After all, tomorrow is another day!

fimmtudagur

Súludans

Nýjasta æðið í líkamsræktinni er súludans sem á að koma konum í rokform. Ég var að velta fyrir mér af hverju ekki væri boðið upp á slíkt fyrir karlmenn líka. Þeir hljóta að vera til karlarnir sem hefðu áhuga á slíku námskeiði. Veit ekki hvort það væri samt sniðugt að kenna konum og körlum á sama námskeiði. Myndi sjálfsagt henta betur að hafa þetta kynjaskipt. Sjáið þið fyrir ykkur feita og sveitta karla á slíku námskeiði, umkringdir gyðjum á súlum. Þvílík sjónmengun og þvílík sóun á súlum því það vita allir að þeir karlar sem myndu skrá sig á slíkt námskeið væru líklegast bara að leita eftir ódýrri skemmtun. Svo er það ekkert launungamál að þessi grey eiga oft erfitt með að leyna því hversu illa gefnir og frumstæðir þeir eru og gæti það orðið vandræðalegt í sameiginlegum súlutíma þegar eitthvert dýrið rynni til í eigin slefi og brákaðist á rófubeini. Þar fyrir utan eiga þeir erfitt með að halda einbeitningunni meðan þeir vaska upp, hvað þá að vefja sig utan um súlu, hálfnaktir og umkringdir glæsilegum og kynþokkafullum konum í eggjandi dansi. Hrein og bein ávísun á stórslys að mínu mati. Persónulega held ég að þessi líkamsrækt henti mér ekki og þá kannski vegna þess að nærvera mín myndi sjálfsagt slá flestar konur út af laginu líka.

Sprettur

mánudagur

Teygja teygja teygja

Vorum barnlaus um helgina þar sem Prinsessan var boðin í bústað með ömmu og afa og Skottunni líka. Fórum í bíó bæði föstudags- og laugardagskvöld að sjá Apocalypto og Blood diamond. Báðar alveg fantagóðar og mæli eindregið með að fólk láti ekki fram hjá sér fara.

Æfingar eru hafnar hjá Sprettinum sem þó tekur því rólega og er ekki mikið í lyftingum, en þeim mun meira á brettinu bara í staðinn. Spangarbúar allir voða kátir með að hafa endurheimt þennan fagra kropp sem nú má berja þar augum eftir langt og strangt hlé. Eitt sem ég hef alltaf verið alveg óskaplega löt við er að teygja eftir æfingar. Þegar tímamörkin nálgast þá einhvernveginn dett ég alltaf frekar í að lyfta meira eða hlaupa lengra í stað þess að taka nokkrar góðar teygjur á dýnunni. Og þó ég sé ógurlega sterk og ægifögur þá er ég nú samt stirð sem staur þegar kemur að því að teygja á mínum fögru limum. Markmiðið er því að bæta þar úr og vera dugleg í teygjum og togum eftir hverja æfingu og þar sem ég er einstaklega aðlögunarhæf og frábær í flestu, bara svona frá náttúrunnar hendi, þá verð ég ekki lengi að verða kattliðug og mun fara í splitt og flikkflakk niður Fannafoldina eftir nokkrar vikur, sjálfsagt við mikil fagnaðarlæti frá nágrönnum mínum sem nota einmitt hvert tækifæri til að berja kvendið augum og dæsa og andvarpa af aðdáun í hvert sinn (getur samt verið mjög þreytandi líka). Ég mun skipta mér á milli Lauga- og Spangarbúa næstu vikurnar svo ljóta og óaðlaðandi fólkið getur nú mætt á báða staði svo framarlega sem það er ekki mikið að þvælast fyrir augunum á mér, því slík sjónmengum getur truflað einbeitninguna í teygjunum.

Sprettur

fimmtudagur

Örvæntið ekki

Ég er svo löt í blogginu núna að ef ég kynni að skammast mín, þá myndi ég gera það núna.

Jæja, minns er farin að geta mætt í ræktina á ný eftir tæplega þriggja vikna hlé vegna bakmeiðsla. Ætla samt að kalla það íþróttameiðsl héðan í frá, hljómar miklu betur. Fór með Prinsessuna í Laugar í gær þar sem sú stutta tók netta æfingu í SHOKK salnum á meðan ég fór í mitt prógramm. Unglingurinn mætti líka svo meirihluti fjölskyldunnar fékk sína hreyfingu í gær. Brjáluð stemning í salnum þar sem ca. 200 upphitunartæki voru öll full og köll og klapp reglulega, þar sem Íslendingar voru að taka Túnismenn í.....

