After all, tomorrow is another day!

miðvikudagur

Nýtt ár

Ég var minnt á um daginn að desember væri löngu kominn og farinn og því væri löngu kominn tími á að ég uppfyllti skyldur mínar hér á vefnum til að koma í veg fyrir frekara tjón á andlegri líðan aðdáenda minna. En þegar svona eðaltúttur eins og ég eigum í hlut er bara stundum erfitt að sinna þessum skyldum sökum anna í félags- og heimilislífinu svona rétt í árslok. Spretturinn fékk fullt af góðum gjöfum eins og von var á, enda er maður umkringdur gjafmildum og góðum fjölskyldumeðlimum og vinum. Folinn hlóð demöntum á Sprettinn eins og sönnum herramanni sæmir. Börn, systir og foreldrar gerðu einnig afskaplega vel við Sprettinn sem svaraði í sömu mynt og gladdi sitt fólk. Árinu var svo lokað með tilheyrandi sprengingum og látum hjá Systir og Oddinum. Fengum lítið að vera í friði með okkar sprengigræjur þar sem nágrannar flykktust út í glugga og götu til að fylgjast með okkur, enda sjaldan sem slíkur fjöldi fegurra kvenna og karla sést í návígi þarna í sveitinni. Vatnsendabúar eru bara ekki vanir þessháttar uppákomum, enda þarf Systir yfirleitt að yfirgefa hús sitt fyrir allar aldir bara svona til að komast óáreitt til vinnu. Jú jú, fegurðin, kynþokkinn og gáfurnar eru bara eitthvað sem við systur þurfum að læra að lifa með, en það er ekkert alltaf auðvelt.

Á dagskránni er að fara í leikhús á laugardaginn með mágkonu, karli hennar og tengdaforeldrunum. Ætlunin er að sjá “Viltu finna miljón” sem fólk segir að sé ógurlega skemmtilegt og fyndið. Mér finnst nefnilega ekkert gaman að fara í leikhús nema það sé skemmtilegt og fyndið. Við Folinn fórum einu sinni á stykki sem hét “Leitt að hún skyldi vera skækja”. Ég var ekkert að kynna mér þetta neitt sérstaklega áður en miðarnir voru keyptir, ég meina titilllinn hljómar nú ekkert afskaplega dramatískur eða leiðinlegur, en OMG hvað þetta var ekki skemmtilegt. Ég er kannski svona smituð af lágmenningu sjónvarpsins, en leikendur voru þrír, talað var í bundnu máli og fjallaði þetta um systkini sem urðu ástfanginn hvort af öðru og sváfu saman, ímyndið ykkur flækjurnar og dramatíkina í kringum þann drátt. Þetta gæti alveg verið fyndið og skemmtilegt en þess í stað var það það mjög leiðinlegt og langdregið. Svona svipað og að fara í rótarfyllingu til tannlæknis.

Æfingar hafa setið á hakanum frá því á laugardaginn síðasta þar sem Spretturinn fór eitthvað illa í bakinu og gengur því um eins og skakki turninn í Pisa. Ótrúlegt hvað ég er samt aðlaðandi og brjálæðislega sexý þrátt fyrir þetta skrítna göngulag og kvalafullan svipinn á fögru andlitinu. Vona að ég komist í leikhúsið samt.

Já, það hefur lítið breyst í lífi Sprettsins frá því síðast. Allt jafnyndislega fullkomið og skemmtilegt fyrir utan smá ”setback” síðustu daga þar sem ekki hefur verið farið í reglubundnar ferðir í Spöngina og aðdáendur mínir hafa því reitt hár sitt og emjað af vonbrigðum.

Hilsen
Sprettur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home