésum hlýju í kalda lófa og pöntuðum okkur hádegisverð ásamt Stóru stelpunni og Tengdadótturinni, smá viðkoma við Kjörgarð þar sem maður einn sat í þessum nístingskulda og spilaði á harmónikku og fannst Prinsessunni bara sanngjarnt að staldra við og kroppa upp nokkra smápeninga til að skilja eftir handa honum svo hann gæti keypt sér eitthvað heitt að drekka. Eftir ágætis veitingar á Sólon, en hræðilega þjónustu, var farið beinustu leið upp Laugaveginn aftur, í bílinn og keyrt upp í Kringlu eins og annað venjulegt fólk sem ekki vildi frjósa í hel. Okkur tókst að kaupa þrjár og hálfa jólagjöf á laugardaginn og svo heimtaði Prinsessan að við færum aftur á sunndag, sem við og gerðum, þar sem við keyptum svo tvær og hálfa jólagjöf. Talsverður tími fór í að finna stóran vörubil handa einum litlum frænda sem á bara eina jólaósk, s.s. stóran vörubíl. Lítið var um slík ferlíki nema þá í verðflokki sem okkur fannst aðeins fyrir ofan skynsemismörkin, ég meina, hver kaupir plastvörubíl handa fjögurra ára gömlu barni á tæplega sjö þúsund krónur......allavega ekki ég.

Æfingar fengu sinn tíma alla síðustu viku og bæði á laugardag og sunnudag, mun Spretturinn því taka rólegan dag í dag og vera heima hjá sér í haugaleti og aumingjaskap, en taka upp þráðinn seinnipartinn á morgun og mæta fersk í Spöngina þar sem tekið verður á kroppnum innan um allt fallega fólkið sem þar æfir (þetta var spes fyrir þig Júlli ;o) )

Sprettur frostrós

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home