Körfubolti hjá Folanum í gærkveldi, Unglingurinn útí bæ að horfa á enska boltann svo við mæðgurnar kúrðum okkur í sjónvarpherberginu og horfðum á okkar vikulegu amerísku lágmenningu, öðru nafni America´s Next Top Model. Nigel alltaf jafnfallegur, Ms. Jay alltaf jafngay, Twiggy alltaf jafn krúttleg og tútturnar alltaf jafnsætar, en missætar þó .

Kíkti örlítið á útsölurnar núna í janúar, keypti smá í Karen Millen, smá í Debenhams og svo ekki meir. Fór svo einn stuttan hring síðustu helgi og niðurstaðan er sú að 90% af þeim varningi sem eftir er á útsölum er drasl af gömlum lagerum verslanna. Fann eina skó sem mig langar í og nú er ég að sjálfsögðu búin að sannfæra sjálfa mig um að mig vanti eitt stykki brún stígvél.....en ekki hvað :/ Ég á bara ein hvort eð er, nema maður telji flatbotna stígvél og kúrekastígvél með....þá eru það þrenn pör, af brúnum, og ég held að flestar konur sem eru með eitthvað vit í kollinum myndu halda því fram að það væri fyrir neðan allar hellur og jafnvel hægt að ganga svo langt að segja að það sé frekar fátæklegt að eiga ekki eitt par af brúnum stígvélum í viðbót. Enda verða svona ógurlegar skutlur eins og ég að eiga nóg af skóm.

Kíki í Spöngina í dag þegar Prinsessan fer á körfuboltaæfingu. Verð ekki lengi að koma mér í fullan gang aftur, nú mega Spangarbúar fara að rífa sig upp á rassgatinu og reyna að gera eitthvað í ræktinni, þýðir ekkert að leggjast í leti og þunglyndi þó svo Spretturinn hafi ekki mætt í nokkra daga. Endalaust álag á manni.

Sprint out

föstudagur

Helgin framundan

Í gærkveldi komu saman glæsilegustu og kynþokkafyllstu gleðipinnar landsins heima hjá G-strengnum. Strengurinn bar fram dýrindis veitingar eins og henni einni er lagið og held að flestar okkar verði vel settar fram á haustið svona matarlega séð, að minnsta kosti tók ég hraustlega til matar míns og borðaði eins og fullvaxin kona.
Mér þykir nefnilega alveg ógurlega leiðinlegt að gefa konum sem borða eins og fuglar mat, rétt tína í sig nokkra pínulitla bita, horfa svo á diskinn, andvarpa og segjast vera pakksaddar. Það skal tekið fram að flestar svoleiðis konur eru náttúrulega 110 á hæð og 3 kíló, en það er víst það heitasta í dag. Nema á tískuvikunni í Milanó, þar þurfa þær víst að vera 4,5 kíló til að fá að vera með. EN, matarlystin er eitthvað sem alltaf hefur verið í lagi hjá okkur Siglotúttum, enda hlægjum við svo mikið að við verðum að hafa eitthvað til að brenna.

Ennþá hef ég ekki komist á æfingu, en úr því verður bætt í fyrramálið því þá ætla ég að skella mér í Laugar og taka þar létta æfingu hvort sem bakið verður komið í lag eða ekki. Stend ekki í svona vitleysu lengur, andleg heilsa mín er í húfi.

Fegurðarkóngurinn hefur komið með þá yfirlýsingu að hann ætli að höfða skaðabótamál gegn forsvarsmönnum Herra Ísland, þar sem hann telur sig hafa orðið fyrir ærumeiðingum og misst vinnunna vegna þessa máls. Úff, sá hann einhver í sjónvarpsviðtali í fyrra vegna málsins? Ég get bara ekki skilið hvernig hann gat stamað út úr sér við einhvern aumingjans lögmann, að hann hafi viljað fara í mál, því miðað við orðaforðann í umræddu viðtali er ég mest hissa á að hann viti hvað “ærumeiðingar” og “skaðabótamál” þýði. Ætli hann hafi einhvern tímann heyrt svona orð áður, kannski í sjónvarpsþættinum sínum? Sjálfsagt ágætisnáungi strákurinn, en hverjum er ekki sama þótt hann hafi misst þennan titil, enda hallæriskeppni og hallæristitill að bera.

Sprettur fagri :)

mánudagur

Ónýt

Líður svolítið eins og vél í gömlum Willy´s jeppa þessa dagana. Bakið alveg að fara með mig og hef ekkert komist á æfingu í heila 9 daga. Bólaði því örlítið á klínísku þunglyndi hjá Sprettinum, sem helst kom fram í formi súkkulaðiáts og var botninum náð þegar morgunmaturinn í gær var einn pakki af Remi súkkulaði ásamt ískaldri undanrennu. Mér til varnar verður þó að koma fram að Folinn stökk alsprækur upp úr rúminu til að fara í körfubolta með félögunum eins og alltaf á sunnudagsmorgnum. Við hlið hans lá hrakið hún ég og vældi yfir eymslum mínum og aumingjaskap sem vonandi sér nú fyrir endann á svona fyrir lok vikunnar að minnsta kosti.

Helgin var annars ágæt þar fyrir utan, Unglingurinn er fluttur í borgina á ný eftir útlegð á haustönn. Fékk hann inngöngu í þann skóla sem var efst á óskalistanum og mætti í sinn fyrsta tíma núna í morgun. Prinsessan bíður spennt eftir að fá að mæta á æfingar í Laugum þar sem opnaður verður salur með tækjum fyrir börn á aldrinum 8-14 ára núna í vikunni. Ógurlega flott og spennó og verður hún án efa fastagestur þar milli körfuboltaæfinga, hún er að minnsta kosti búin að bíða spennt frá því að Folinn tilkynnti að von væri á slíku.

Við fórum annars í leikhús á laugardaginn sem var alveg ágætt. Átti svolítið erfitt með að sitja kyrr svona þegar fór að líða á leikritið, sökum bakverkja. Fórum á viltu vinna miljón sem var alveg þokkalegt og hægt að hlægja af. Eggert Þorleifsson og Laddi voru frábærir í sínum hlutverkum en það sama er ekki endilega hægt að segja um Helgu Brögu. Hún var ágæt framanaf, en þegar kom að því að leika ofurölvi kvenmann þá varð þetta bara vandræðalegt. Kannski Prinsessunni og hennar vinum hefði þótt þetta fyndið, dónt nó. Hvaða fullorðna kona steypist á hausinn ofan í sófa, stendur og hoppar í stofustól eins og bjáni, með orðaforða á við 3ja ára gamalt barn og tóninn sömuleiðis, notar gamla vínflösku sem gítar og baular og raular eins og hálfviti. Ég hef nú séð nokkrar drukknar kellur í gegnum tíðina, en aldrei neitt í líkingu við þetta. Get ímyndað mér að krakki sem dytti í bjórtunnu myndi kannski sýna svipuð viðbrögð við áfenginu.....þetta var svo ofleikið að það var ekki einu sinni fyndið.

Annars hef ég ákveðið að bjóða mig fram til að leysa David Beckham af í eina viku með LA Galaxy. Þarf sjálfsagt ekki að gera mikið þessa vikuna nema bara leysa út launaávísunina sem er samt ekki nema rétt um 70 millur......Annars held ég að Beckham stigi nú ekkert sérstaklega í vitið, enda leitaði maðurinn ráða hjá Tom Cruise áður en hann ákvað að flytja sig yfir og ekki er sá nú alveg heill í hausnum :/

Spretturinn

miðvikudagur

Nýtt ár

Ég var minnt á um daginn að desember væri löngu kominn og farinn og því væri löngu kominn tími á að ég uppfyllti skyldur mínar hér á vefnum til að koma í veg fyrir frekara tjón á andlegri líðan aðdáenda minna. En þegar svona eðaltúttur eins og ég eigum í hlut er bara stundum erfitt að sinna þessum skyldum sökum anna í félags- og heimilislífinu svona rétt í árslok. Spretturinn fékk fullt af góðum gjöfum eins og von var á, enda er maður umkringdur gjafmildum og góðum fjölskyldumeðlimum og vinum. Folinn hlóð demöntum á Sprettinn eins og sönnum herramanni sæmir. Börn, systir og foreldrar gerðu einnig afskaplega vel við Sprettinn sem svaraði í sömu mynt og gladdi sitt fólk. Árinu var svo lokað með tilheyrandi sprengingum og látum hjá Systir og Oddinum. Fengum lítið að vera í friði með okkar sprengigræjur þar sem nágrannar flykktust út í glugga og götu til að fylgjast með okkur, enda sjaldan sem slíkur fjöldi fegurra kvenna og karla sést í návígi þarna í sveitinni. Vatnsendabúar eru bara ekki vanir þessháttar uppákomum, enda þarf Systir yfirleitt að yfirgefa hús sitt fyrir allar aldir bara svona til að komast óáreitt til vinnu. Jú jú, fegurðin, kynþokkinn og gáfurnar eru bara eitthvað sem við systur þurfum að læra að lifa með, en það er ekkert alltaf auðvelt.

Á dagskránni er að fara í leikhús á laugardaginn með mágkonu, karli hennar og tengdaforeldrunum. Ætlunin er að sjá “Viltu finna miljón” sem fólk segir að sé ógurlega skemmtilegt og fyndið. Mér finnst nefnilega ekkert gaman að fara í leikhús nema það sé skemmtilegt og fyndið. Við Folinn fórum einu sinni á stykki sem hét “Leitt að hún skyldi vera skækja”. Ég var ekkert að kynna mér þetta neitt sérstaklega áður en miðarnir voru keyptir, ég meina titilllinn hljómar nú ekkert afskaplega dramatískur eða leiðinlegur, en OMG hvað þetta var ekki skemmtilegt. Ég er kannski svona smituð af lágmenningu sjónvarpsins, en leikendur voru þrír, talað var í bundnu máli og fjallaði þetta um systkini sem urðu ástfanginn hvort af öðru og sváfu saman, ímyndið ykkur flækjurnar og dramatíkina í kringum þann drátt. Þetta gæti alveg verið fyndið og skemmtilegt en þess í stað var það það mjög leiðinlegt og langdregið. Svona svipað og að fara í rótarfyllingu til tannlæknis.

Æfingar hafa setið á hakanum frá því á laugardaginn síðasta þar sem Spretturinn fór eitthvað illa í bakinu og gengur því um eins og skakki turninn í Pisa. Ótrúlegt hvað ég er samt aðlaðandi og brjálæðislega sexý þrátt fyrir þetta skrítna göngulag og kvalafullan svipinn á fögru andlitinu. Vona að ég komist í leikhúsið samt.

Já, það hefur lítið breyst í lífi Sprettsins frá því síðast. Allt jafnyndislega fullkomið og skemmtilegt fyrir utan smá ”setback” síðustu daga þar sem ekki hefur verið farið í reglubundnar ferðir í Spöngina og aðdáendur mínir hafa því reitt hár sitt og emjað af vonbrigðum.

Hilsen
Sprettur

mánudagur

Helgin

Við mæðgurnar skelltum okkur í jólagjafagírinn um helgina og héldum í slíkan leiðangur. Byrjuðum á því að vera ægilega menningarlegar og fórum á Laugaveginn. Þegar við stigum út úr bílnum fyrir utan Landsbankann frusum við á staðnum sökum mikils kulda. Var því skundað á aðeins meira en meðalhraða beinustu leið á Sólon þar sem við settumst niður og blésum hlýju í kalda lófa og pöntuðum okkur hádegisverð ásamt Stóru stelpunni og Tengdadótturinni, smá viðkoma við Kjörgarð þar sem maður einn sat í þessum nístingskulda og spilaði á harmónikku og fannst Prinsessunni bara sanngjarnt að staldra við og kroppa upp nokkra smápeninga til að skilja eftir handa honum svo hann gæti keypt sér eitthvað heitt að drekka. Eftir ágætis veitingar á Sólon, en hræðilega þjónustu, var farið beinustu leið upp Laugaveginn aftur, í bílinn og keyrt upp í Kringlu eins og annað venjulegt fólk sem ekki vildi frjósa í hel. Okkur tókst að kaupa þrjár og hálfa jólagjöf á laugardaginn og svo heimtaði Prinsessan að við færum aftur á sunndag, sem við og gerðum, þar sem við keyptum svo tvær og hálfa jólagjöf. Talsverður tími fór í að finna stóran vörubil handa einum litlum frænda sem á bara eina jólaósk, s.s. stóran vörubíl. Lítið var um slík ferlíki nema þá í verðflokki sem okkur fannst aðeins fyrir ofan skynsemismörkin, ég meina, hver kaupir plastvörubíl handa fjögurra ára gömlu barni á tæplega sjö þúsund krónur......allavega ekki ég.

Æfingar fengu sinn tíma alla síðustu viku og bæði á laugardag og sunnudag, mun Spretturinn því taka rólegan dag í dag og vera heima hjá sér í haugaleti og aumingjaskap, en taka upp þráðinn seinnipartinn á morgun og mæta fersk í Spöngina þar sem tekið verður á kroppnum innan um allt fallega fólkið sem þar æfir (þetta var spes fyrir þig Júlli ;o) )

Sprettur frostrós